29.04.1985
Neðri deild: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4588 í B-deild Alþingistíðinda. (3889)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. um stofnun hlutafélags til að örva nýsköpun í atvinnulífi. Skal ég hafa nokkurn aðdraganda að því sem ég vil segja um frv. sjálft.

Sú stefna, sem fylgt hefur verið í uppbyggingu atvinnulífs hér á landi, á rætur sínar að rekja til ýmissa ákvarðana sem teknar voru í upphafi síðasta áratugar. Fyrst og fremst vil ég í því sambandi nefna Framkvæmdastofnun ríkisins sem sett var á fót með lögum frá hinu háa Alþingi í lok ársins 1971 og sömuleiðis þeirri ákvörðun að veita ríkisábyrgðir fyrir togarakaupum erlendis frá sem segja má að hafi orðið grundvöllur að þeirri uppbyggingu í sjávarútvegi sem einkenndi mjög síðasta áratug.

Á vegum Framkvæmdastofnunar ríkisins voru unnar fjölmargar mikilvægar áætlanir og fjármagn veitt til margra mikilvægra framkvæmda á atvinnusviðinu. Ég nefni áætlun um endurbyggingu og skipulagningu frystihúsa landsins, svokallaða frystihúsaáætlun, sem var grundvöllur að þeirri byltingu sem varð í frystihúsum landsins á síðasta áratug, sérstaklega fyrri hluta þess áratugar. Þannig beindist sú atvinnuvegastefna, sem mörkuð var í upphafi áratugarins, fyrst og fremst að því að efla þær greinar sem íslenskt þjóðfélag hefur lengi byggt á, þ. e. sjávarútveg og landbúnað. Án þess að rekja það hér í nokkrum smáatriðum held ég að viðurkennt sé almennt að á þessum sviðum hafi á síðasta áratug orðið ákaflega miklar framfarir og má reyndar segja að orðið hafi bylting á fjölmörgum sviðum.

Hins vegar þegar kom að lokum síðasta áratugar þótti sýnt að ekki yrði lengur haldið áfram á þessari braut. Fljótlega kom að því að fiskimiðin töldust af sérfræðingum fullnýtt og hefur síðan smám saman — og nú má segja algjörlega — verið dregið úr og stöðvuð sú uppbygging sem orðið hefur á fiskveiðiflota landsmanna. Að verulegu leyti er lokið þeim miklu breytingum og lagfæringum á frystihúsum og öðrum fiskvinnslustöðvum á þessum áratug.

Í landbúnaði er einnig orðið sýnt að landbúnaðarframleiðslan til útflutnings er nánast útilokuð. Því hafa stjórnvöld ákveðið að draga markvisst úr framleiðslu kjöt- og mjólkurafurða. Er reyndar verið að ganga frá og verður væntanlega lagt fyrir Alþingi næstu daga frv. til laga um mjög róttækar breytingar á framleiðsluráðslögum landbúnaðarins og fleiru sem markar þar algjörlega nýja stefnu.

Um leið og við Íslendingar höfum gengið þessa braut eins langt og fært þykir á þessu stigi hafa einnig í kringum okkur í heiminum orðið mjög miklar breytingar á atvinnuþróun. Þær breytingar má ekki síst rekja til olíukreppunnar 1973 þegar ýmsar stofnanir hófu að skoða auðlindir jarðar betur en áður hafði verið gert og spá í það hve þær mundu endast. Nægir að benda á skýrslur Rómarklúbbsins og reyndar mætti ýmislegt fleira upp telja.

Hagvöxtur hefur síðan 1973 fyrst og fremst byggst á nýjum greinum sem ekki áttu að minnsta kosti eins ríkan þátt í hagvexti þjóða áður og gjarnan hafa verið nefndar hátæknigreinar, upplýsinga- og tölvuiðnaður, rafeindaiðnaður. Þó að allt séu þetta tiltölulega lítt skilgreind hugtök, sérstaklega hátækniiðnaður, hygg ég að flestir geri sér grein fyrir hvað í þessu felst. Það er fyrst og fremst slík framleiðsla og framleiðniaukandi þekking sem er grundvöllur þess hagvaxtar sem verið hefur víðast hvar í hinum vestræna heimi nú síðustu árin. Fremstar eru þjóðir eins og Japanir og Bandaríkjamenn á þessu sviði án þess að ég fari að rekja það hér nánar.

