23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4504 í B-deild Alþingistíðinda. (3788)

432. mál, hörpudisksmið í Breiðafirði

Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Örstutt. Það kom fram hjá mér hér áðan að ég hafði ekkert við það að athuga, og það hefur aldrei komið neitt fram hjá mér hér um það, að bátar í Grundarfirði fengju leyfi til þess að veiða skel. Hins vegar hefur gagnrýni mín beinst að því að fjölgað væri vinnslustöðvum við Breiðafjörð. Áhyggjurnar eru byggðar á því að við óttumst að gengið verði of nærri miðunum. Reynslan er yfirleitt sú að eftir því sem vinnslugetan eykst, því meiri ásókn verður í auðlindina. Og ég vil benda á og ítreka það að lögin um samræmdar veiðar og vinnslu voru sett til þess að geta spornað gegn þeirri þróun.