29.04.1985
Efri deild: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4587 í B-deild Alþingistíðinda. (3875)

323. mál, iðnþróunarsjóðir landshluta

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Ég þarf raunar ekki að taka það fram að ég er sammála hv. 11. þm. Reykv. um það að hér er um merkilegt mál að ræða, eins og ég sagði hér í framsögu fyrir nál. Hv. 11. þm. Reykv. taldi æskilegra að málið kæmi til atkvæða, eins og hún orðaði það, og e. t. v. með brtt. frá hv. iðnn. Hvað er æskilegt í þessu efni eða óæskilegt? Það fer eftir eðli málsins. Hv. iðnn. þótti málið vera það viðamikið að hún treysti sér ekki að koma með brtt. við frv. vegna þess að hún taldi að hún hefði ekki tök á því að rannsaka málið svo ítarlega sem þyrfti til þess t. d. að bera fram brtt. um fjáröflun til sjóðsins.

Af þessum ástæðum þótti nefndinni rétt að láta þá athugun, sem fram þarf að fara í þessu veigamikla máli, vera sem vendilegasta, framkvæmda vel og samviskusamlega. Og taldi því rétt að vísa málinu undir þessum kringumstæðum til hæstv. ríkisstj. Hv. iðnn. vill vera vönd að virðingu sinni og þess vegna lagði hún til þá málsmeðferð sem hér er greint frá.