30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

80. mál, einingahús

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. vakti á því athygli að stjórn Húsnæðisstofnunar væri þingkjörin og sagði að þess vegna þyrfti hann kannske að brynja sig ef hann tækist á við þá virðulegu stjórn. Ég held nú að vald hennar sé ekki svo mikið, hið eiginlega framkvæmdavald, að ráðherra sjálfur og ríkisstj. geti ekki sagt henni fyrir verkum í þessu efni. en ef á því þarf að halda að ráðh. og ríkisstj. brynji sig gagnvart þessari virðulegu stjórn hefur ríkisstj. og ráðh. fengið þá brynju hér. Hér eru allir á einu máli um að þessari samþykkt beri að hrinda. Mér finnst nú óþarfa kurteisi af hæstv. ráðh. að vera að leita sér að nokkrum slíkum stuðningi. Ég veit að hann vill breyta þessu. En það er ábyggilega styrkur fyrir hann að hafa vilja Alþingis á bak við sig.

En ég get nú ekki stillt mig um að geta þess af þessu tilefni, þó að það eigi ekki sérstaklega við húsnæðismálastjórn, að þegar kosnar eru hér á Alþingi einhverjar stjórnir í stofnanir hist og her um þjóðfélagið og þar sem eru kannske verkefni fyrir einn eða tvo menn, þá er þetta orðið að stærðarstofnun og valdastofnun í þjóðfélaginu áður en nokkur veit af. Látum nú vera kostnaðinn, að borga nokkrum tugum manna laun, ef mennirnir eru eitthvað að vinna. En ef það er allt saman meira og minna gagnslaus vinna því að auðvitað er hægt að reka stofnun eins og Húsnæðisstofnun með sárafáum mönnum. Raunar væri sjálfsagt alveg nóg að væri þar einn maður sem tæki á móti fokheldisvottorðunum þegar um slík hús er að ræða og annar sem tæki á móti afgreiðsluseðlunum frá verksmiðjunum sem framleiddu húsin og færi með þau niður í Landsbanka þar sem peningarnir eru borgaðir út. Ég vek athygli á því að hæstv. ráðh. hefur áreiðanlega stuðning þingsins líka til þess að fækka eitthvað starfsmönnum í þessari stofnun ef svo slægist.