24.04.1985
Efri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4561 í B-deild Alþingistíðinda. (3835)

364. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Austurl. minnir á það sem eftir mér hefur verið haft, að auðvitað þyrftu þm. úr sama kjördæmi að hjálpast að og má vera að betur hefði tekist til í ráðherratíð fyrrv. iðnrh. ef hv. þm. Helgi Seljan hefði haft þar svolítið betra eftirlit.

Um það sem hér hefur komið fram um talnasamanburð hef ég að sjálfsögðu enga möguleika til að dæma eða meta þær tölur sem hv. þm. studdist við. Það sem ég lagði mínu máli til grundvallar eru útreikningar sem Gylfi Ísaksson verkfræðingur hefur gert fyrir mig og gerði fyrir þá nefnd sem annaðist endurskoðun á lögunum um jöfnun og lækkun húshitunarkostnaðar. Þessar tölur byggjast á hans útreikningum. Mér er ekki ljóst hverjar viðmiðanir eru í þeim útreikningum sem hv. þm. Helgi Seljan flutti fram áðan og get ekki metið það. (HS: Davíð Aðalsteinsson flutti þær.) Ég tók nú svo eftir að þm. hefði haft skjal meðferðis sem hann las upp úr. Í þessum efnum verða menn að athuga að það er hægt að grípa niður á hinum ýmsu tímabilum eftir því sem gjaldskrár breytast.

Að einu leyti var þó ræða hv. þm. Helga Seljan afar athyglisverð. Hann veit sem er og hefur heyrt það áður og féllst á það að 23. apríl 1982 voru teknar ákvarðanir um gjaldskrárhækkanir sem áttu að gilda árið 1983 og jafna þann halla sem raforkuiðnaðurinn var kominn í hér á landi. Þetta er náttúrlega ómótmælanlegt því að fyrir þessu liggja órækar staðreyndir. En hv. þm. sagði hins vegar að þetta hefði átt að lagfæra og að draga hefði átt úr kostnaðinum til heimilanna með því að hækka niðurgreiðslur. Það vill svo til að frá þeim málum var líka búið að ganga alveg eins og bréfinu. Það var gert með þeirri ákvörðun sem tekin var um niðurgreiðslur á rafhitun þegar fjárlög fyrir það ár voru afgreidd. Getur ekki verið að fjárlagatalan hafi verið einhvers staðar ekki mjög langt frá 30 millj. kr.? Það hygg ég að hafi verið. Ég held að það hafi verið heldur óheppilegt fyrir hv. þm. að vera að minna á þetta. Aðrar tillögur um niðurgreiðslu á rafhitun hef ég ekki séð né heyrt. Hins vegar var þessum tölum þó þannig breytt að þegar núv. ríkisstj. kom til valda voru þær hækkaðar um 150 millj. og veitti sannarlega ekki af. En það er mikill misskilningur að það hafi verið gert í tíð fyrrv. ríkisstj. Það var gert í tíð núv. ríkisstj. Þetta liggur allt ljóst fyrir.