24.04.1985
Efri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4557 í B-deild Alþingistíðinda. (3831)

364. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að efna til efnislegra umræðna hér um þetta mál á þessu stigi enda yrði ég þá að kynna mér betur þær tölur sem voru að koma fram í upplýsingum frá hv. frsm. Davíð Aðalsteinssyni. Auk þess veit ég ekki annað en hæstv. iðnrh. sé horfinn af vettvangi. En það gefst tækifæri til að ræða þetta mál síðar, við 3. umr., ef með þarf, þó ég sjái ekki ástæðu til þess eftir þessar upplýsingar.

Ég vil að sjálfsögðu þakka fyrir að nefndin tók þetta mál til meðferðar, fsp. mínar um það að reyna að fá svör við því hverjar rauntölur væru hér á ferð, sérstaklega með tilliti til þess að menn hafa haldið því fram að orðið hafi stórkostleg raungildislækkun á hitunarkostnaði og sé nú tvennt ólíkt við að búa en áður hafði verið. En í lok þessa bréfs, sem ég var að fá í hendur frá iðnrn. og vil alls ekki rengja í þessu tilfelli, segir hér, með leyfi virðulegs forseta:

„Upphitunarkostnaður hefur þannig lækkað að raungildi um 12%“ — það er öll upphæðin — „en almenn notkun hækkað um 12.6% miðað við raungildi.“

Ég held að þetta séu býsna athyglisverðar tölur í ljósi þess sem áður hefur komið fram, bæði hér í hv. Ed. og í kosningahríðinni síðast svo ekki sé lengra farið, um þetta mál og segi býsna mikið, ef þessar tölur eru réttar sem ég hef ekki tækifæri til eða tök á að vefengja hér. Ég veit mætavel um ástæður þess að hið stóra frv. hæstv. iðnrh. fór ekki í gegn hér í fyrra með þeim hætti sem hann vildi og lagði á ofurþunga. Ég veit vel um ástæður þess og ætla ekkert að fara út í þær hér. Það var auðvitað ljóst að þeir tveir aðilar úr hans eigin flokki sem höfðu lagt hvað mesta og þyngsta áherslu á þetta mál, hv. 4. þm. Vestf. Þorv. Garðar Kristjánsson og hv. 11. landsk. þm. Egill Jónsson, höfðu lagt ofurkapp á þetta mál og lagt í það mikla vinnu að reyna að fá þarna verulegar breytingar, stórkostlega lækkun, vegna þess hversu hár liður þetta er. Þeir voru hreinlega ekki tilbúnir til þess að fylgja sínum ráðh. að málum og fóru þess vegna þá leið sem hv. þm. Skúli Alexandersson gerði grein fyrir áðan.

Ég ætla ekki í efnislega umr. um þetta, en tel þessar tölur býsna athyglisverðar ef réttar eru, mjög athyglisverðar raunar, og sýna hversu stórkostlegur þáttur hinn gífurlegi hitunarkostnaður er enn þá hjá heimilum í landinu sem þurfa að búa við þennan kostnað þegar þar við bætist svo að annar kostnaður þess fólks af rafmagni hefur hækkað um sömu prósentuupphæð.