23.04.1985
Sameinað þing: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4543 í B-deild Alþingistíðinda. (3817)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil gjarnan fara eftir tilmælum forseta og stytta mál mitt þar sem nú er langt liðið á þann fundartíma sem við höfum til umráða hér í kvöld. Ég hlýt þó að segja hér nokkur orð og þakka utanrmn. afgreiðslu hennar á þessari þáltill. sem og meðferð nefndarinnar allrar og grg. formanns hennar hér í upphafi þessa fundar. Ég hygg að það sé ekki ástæða til þess að fara nákvæmlega yfir það sem hér hefur komið fram í umræðum því að flest af því hefur komið hér fram áður. Ég vil þó aðeins nefna örfá atriði.

Hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir minntist á það að eyðsla í herbúnaði væri fordæmanleg meðan stór hluti mannkyns sveltur. Vel má á það fallast að fjármunirnir, sem í herbúnað fara, væru betur komnir í að fæða og klæða þann mannfjölda sem nú sveltur og skortir klæði. En því miður sýnir sagan okkur það að jafnvel þótt dregið sé úr vígbúnaði þá fara þeir fjármunir ekki ávallt þangað sem þeirra er mest þörf, svo að ekki er unnt að tengja þetta tvennt með þeim hætti sem hv. þm. gerði. En mér þótti vænt um að heyra hv. þm. taka það fram að hún vildi verja lýðræðisskipulagið og um það snýst einmitt þetta mál eins og svo mörg önnur er lúta að vörnum og öryggi Íslands. Við erum að vernda frelsi okkar og lýðræði. Og ef við erum sammála um það þá höfum við náð töluvert langt.

Auðvitað eru sumir sem halda því fram að það sé ekki nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að verjast hér á landi eða tryggja öryggi landsins, það sé nóg að afvopnast einhliða, þá muni gagnaðili gera slíkt hið sama. Því miður get ég ekki fallist á slíka bjartsýni, óraunhæfa bjartsýni.

Sagan kennir okkur, bæði aðdragandi og eftirleikur seinni heimsstyrjaldarinnar, að einhliða afvopnun er aðeins til þess fallin að ofbeldis- og árásaröflum vex fiskur um hrygg og ógna friði og því lýðræðisskipulagi sem við hv. þm. Sigríður Dúna erum sammála um að verja. Við höfum þriðja dæmið. Þegar slökunartímabilið var við lýði að því er við hér í vestrænum löndum héldum í kjölfar Helsinkiferilsins svonefnda, þá notuðu Sovétríkin tækifærið til þess að hefja uppsetningu SS-20 eldflauganna árið 1977. Við höfum sem sagt svo nýlegt dæmi um það að slökunartímabil hefur því miður ekki verið gagnkvæmt og einhliða afvopnun hefur ekki náð þeim tilgangi sem hv. þm. vildi eigna einhliða afvopnun.

Ég hlýt að svara Haraldi Ólafssyni þeirri spurningu, hvort AWACS-flugvélarnar sem hér eru verði áfram við störf eftir tilkomu væntanlegra ratsjárstöðva á Vestfjörðum og Norðausturlandi, á þann veg að engar hugleiðingar eru um að fækka þeim en heldur ekki að fjölga þeim. AWACS-vélarnar geta ekki verið á lofti allan sólarhringinn. Það er bæði of dýrt og ekki tæknilega eða veðurfarslega mögulegt og því eru ratsjárstöðvarnar á Vestfjörðum og Norðausturlandi þrátt fyrir þær engu að síður nauðsynlegar.

Ég hef verið sakaður um að neita því að þessar stöðvar séu hernaðarmannvirki og það er alveg rétt að mér fellur illa að ræða um þessar ratsjárstöðvar sem hernaðarmannvirki. Ég vil ekki gera það frekar en að ég telji Landhelgisgæsluna til hers, frekar en að ég telji landhelgisgæsluskip okkar til herskipa, vegna þess að hlutverk þessara ratsjárstöðva er eingöngu það að fylgjast með umferð á svæði sem nær svona álíka langt og efnahagslögsaga okkar. Við vorum öll sammála um að helga okkur yfirráðin yfir 200 sjómílum á haf út. Er það nú hernaðarandi eða vígbúnaður að vilja vita hverjir fara um það svæði? Ég er undrandi á þeirri staðhæfingu hv. þm. sem telja það goðgá að við fylgjumst með umferð á því svæði þar sem helstu auðlindir okkar eru eða telja slíka gæslu eða slíkt eftirlit bera vitni um ögrun í garð annars ríkis.

Það var reyndar hugsunarháttur hv. þm. Steingríms Sigfússonar að telja það alveg voðalegt að hér væru til staðar flugvélar á Keflavíkurflugvelli sem hefðu flugþol til þess að fljúga alla leið til Kola-skaga. En hann hafði ekkert við það að athuga og hefur aldrei minnst á það einu orði, að á Kola-skaga hafi verið tíu vélar í fleiri ár eða áratugi sem geta flogið alla leið til Íslands og þótt lengri leið væri fyrir höndum.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að varnir landsins og öryggi krefjast ákveðins útbúnaðar. Við viljum ekki breyta eðli varnarstöðvarinnar í Keflavík og það er ekki gert með þessum ratsjárstöðvum eða þótt flugvélar séu endurnýjaðar eða olíubirgðir séu til staðar. Um þetta höfum við tækifæri og tilefni til að ræða betur þegar við ræðum skýrslu mína um utanríkismál og skal ég því láta staðar numið að þessu leyti.

Ég vil svo aðeins láta það koma skýrt og greinilega fram að það eru engar hugmyndir uppi um að reisa hér svokallaðar OTH-ratsjárstöðvar á Íslandi. Í þeim heimildum sem hv. þm. vitnaði til er meira um getgátur að ræða heldur en vitneskju. Og þess vegna orðaði ég það svo að hv. þm. vissi meira en ég, þegar á þetta mál var drepið hér í fyrri viku.

Það er einnig um OTH-ratsjárstöðvarnar að segja að þar eru óleyst ýmis tæknileg vandamál þannig að þær eru ekki alveg á næsta leiti og allavega eru ekki hugmyndir um þær hér á Íslandi.

Ég vonast til þess að meðferð þessa máls hafi borið vitni um það að engu hefur verið leynt og ósk mín hefur verið sú að opin umræða gæti tekist um byggingu ratsjárstöðva sem og allan aðbúnað varnarliðsins og varna og öryggislandsins þannig að þjóð og þing geti gert sér grein fyrir því hvað okkur er lífsnauðsynlegt að gera og hverju við þurfum e. t. v. að hafna.

Ég vonast svo til að þessi tillaga sem hér er til umræðu verði felld og þau áform sem uppi eru um það að byggja ratsjárstöðvar til að fylgjast með umferð yfir okkar eigin efnahagslögsögu nái fram að ganga.