30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

80. mál, einingahús

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr.

Það hefur komið hér greinilega fram áhugi manna fyrir framleiðslu einingahúsa og er það vel. Ég vil þó í leiðinni minna hv. alþm. á að stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins er þingkjörin stjórn og telur sig þannig hafa nokkurt sjálfstæði í sínum umsvifum. Það er þess vegna eðlilegt að þegar ráðh. vill vefengja eitthvað eða breyta einhverju sem stjórnin hefur ákveðið brynji hann sig áður. Þess vegna lét ég hefja sérstaka rannsókn á áhrifum þessarar starfsemi víðs vegar þar sem hún fer fram. Ég mun þess vegna bera fram við stjórn stofnunarinnar rökstutt álit á því að sú samþykkt sem stjórnin hefur gert sé óheppileg og reyna að hafa áhrif á að hún verði dregin til baka.

Hv. 5. landsk. þm. dregur í efa mitt svar. Mér mæltist á þá leið að e.t.v. var hægt að draga þá ályktun að ég væri ekki í öllu mótfallinn samþykktinni. En ég vil benda á eitt sem kom fram í svari stofnunarinnar sem er tekið saman af stjórninni og starfsmönnum. Það finnst mér athygli vert og það vil ég láta athuga sérstaklega. Það er í sambandi við verðlagið á einingahúsum í landinu. Það var von allra að einingahúsaframleiðslan, sem er komin á hátt stig hjá okkur, gæti stuðlað að lækkun byggingarkostnaðar. Á því þarf þjóðin að halda. Ég er þess vegna sammála Húsnæðisstofnuninni að vissu marki. Það hefur ekki náðst nægilegur árangur á því sviði og það er sérstakt rannsóknarefni út af fyrir sig. Það getur vel verið að kröfurnar séu svona miklar að það komi fram í of háu verðlagi og eins að gera þurfi á tollalögum o. fl. meiri breytingar en gert hefur verið. En þarna er eigi að síður drepið á atriði sem ég get tekið undir með stjórn stofnunarinnar því að verðlækkun hefur ekki skilað sér að þessu leyti til.

Um leið tek ég undir það að við þurfum að efla og verja þessa iðngrein. Hún hefur gífurlega mikla þýðingu, bæði þjóðhagslega og ekki hvað síst atvinnulega, víðs vegar þar sem þessi starfsemi fer fram. Það er líka mjög mikilvægt fyrir okkur sem þjóð sem býr í svo köldu landi, þar sem veðráttan er eins og hún er, að byggingartími er stuttur. Þessi framleiðsla stuðlar að því og er því mjög mikilvæg fyrir alla. Ég er búinn að kynnast mörgum málum í sambandi við innflutt einingahús sem hafa komið þannig við þá sem þau hafa keypt að það er til vansa hvernig á því hefur verið haldið. Fólk hefur orðið fyrir gífurlegu tjóni af göllum á slíkum húsum sem ekki þola íslenska veðráttu eins og mörg dæmi eru um. — En ég vona að þetta mál leysist farsællega.