23.04.1985
Sameinað þing: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4541 í B-deild Alþingistíðinda. (3815)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Frsm. 2. minni hl. (Haraldur Ólafsson):

Herra forseti. Ég kem hér aðeins til þess að leiðrétta þann leiða misskilning hv. 3. þm. Reykn. að ég hafi verið að gagnrýna málatilbúnað utanrrh. í þessu máli. Það var langt frá því. Ég lét hins vegar í ljós þá skoðun mína að mér fyndist leitt að þetta mál skyldi bera upp með þessum neikvæða hætti eins og ég skýrði síðar í ræðu minni.

Eins vil ég mótmæla því að ég hafi verið andvígur öllum þeim atriðum sem hann veifaði og taldi upp hér úr áliti meiri hl. Ég get skrifað undir margt á sama hátt og ég get skrifað undir margt í áliti hv. 1. minni hl. Ég hef sérstöðu í þessu máli. Ég hef þá sérstöðu að ég tel eðlilegt að þetta mál fari til ríkisstj., en ég vil sérstaklega taka fram að allur undirbúningur og sú opna umræða sem utanrrh. hefur staðið fyrir í þessu máli er til mikillar fyrirmyndar og ég vona að í framtíðinni verði jafnvel og jafnítarlega rætt um þau mál sem svo mikilvæg eru fyrir öryggi landsins.

En hins vegar tel ég að þetta mál sé ekki rætt til fullnustu og að það þurfi að taka fleiri atriði til athugunar í sambandi við það.