24.04.1985
Neðri deild: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4581 í B-deild Alþingistíðinda. (3865)

289. mál, Landmælingar Íslands

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Það eru örfá orð. Ég vil bara taka það fram að ég tel að það sé mikið betra að hafa þann hátt sem í frv. stendur, miðað við það reglugerðarákvæði sem ég las hér upp og hæstv. samgrh. las einnig og undirstrikaði að sá háttur yrði hafður á þessum málum. Ef það væri fimm manna stjórn sem væri skipuð mundu margir aðilar sem að þessu standa verða utan við þá stjórn. En með fyrirkomulaginu sem lagt er til í brtt. geta allir þessir aðilar komið fram sínum hugmyndum, sínum óskum og fengið aðstöðu til að fylgjast með hvað er að gerast í þessari stofnun og á þessum vettvangi.

Ég gleymdi því áðan að mælingaverkfræðingarnir lögðu mikla áherslu á að forstöðumaður Landmælinga væri mælingaverkfræðingur eða verkfræðingur og því höfnuðum við algerlega. En mér finnst rétt að það komi fram að ég lofaði að segja það hér í framsögu, sem ég gleymdi, að mér fyndist nauðsynlegt að það væri einn verkfræðingur inni á þessari stofnun þó það væri ekki forstöðumaður.