30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

80. mál, einingahús

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Eins og aðrir hv. þm. sem hér hafa talað verð ég að lýsa vonbrigðum með þau svör sem hér voru lesin frá stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins. Það þarf engum blöðum um það að fletta og mönnum er það ljóst að einingahúsin hafa valdið og hafa haft í för með sér verulegar breytingar í húsnæðismálum hér. Það sýnir bara sá fjöldi þeirra húsa, sem risinn er víðs vegar um land, og það sýna líka þær verksmiðjur, sem tekið hafa til starfa víðs vegar um land til að framleiða þessi hús, að þessi framleiðsla á meira en fullan rétt á sér.

Nú er svo að einingahúsaframleiðendur hafa skrifað húsnæðisstjórn vegna þessarar ákvörðunar og með leyfi forseta langar mig til að vitna til bréfs þeirra. Þar stendur:

„Meginástæða fyrir hinni greiðu afgreiðslu lána til kaupenda einingahúsa á undanförnum árum hefur verið hinn skammi byggingartími sem náðist með tilkomu einingahúsaframleiðslunnar. Þar hafa því farið saman hagsmunir húsbyggjenda sem og einingahúsaframleiðenda, sem aftur hefur leitt til lækkunar byggingarkostnaðar þessara húsa. Enn fremur hafa einingaverksmiðjurnar orðið einn vænlegasti vaxtarbroddur í húsnæðisiðnaðinum víða um land. Meginundirstaða þessarar farsælu þróunar undanfarin ár hefur einmitt verið sá skilningur, sem ríkt hefur í stjórn Húsnæðisstofnunar, að saman fari svo sem kostur er fjárstreymi og framkvæmdahraði. Ómæld áhrif þessa skilnings má sjá víða um land. Af fyrrgreindum ástæðum er óþarft að fjölyrða um hvílíkt reiðarslag ákvörðunin frá 19. sept. varð okkur sem og öllum öðrum hlutaðeigendum þessa máls. Það má t.d. benda á að þróun einingaframleiðslunnar hérlendis hefur dregið stórlega úr innflutningi húsaeininga í íbúðar- og sumarhús undanfarin ár. Þetta hefur án vafa aukið hlut þeirra sem að byggingariðnaði starfa hérlendis.“

Í þessu bréfi kemur greinilega fram að þetta hefur leitt til lækkunar byggingarkostnaðar andstætt því sem haldið er fram í svari húsnæðismálastjórnar sem ég leyfi mér að draga mjög í efa að sé rétt. En ég fullyrði að hæstv. ráðh. muni hafa víðtækan stuðning við það að breyta þessari ákvörðun. Hins vegar sagði hæstv. ráðh. áðan að hann væri ekki samþykkur þessari ákvörðun stjórnar Húsnæðisstofnunar ríkisins að öllu leyti. Og ég spyr þá hæstv. ráðh.: Er hann samþykkur þessari samþykkt að einhverju leyti eða er hann alls ekki samþykkur henni? Mér fannst það ekki koma nægilega skýrt fram í máli hans áðan. En ég er þeirrar skoðunar að það eigi að knýja á við stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins að hún breyti þessari afstöðu sinni, hún breyti þessari nýju reglu. Þetta skiptir verulegu máli fyrir þau fjölmörgu fyrirtæki víðs vegar um land sem hafa farið af stað í þessari framleiðslu sem hefur gefið mjög góða raun og átti við vissa byrjunarörðugleika að etja, en ég fullyrði að stenst samkeppni og stenst þær gæðakröfur að sumu leyti betur sem gerðar eru en ýmis þau hús eða húshlutar sem flutt eru inn frá öðrum löndum, enda er þetta hannað af íslenskum iðnaðarmönnum og með sérstöku tilliti til íslenskra aðstæðna. Það væri mikill skaði skeður ef þessi samþykkt húsnæðismálastjórnar bregður fæti fyrir eðlilega þróun í þessari framleiðslu hér.