24.04.1985
Neðri deild: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4575 í B-deild Alþingistíðinda. (3861)

289. mál, Landmælingar Íslands

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka samgn. fyrir afgreiðslu á þessu máli, en ég er ósáttur með þær breytingar sem sex nm. flytja á þskj . 768.

Hv. síðasti ræðumaður virtist bíða með einhverjum spenningi eftir því hvað ég hefði að segja um þessi mál og stefnumörkun í samgrn. Ég hygg að það mætti fara yfir þau mál í mjög löngu máli. Það gæti tekið nokkra klukkutíma ef við ætlum að rifja upp allar stofnanir og hvernig lögum þeirra, stjórn eða stjórnleysi er háttað, hvernig er háttað með ráðningu manna og verkefni. Ég tel að Landmælingar Íslands séu ekki stór stofnun og lítið hefur farið fyrir henni í stjórnkerfinu. Þessi litla stofnun hefur unnið mjög mikilvægt starf, en hún hefur verið starfrækt í öll þessi ár án þess að hafa lög. Gerð var tilraun til þess 1978 að flytja frv. til l. og láta hana starfa eftir lögum. Þá voru allir á hv. Alþingi sammála um að frv. gegni allt of langt, það ætti að taka ákveðin atriði þar út úr. Það var farið yfir það af þeim aðilum sem unnu að þessu frv. Ég gerði ekkert til að hafa áhrif á þá. Ég var sæmilega ásáttur með frv. eins og það var lagt fyrir, en þó opinn fyrir því að breytingar, sem færu í þá átt að vera hagkvæmari, næðu fram að ganga.

Hv. síðasti ræðumaður spurði hverjir væru ókostirnir við að tilnefna stjórn á þessa tiltölulega litlu og mjög einföldu stofnun. Ókostirnir eru þeir að það er ekki vandalaust að segja til um hverjir eigi að vera í stjórn þó að þessi hv. þm. flytji till. um það. Ég er ekkert á því að stofnun eins og Vegagerð ríkisins eigi að eiga fulltrúa þarna í stjórninni. Vegagerð ríkisins er margfalt stærri stofnun en þessi. Þar er engin stjórn og enginn hefur flutt till. um að setja Vegagerðinni stjórn. Ég er líka ósammála því að ríkisstofnanir eigi að vera í stjórn hver hjá annarri, stofnanir sem heyra undir sama rn. Ef árekstrar verða á milli þessara stofnana á auðvitað að vísa því til rn., sem fer með æðsta vald, og þar verður að reyna að finna réttmætustu lausnina, reyna fyrst og fremst að ná samkomulagi þegar um slíkar deilur er að ræða.

Hins vegar er það rétt hjá hv. ræðumanni þar sem hann vitnaði í Hafrannsóknastofnun að þar var stjórn. Þar var líka ráðgjafarnefnd. Ef við ætlum að taka upp þetta mundi enda með því að þarna yrði heilt fulltrúaráð eða heilt ferðamálaráð. Mikið lifandis ósköp hefðu menn mikið að gera á öllum þessum fundum. Vitaskuld verður þessi stofnun að taka tillit til svo margs eins og allar aðrar stofnanir í þjóðfélaginu. Þær eru ekkert einráðar. Um það hljótum við að vera sammála. Mér skildist á hv. ræðumanni að hann væri sammála því að þessi stofnun fengi lög. Þessi lög hljóta þó að vera töluvert meira virði en hafa engin lög.

Í sambandi við mannaráðningar, þá eru þær með ýmsum hætti. Sums staðar er leitað umsagnar. Á öðrum stöðum hafa stjórnendur og ráðherrar síðasta orðið. Hjá Pósti og síma er engin stjórn sem gefur umsagnir. Þar er starfsmannaráð. Ráðh. veitir ekki almenna stöðu þar, ekki fyrr en það er komið upp í ákveðinn launaflokk. Þetta hefur verið frá fyrstu tíð. Ég er búinn að veita á þessum tæpu tveimur árum nokkra tugi af stöðum, en ég hef ekki vitað til þess að það hafi verið ágreiningur um eina einustu stöðuveitingu. Ég hef að jafnaði farið eftir áliti starfsmannaráðs og forstjóra. Hins vegar verða menn oft fyrir vonbrigðum því að við vitum að þegar tveir eða fleiri ágætir menn sækja um sömu stöðuna getur ekki nema einn fengið hana og þá verða hinir jafnan fyrir einhverjum vonbrigðum eins og við skiljum mætavel.

