24.04.1985
Efri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4558 í B-deild Alþingistíðinda. (3833)

364. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég var ekki viðstaddur afgreiðslu málsins í n. þó að ég hafi skrifað undir nál. og fylgdist þess vegna ekki með þeim umr. sem þar fóru fram. Það er vissulega ekki óeðlilegt við umfjöllun á þessu máli þó að menn hugi að kostnaði við húsahitun úfi á landsbyggðinni og rifji upp þær umr. sem fram um þau mál hafa farið.

Þetta frv., eins og virðulegir alþm. væntanlega vita, er í rauninni einungis tæknilegs eðlis, um tilfærslu á verkefnum á milli rn., og má vel vera að það geti skilað einhverjum árangri tæknilega séð, en væntanlega er öllum hv. alþm. ljóst að það fjallar ekki um lækkun á orkunotkun eins og frv. sjálft tekur nafn af.

Menn hafa hér talað um það sem gekk á milli manna og flokka við síðustu alþingiskosningar og m. a. um yfirlýsingar um að orkujöfnunargjaldið gengi allt óskipt til þeirra nota, eins og því var ætlað, að lækka húshitunarkostnað í landinu. Auðvitað er mikilvægt að staðið sé við það sem sagt er fyrir kosningar, en í þessum efnum vildi ég benda á að ef orkujöfnunargjaldið kæmi til niðurgreiðslu á rafhitun í landinu mundi það nægja langleiðina til þess að gera upp alla reikninga hjá þeim sem kaupa rafhitun af Rafmagnsveitum ríkisins og það held ég að hafi nú aldrei verið meiningin.

Hins vegar stóð þannig á á árinu 1982 að það var vel hægt að koma öllu orkujöfnunargjaldinu fyrir þá í töxtum rafhitunarinnar og olíunotkunarinnar, þannig að menn greiddu eftir sem áður hliðstæðan kostnað og gerðist í hinum dýrari hitaveitum.

Menn hafa gjarnan gripið til talnasamanburðar þegar fjallað er um þessi mál og hverjar breytingar hafa orðið á hinum einstöku og afmörkuðu tímabilum. Ég hef ekki haft aðstöðu til þess frekar en hv. þm. Skúli Alexandersson að meta þær tölur sem hér hafa verið lagðar fram. Hins vegar er alveg augljóst að sá samanburður er óraunhæfur. Ástæðan fyrir því er sú að árið 1982, 23. apríl það ár, svaraði þáverandi iðnrh. erindum Rafmagnsveitna ríkisins um hækkun á gjaldskrám með þeim hætti að ekki yrði hægt að fallast á þær hækkanir, eins og farið var fram á, í eitt skipti. Þess í stað yrði að jafna hallanum niður á lengra tímabil þannig að raforkuverð mundi hækka jafnt og þétt árið 1983. Mig minnir það svo vera í apríl það ár sem gefin voru út brbl. sem tóku aftur þessa heimild. Þannig stóð málið þegar teknar voru ákvarðanir um mjög mikla hækkun á orkutöxtum, líklega fyrst í júní og síðan aftur í ágúst sama ár, jafnhliða því sem stóraukið var fjármagn til niðurgreiðslu á rafhitun. Þegar þessar breytingar höfðu verið gerðar, ég held að ég fari nokkurn veginn rétt með tölur, þurfti rúmar 18 vinnuvikur á verkamannataxta til að greiða orkukostnað við rafhitun, miðað við 32 þús. kílówatta ársnotkun sem tekur mið af orkunotkun hinnar svokölluðu staðalíbúðar, en niðurgreiddur kostnaður var hins vegar u. þ. b. tólf vikur.

Á s. l. ári þróaðist þetta verðlag hins vegar þannig að áður en kom til hækkana sem urðu núna í haust hafði þessi tala lækkað um 50% eða niður í rúmar átta vikur. Orkukostnaðurinn hafði lækkað úr u. þ. b. þremur mánuðum og niður í u. þ. b. tvo mánuði á einu ári. Þetta eru ekki nákvæmar tölur, en þær skýra þetta mál. Og það var að sjálfsögðu þróun sem var vel hægt að sætta sig við. Mér hefur nefnilega aldrei verið heilög viðmiðunartalan sem hér hefur verið til vitnað af hv. þm. Skúla Alexanderssyni. Ég hef alveg eins og raunar miklu frekar viljað miða við raunkostnað í þessum efnum, en raunkostnaður við rafhitun var á síðasta áratug, frá árunum 1972 til ársins 1978, milli sex og sjö vikur og það vantaði ekki svo ýkjamikið á að þessi mál væru að þróast til sama kostnaðar og var á síðasta áratug og er alveg líðanlegur.

Hins vegar gerðist svo það, eins og menn vita, að taxtarnir hækkuðu aftur í haust illu heilli og þó að rafhitunartaxtar hafi hækkað minna en aðrir taxtar var það samt mjög mikið áfall. Þannig hefur raforkuverð verið óhagstæðara framan af þessu ári en það var á síðari hluta síðasta árs.

Þetta var frásögn af því hvernig þessi mál hafa þróast þó að ég hafi ekki alveg nákvæmar tölur við hendina. Og í haust, innan fárra mánaða, má ætla að ef taxtar ekki breytast verði rafhitunarkostnaður með svipuðum hætti og hann var síðast á árinu 1984. Vantar þá enn nokkuð til þess að þar sé um líðanlegt verðlag að ræða.

Þetta finnst mér eðlilegt að komi hér fram fyrst menn voru að fjalla um þessi mál efnislega sem hlýtur að vera eðlilegt við þessar aðstæður. Ég get svo endurtekið það, sem ég sagði á fundi í Sþ. í vetur, að það er engin lifandi leið fyrir landsbyggðarmenn að horfa upp á að húshitunarkostnaður sé með þeim hætti að ekki geti talist líðanlegt og annað er útilokað en að huga sérstaklega að stöðu þessara mála í haust. Það er alveg ljóst að nokkurs ágreinings gætir í þessum málum. Menn hafa misjafnar áherslur. Þar má t. d. nefna að ærið stór hópur telur að ekki eigi að greiða raforkuna niður nema þá að litlu leyti, fremur eigi að lagfæra húsakostinn. Þetta eru rök, en hinn hái húshitunarkostnaður er hins vegar ekki líðanlegur fyrir fólkið sem bíður eftir því að geta lagfært húsin með þessum hætti. Þess vegna verður ekki hjá því komist að greiða niður raforkuna áfram. Það hlýtur að koma til mjög alvarlegrar skoðunar fyrir næsta vetur hvernig sú staða mála verður og þm. utan af landi hafa alveg nægilegan tilstyrk til að fá þar lagfæringu á ef það tekst ekki með öðru móti.