30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

80. mál, einingahús

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans og þá sérstaklega fyrir þau orð hans að hann sé ekki samþykkur þessari ákvörðun húsnæðismálastjórnar og muni leggja til endurskoðun hennar.

Svör húsnæðismálastjórnar við spurningum mínum voru allathyglisverð og á ég eftir að skoða þau betur þegar þau birtast á prenti. Mér þótti þau orð raunar athyglisverðust að núgildandi reglur hafi verið settar til að koma fótum undir þessa iðngrein. Þá verð ég að segja að mér finnst hart að ætla nú að kippa fótunum undan henni. Ég legg áherslu á að hér er um mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að taka á strax.

Ég vil einnig þakka þeim þm., sem hafa tekið þátt í þessari umr., fyrir þeirra innlegg sem sýnir vonandi hug þingsins. Fulltrúar fjögurra þingflokka hafa nú lýst áliti sínu auk ráðh. og ætti það að vera honum styrkur til þess að breyta þessari samþykkt.

Að lokum vil ég taka það fram að með þessum breyttu úthlutunarreglum lána, sem fyrirhugaðar eru um næstu áramót, væri verið að auka aðstöðumun tvenns konar byggingaraðferða sem hvor tveggja á jafnmikinn rétt á sér. Þessar nýju reglur, sem við höfum verið að ræða um núna eru, að mínu mati, öllum í óhag, húsbyggjendum og byggingariðnaðinum í heild, og spurningin er hvort húsnæðismálastjórn er með þessari aðgerð að reyna að kaupa sér nokkurra mánaða frið á kostnað húsbyggjenda og einingahúsaiðnaðarins í landinu.