23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4513 í B-deild Alþingistíðinda. (3802)

402. mál, lögreglustöð í Garðabæ

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svarið við þessari fsp. og þær upplýsingar sem komu fram í máli hans, og þá fyrst og fremst þær að nú hefði hagsýslustofnuninni og norsku fyrirtæki verið falið að gera sérstaka úttekt, eins og hann orðaði það, á skipulagi lögreglu- og dómsmála á þessu svæði. Það eru út af fyrir sig ágæt tíðindi, en hins vegar rifjar það upp söguna sem oft er gott að hafa til hliðsjónar.

Með leyfi, herra forseti, vildi ég gjarnan mega vitna í bréf sem skrifað var í október 1978. Það er frá þáv. dómsmrh., núv. forsrh., Steingrími Hermannssyni, og er einmitt um þetta sama atriði. Þar segir, með leyfi forseta:

„Framtíðarskipan á löggæslu á öllu höfuðborgarsvæðinu, þar með talinn Garðabær, er nú til athugunar í rn. Vonast ég til þess að á grundvelli þeirrar athugunar verði gerð breyting á skipulagi löggæslu á þessu svæði er hafi það m. a. í för með sér að þjónusta lögreglunnar við íbúa Garðabæjar batni verulega frá því sem nú er.“

Tilvitnun lýkur í bréf Steingríms Hermannssonar þáv. dómsmrh.

Þetta bréf rifjast upp fyrir mér þegar ég heyrði svar hæstv, dómsmrh. um nýja athugun á þessu máli. Þær eru nefnilega ekkert nýjar af nálinni, athuganir, en ég hlýt samt að vona það, eins og aðrir þm. sem þátt hafa tekið í þessum umr., að þessi athugun leiði til hagstæðrar niðurstöðu fyrir þetta bæjarfélag og fyrir svæðið í heild.

Ég vil vegna þeirra umr. sem orðið hafa um þessa fsp., og eru reyndar meiri en ég hafði átt von á, undirstrika að í aðalatriðum er ég sammála þeim sjónarmiðum, sem komu fram hjá hæstv. ráðh. og öðrum hv. þm., að vitanlega ber að líta á höfuðborgarsvæðið þar sem það er hentugt sem eina heild. M. a. ættu dómgæslu- og lögreglumál að koma inn í þá mynd. En hitt vil ég undirstrika, að jafnvel þó að löggæsluyfirstjórn í Mosfellssveit verði flutt frá Hafnarfirði, sem er fráleitt kerfi, breytist ekki nauðsyn þess að lögreglan hafi varðstöðvar í hinum ýmsu hlutum höfuðborgarsvæðisins. Við erum að tala um sex þúsund manna kaupstað þar sem engin lögregluvarðstofa er, svo ég tali nú ekki um lögreglustöð. Ég vitna til fyrirkomulags hér í Reykjavík. Þar er, eins og menn vita, sérstök lögregluvarðstöð uppi í Árbæ. Af hverju halda menn að hún hafi verið sett á laggirnar? Það er vitanlega vegna þess að æskilegt er talið að það séu tiltækir löggæslumenn í hinum ýmsu hverfum stórrar borgar, í þessu tilviki uppi í Árbæ.

Jafnvel þó að breytingar verði gerðar á skipulaginu, og þær geta verið mjög til bóta, breytir það ekki nauðsyn þess að um varðstöð verði að ræða á stöðum eins og í Mosfellssveit og í Garðabæ. Ég vitna til þess að það hefur verið talin nauðsyn að hafa litla varðstöð á Seltjarnarnesi sem telur þó næstum því helmingi færri íbúa en Garðabær. Hérna þarf ekki að vera um stórt eða dýrt mannvirki að ræða. Það þarf ekki að byggja neinar stórar stöðvar til þessa. Hér er eingöngu um varðstöð að ræða sem gjarnan má leigja húsnæði undir. Meginatriðið er að menn séu á staðnum. Það má vel vera að hægt sé að hafa þá í bílum, en lögreglumenn þurfa eins og aðrir menn að setjast niður öðru hvoru og fá sér kaffi samkvæmt kjarasamningum og gegna ýmsum öðrum erindum sem nauðsynleg eru, þannig að ég held að málið leysist ekki eingöngu með lögreglubílum.

Ég vil leggja áherslu á að það er ótækt til langframa að þannig sé að lögregluvarðgæslumálum í jafnstórum kaupstöðum búið eins og nú er í Garðabæ.