23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4504 í B-deild Alþingistíðinda. (3790)

432. mál, hörpudisksmið í Breiðafirði

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég held að rétt sé að það komi fram í þessum umræðum að þetta er ekki í fyrsta skiptið á því tímabili sem liðið er frá því að Hraðfrystihúsi Grundarfjarðar var veitt vinnsluleyfi að rætt er um málin á svipuðum grunni og hér er gert núna. Frá því að byrjað var að veiða skel í Breiðafirði hefur jafnan verið deilt um hvert einasta nýtt leyfi sem veitt hefur verið. Í upphafi veiða voru tvær stöðvar í Stykkishólmi. Fljótlega hætti önnur þeirra vinnslu og þá var eftir ein. Þegar sótt var eftir því að stöðvarnar yrðu tvær í Stykkishólmi komu svipaðar fullyrðingar fram: að það væri verið að ganga á stofninn. Þegar sótt var eftir þriðju stöðinni og þegar sótt var eftir því að veitt væri leyfi á Brjánslæk og í Flatey, þá hófst sami söngurinn. En það komu reyndar líka eins og núna fram óskir um það að skelfisksstofninn yrði rannsakaður vel. En því miður hefur það ekki verið gert sem skyldi. Fullyrðingar um að verið sé að ganga á stofninn og að verið sé að ganga einu skrefi of langt núna með veitingu vinnsluleyfisins í Grundarfirði hafa ekki við rök að styðjast fyrr en við sjáum aðra hluti. En það er kannske of seint þegar það kemur í ljós að þar sé verið að ganga á stofninn. Þess vegna legg ég áherslu á það að gengið verði til mjög ítarlegra rannsókna á skelfisksstofninum í Breiðafirði svo að það þurfi ekki að vera að fullyrða það alveg út í bláinn að verið sé að ganga of langt í veiði á þessum stofni. Að mínu mati hefur ekki verið um neina sönnun að ræða nema síður væri, vegna þess að við hverja aukningu hefur það alls ekki komið fram að gengið væri um of á stofninn eins og kom fram í ræðu hæstv. sjútvrh. hér áðan. Ég skal viðurkenna það hér að þessi skoðun mín byggist á því að það eigi ekki að vera neitt bundið, ákveðið svæði þar sem þessum skelfiski megi landa. Við eru komnir út í Grundarfjörð. Næst verður það Ólafsvík og sjálfsagt verður það næst Rif og þá með þeirri fullvissu að við séum ekkert að ganga á þennan stofn.