24.04.1985
Efri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4563 í B-deild Alþingistíðinda. (3840)

217. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Síst af öllu ætla ég að fara að koma af stað einhverjum almennum eða löngum umr. Það er orðið fullkomlega tímabært að þetta frv. fái að ganga til atkv. Það hefur verið við 2. umr. í deildinni í hvorki meira né minna en fimm vikur, sem er fátítt, og menn vita að það hefur ýmislegt verið gert til þess að reyna að hindra framgang málsins.

Ég vil aðeins leiðrétta það að enginn rökstuðningur komi fram fyrir því að hafa bindiskylduna 10%. Það er einmitt rökstutt með því að þannig var það á 7. áratugnum, á fyrsta áratug Seðlabankans. Það gafst mjög vel. Þá var tiltölulega lítil bindiskylda. Síðan var farið að rökstyðja hana með því að það þyrfti að veita afurðalán. Nú hefur verið ákveðið að þau væru ekki lengur veitt af Seðlabanka, heldur flutt til viðskiptabankanna. Þess vegna er það alveg fullkomlega rökstutt að færa seðlabankalögin í gamla horfið. Hins vegar hefur það ekki verið rökstutt hvernig viðskiptabankarnir eiga með 18% bindingu að geta staðið undir afurðalánum. Það geta þeir raunar ekki.

Sama er að segja um gjaldeyrisvarasjóðinn, að hann er tóm blekking. Síðast í sjónvarpi, ég held að það hafi verið í gær, sagði forsrh. að 55% allra útlána bankanna væru orðin erlend mynt. Íslenska krónan er því miður hrunin fyrir þessa bindiskyldu, fyrir þennan monetarisma, og það er tímabært að afnema það.