23.04.1985
Sameinað þing: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4522 í B-deild Alþingistíðinda. (3809)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Frsm. 2. minni hl. (Haraldur Ólafsson):

Herra forseti. Þetta mál ber dálítið undarlega að og m. a. málatilbúnaðurinn veldur því að ég gat á hvorugt nál. fallist, hvorki meiri hl. né 1. minni hl. hv. utanrmn., og leyfði mér því að bera fram þetta nál. sem ég mun lesa, með leyfi forseta:

„Þar eð enn liggja ekki fyrir endanlegar tillögur um byggingu nýrra ratsjárstöðva í stað þeirra sem lagðar voru niður á Vestfjörðum og Langanesi og því ekki hægt að meta gildi þeirra fyrir öryggi Íslands er lagt til að till. verði vísað til ríkisstj.

Ég vil í örfáum orðum gera grein fyrir forsendum þessarar niðurstöðu minnar og þessarar till.

Það er í fyrsta lagi þar til að taka að meginspurningin í þessu máli er hvort þörf sé á aukinni gæslu við Ísland, hvort öryggishagsmunir landsins krefjist þess að gæsla sé aukin frá því sem nú er. Þar kemur þá fyrst til að fyrir nokkrum árum voru settar hér á Keflavíkurstöðina tvær vélar, AWACS-vélar, sem hafa það hlutverk að fylgjast með gegnum ratsjárstöðvar sínar flugumferð á norðurslóðum utan þess geisla sem þær ratsjárstöðvar sem nú eru starfandi ná til. Það er því spurning mín hvort þessar nýju ratsjárstöðvar komi á einhvern hátt í stað AWACS-vélanna, hvort hugsanlegt sé að þær verði fluttar brott þannig að ekki sé hægt að halda því fram að um aukningu á umsvifum sé að ræða. Ég tel nefnilega að viðbót sú sem í ratsjárstöðvunum felst sé aukin gæsla og eins og góður maður sagði fyrir nokkrum öldum: öll gæsla ber merki styrjaldar. Ég held að við þurfum að hafa það í huga að meðan ratsjárstöðvarnar voru á Vestfjörðum og Langanesi voru engar AWACS-vélar. Verði AWACS-vélarnar fluttar á brott sé ég ekkert því til fyrirstöðu að þessar stöðvar verði endurreistar. En ég vil láta athuga mjög ítarlega hvort stöðva þessara er þörf meðan AWACS-vélarnar eru. Það veldur því að ég get ekki fallist á að samþykkja að horfið verði frá öllum hugmyndum um byggingu ratsjárstöðva. Ég tel að það hljóti að verða að líta á það mál í miklu víðara samhengi.

Í öðru lagi vil ég úttæra þetta dálítið nánar og segja sem svo, að þessar ratsjárstöðvar eru ekki bara tæknilegs eðlis, þær eru líka pólitísks eðlis. Það verður að athuga hvort þær falla að öðru leyti inn í það sem flokka mætti undir aukin umsvif. Einmitt með það í huga vil ég að kannað verði mjög rækilega áður en endanlegar tillögur liggja fyrir eða endanlegar áætlanir eru gerðar um þessar stöðvar á hvern hátt þær tengist annarri uppbyggingu á hernaðarsviði á Íslandi. Ég vil sem sagt ekki útiloka að slíkar stöðvar verði reistar, en ég vil að það verði kannað mjög rækilega hvort megi túlka það sem aukningu hernaðarumsvifa að ekkert verði látið í staðinn og jafnvel byggt upp á öðrum sviðum jafnframt.

Þá er það einnig spurning á hvern hátt öryggi landsins er tryggt, hvort það er betur tryggt með aukningu hernaðarumsvifa, aukinni gæslu, frekari fjölgun flugvéla, nýrri aðstöðu fyrir herbúnað hér á landi, flugvélar, herskip og annað af því tagi, eða hvort öryggi landsins væri betur komið með því að unnið væri verulega að slökun spennu hér á Norður-Atlantshafi. Þessum spurningum er enn ósvarað. Og ég tel að áður en endanlegar ákvarðanir verði teknar ætti að kanna þessi mál og athuga og ræða mjög rækilega hvort ekki megi líta svo á að einmitt minnkandi umsvif geti einnig verið öryggismál Íslendinga.

Þá vil ég einnig geta þess að auk þess að ekki eru tilbúnar endanlegar tillögur um þau atriði, sem ég hef hér rakið, hvar~stöðvarnar eigi að vera, skilst mér að það sé ekki búið að ganga endanlega frá því hvernig rekstri þeirra verður hagað, hvort verður gengið þannig frá hugsanlega að AWACS-vélarnar fari héðan eða hvort þétta er viðbót við þá gæslu sem þær annast, hvort þetta er liður í aukinni uppbyggingu eða hvort þetta er algerlega sérmál að mati þeirra sem með þessa hluti fara.

Það er enginn vafi á því að framkvæmd varnarsamningsins er í höndum utanrrh. og ég hefði talið eðlilegra, ef utanrrh. vill láta Alþingi greiða atkv. um framkvæmdir af þessu tagi, að það komi fram þegar endanlegar tillögur liggja fyrir, en gerist ekki með því að láta greiða atkv. um ónákvæma og að mörgu leyti villandi till. eins og hér liggur fyrir. Með þessum rökum leyfi ég mér að leggja til að till. verði vísað til ríkisstj. og það er þá hennar að meta þau atriði sem koma fram í þessari umr. og ákveða hvort hún óskar eftir því að framkvæmdir af þessu tagi verði bornar undir atkvæði Alþingis.