Svo eru aftur til aðrar stofnanir sem hafa stjórn, eins og Hafnamálastofnun. Hún er með stjórn. Ég er ansi hræddur um að það væri mjög erfitt, ef till. hv. þm. væri samþykkt, að hafa engan fulltrúa þá frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Svona má telja fram og hafa ákveðin rök fyrir því að það sé nauðsynlegt að hafa stjórn. Ég setti frv. upp eins og það er eingöngu vegna þess að það var erfitt að gera sér grein fyrir því hverjir væru sjálfsagðir aðilar að slíkri stjórn og hverjir ekki. Þá taldi ég hitt betra.

Það liggur yfirlýsing fyrir nefndinni sem ég tel rétt að ég endurtaki hérna. Hún er um það orðalag í reglugerð að Landmælingar Íslands skuli hafa samráð við þær stofnanir og aðra aðila sem vinna að landmælingum og kortagerð. Með þessu samráði skal stefnt að því að koma í veg fyrir að fleiri en einn aðili séu að vinna að sama verkefni. Jafnframt skal unnið að því að samræma reglur um landmælingar og kortagerð. Slíka samráðsfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir og ef þess verður sérstaklega óskað. Mér fannst eðlilegt að verða við þessu sjónarmiði nefndarinnar.

Hv. síðasti ræðumaður sagði sitt viðhorf til reglugerða vera að lög ættu að vera það skyr að það þyrfti eiginlega ekki að setja reglugerðir. Ég býð nú ekki mikið í Alþingi ef það ætti að ganga frá öllum lögum það vel að það væri óþarfi að setja nánari ákvæði í reglugerð. Mér verður hugsað til ýmissa þátta í heilbrigðismálum, lyfjamálum o. fl. o. fl. sem mætti taka á. Hins vegar er það auðvitað skylda þeirra, sem reglugerðir semja og gefa út og bera stjórnmálalega ábyrgð á, að þær brjóti ekki í bága við ákvæði laga. En lög verða aldrei svo skýr að það væri hægt að setja öll slík ákvæði inn.

Ég segi ekki að það hafi verið höfuðástæðan fyrir því að flytja þetta frv. að það voru engin lög fyrir stofnunina, en það sem ýtti undir mig að flytja þetta frv., og ég hafði vonast til að það yrði orðið að lögunum núna, er atburður sem verður mjög merkur í sögu þessarar stofnunar og langar mig að fara nokkrum orðum um hann.

Um síðustu aldamót ákvað danska þingið eða Rigsdagen að hefja skipulega kortagerð af Íslandi. Það var þegar hafist handa árið 1902 og mælingum lauk árið 1939 eða rétt fyrir byrjun síðustu heimsstyrjaldar. Unnið var við þetta verkefni, landmælingar á Íslandi, að undanskildu hléi vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar 1914–1918. Úrvinnsla gagna, útreikningar og kortateikningar fóru fram í Danmörku.

Fram að fyrri heimsstyrjöldinni var verk þetta unnið á vegum danska herforingjaráðsins, en á árinu 1928 voru sett ný lög um landmælingar í Danmörku og skv. þeim nýju lögum var mynduð ný stofnun sem fékk heitið Geodætisk Instituf og sem sá eftir það um allar landmælingar hér á landi. Frumvinna vegna kortagerðarinnar fór fram á 40–50 árum ef frágangur og kortaprentun er tekin með í reikninginn. Á þessum árum safnaðist þannig saman í Kaupmannahöfn mikið magn af gögnum vegna kortagerðarinnar. Þarna er um að ræða mælibækur, útreikninga, kortblöð í frumriti sem skipta hundruðum og ýmislegt fleira.

Landmælingar Íslands fengu afrit af mæliniðurstöðum og skyggnur af mörgum frumteikningum. Öll frumgögn eru samt enn þá í vörslu Geodætisk Institut. Það hafa verið gerðar tilraunir til þess að fá þessi gögn hingað heim, en þær tilraunir hafa ekki borið árangur fyrr en nú að forstjóri þessarar stofnunar hefur sýnt þessu máli mikinn skilning og hann hefur fengið því til leiðar komið að öll þessi frumdrög verða afhent okkur Íslendingum á föstudaginn kemur, en þá mun hann koma með öll þessi gögn hingað í danskri herflugvél og afhenda þau formlega. Það hvílir því á okkur að búa vel um vörslu þessara gagna. Það er hárrétt, sem frsm. meiri hl. samgn. sagði hér, að það er engan veginn nógu vel búið að þessari stofnun húsnæðislega, sérstaklega ekki hvað varðar vörslu þeirra korta og annarra eigna sem hún hefur undir höndum, hvað þá heldur að taka við þessari dýrmætu gjöf. En þessi gjöf og þetta framlag Dana til okkar lýsir enn einu sinni og ekki síður en þegar handritin voru afhent vinarþeli Dana til okkar Íslendinga sem okkur ber sannarlega að þakka. Ég taldi rétt að Alþingi fengi fyrst formlega um þessa gjöf að vita. Því bætti ég þessum orðum við mína ræðu.