23.04.1985
Sameinað þing: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4526 í B-deild Alþingistíðinda. (3811)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég er áheyrnarfulltrúi Bandalags jafnaðarmanna í hv. utanrmn. og hef fylgst með afgreiðslu þessa máls. Ég mun greiða atkv. gegn þessari till. Ég tel að ekki hafi komið fram neinar þær upplýsingar í meðferð þessa máls sem veki ótta um að fyrirhugaðar ratsjár séu ógnun við öryggi landsins eða geri landið í heild eða sérstaka hluta þess að fýsilegra skotmarki en ella.

Ég vil nota þetta tækifæri til að árétta þá skoðun mína að umræða um öryggismál hafi í raun aldrei verið almennilega til á Íslandi nema í því fornaldarlega næstum svarthvíta úr NATO/í NATO-karpi sem hefur einkennt íslenska öryggismálaumræðu í áratugi. Þetta mál byrjaði raunar nokkuð illa vegna þess að ágætt dæmi um þennan skort á raunverulegri umræðu um varnar- og öryggismál var skýrsla sem utanrrn. lagði fram snemma í vetur um ratsjárstöðvamál. Þar var fjallað um allt annað en varnar- og öryggismál í þeim skilningi sem þurfti. Þar var mest áhersla lögð á hugsanlega gagnsemi ratsjárstöðva fyrir trillubátaútgerð fyrir austan, norðan og vestan og auk þess var umræða um þýðingu þessara stöðva fyrir hugsanlegt innanlandsflug. En eftirleikurinn var miklu betri. Í kjölfar þess að farið var að fjalla um þetta mál urðu að mínu mati þau tímamót að það var fjallað eða a. m. k. var góður vísir að raunverulegri opinni umræðu um varnar- og öryggismál landsins, umræðu sem hefur beinst að því að gera tilraun um úttekt á öryggismálum landsins, gera sér grein fyrir þeim valkostum sem þar eru en stökkva ekki beint ofan í gömlu skotgrafirnar. Þessi mál hafa ætíð verið innanhúsmál ríkisstj. og kannske enn frekar leyst á kontórum utanrrn. án opinberrar þátttöku þings og þjóðar. Þess vegna eru hér að mínu mati tímamót. Ég vona að hér muni það fylgja eftir að bæði alþm. og íslensk þjóð taki miklu virkari þátt í varnar- og öryggismálaumræðum. Það er skylda okkar og það er skylda stjórnvalda að búa þannig í haginn með upplýsingamiðlun og raunverulegu íslensku frumkvæði í varnar- og öryggismálum að fólk geti myndað sér skoðun á þeim valkostum sem við höfum í þessum málum.