Bæði það sem ég nefndi fyrst, að veruleg breyting er orðin á undirstöðuatvinnuvegum okkar Íslendinga, og svo með tilvísun til þessara breytinga á hinum alþjóðlega markaði, ef ég má orða það svo, veldur því að mjög er orðið tímabært fyrir okkur Íslendinga að endurskoða atvinnumálastefnu okkar og innleiða hér meira af hinni nýju þekkingu en okkur hefur tekist til þessa. Að sjálfsögðu hafa ýmis einkenni þessarar nýju tækni og nýju þekkingar þó rutt sér til rúms hér. Sú rafeindavæðing fiskvinnslunnar, sem orðin er allmikil hér á landi, er angi af þessari hátækni. Mjög mikil framleiðniaukning hefur orðið í ýmsum atvinnugreinum sem rekja má til nýrra starfshátta, nýrrar tækni og nýrrar þekkingar. Einnig hafa hér á landi verið sett á fót og náð nokkurri fótfestu fyrirtæki sem vinna á þessu sviði og þá ekki síst tengd okkar meginatvinnuvegi, sjávarútveginum. Töluverður fjöldi manna hér hefur einnig haslað sér völl á sviði upplýsingaiðnaðarins. Þó að þau fyrirtæki séu smá lofar þar ýmislegt góðu.

Með tilvísun til þessarar þróunar, sem ég hef nú rakið í örfáum orðum og mætti vitanlega hafa miklu lengra mál um, ákvað ríkisstj. að leggja grundvöll að nýrri stefnu í atvinnumálum. Að því er stefnt að hverfa frá þeirri ríkisforsjá sem segja má að hafi einkennt uppbyggingu sjávarútvegsins á síðasta áratug með ýmiss konar áætlanagerð og ríkisábyrgðum. Það var allt góðra gjalda vert og kannske nauðsynlegt á þeim tíma en hentar öllu síður fyrir þá þróun sem líklega verður að telja og kannske nauðsynlega á næstu árum. Því var ákveðið að breyta eða brjóta upp, gætum við sagt, Framkvæmdastofnun ríkisins.

Framkvæmdastofnun ríkisins samanstendur af Byggðasjóði, lánadeild og áætlanadeild og Framkvæmdasjóði. Framkvæmdastofnun ríkisins hefur heimild til að veita lán og styrki til ýmiss konar framleiðni og nýsköpunar í atvinnulífinu og hefur reyndar gert það í vaxandi mæli.

Rétt þótti hins vegar með tilliti til þeirra breytinga, sem ég hef lauslega lýst, að leggja meiri áherslu á síðasta þáttinn, nýsköpun í atvinnulífi og það að ný fyrirtæki á nýjum sviðum megi rísa hér á landi. Til þess að svo megi verða þarf að skapa hinn rétta og eðlilega grundvöll.

Í fyrsta lagi ber ríkisvaldinu að stuðla að því að menntun og þekking séu í sem mestu samræmi við þarfir atvinnuveganna á þessum sviðum. Í öðru lagi ber ríkisvaldinu að efla grundvallarrannsóknir sem stuðlað geta að nýsköpun í atvinnulífinu. Í þriðja lagi er ríkisvaldinu nauðsynlegt að tryggja slíkum aðilum aðgang að fjármagni til stofnunar fyrirtækja sem oft geta verið áhættusöm. Og í fjórða lagi þarf ríkisvaldið að stuðla að aukinni markaðsstarfsemi.

Ég held að þetta séu þeir fjórir meginþættir sem að ríkisvaldinu snúa. Framkvæmd með stofnun fyrirtækja, rekstur þeirra og vissulega þekkingaröflun og markaðsleit, hlýtur hins vegar að vera fyrst og fremst í hendi einstaklinga og samtaka þeirra. Slíku verður aldrei miðstýrt. Þessi þekking og þessi viðleitni þarf að vera sem frjálsust, en sá grundvöllur skapaður sem óhjákvæmilegur er til þess að árangur megi verða. Ég hygg að að þessu leyti sé ekki á annan veg farið málum hjá okkur en hjá öðrum þjóðum, nema e. t. v. að því leyti til að hér er aðgangur að fjármagni meira af skornum skammti en víða annars staðar vegna stöðu þjóðarbúsins fjárhagslega bæði inn á við og út á við. Sömuleiðis veldur það erfiðleikum í allri slíkri nýsköpun að markaður heima fyrir er ákaflega lítill. Raunar má segja að strax þurfi að leita með nýja framleiðslu á erlendan markað þegar frá eru taldar greinar eins og hinn íslenski sjávarútvegur sem skapar nokkurn markað og hefur vitanlega orðið til þess að hér hafa risið fyrirtæki á slíkum sviðum sem tengd eru sjávarútveginum.

Hæstv. menntmrh. skipaði fyrir allnokkru nefnd sem er að endurskoða menntakerfið og tengsl þess við atvinnulífið. Það er ákaflega mikilvæg starfsemi og vonandi sér það bráðum dagsins ljós sem sú nefnd leggur til. Vafalaust þarf að breyta ýmsu í okkar menntakerfi. Það þarf hins vegar að vanda.

Ríkisstj. ákvað í desember s. l. að gera ráð fyrir 50 millj. kr. til rannsókna og tilrauna á sviðum sem segja má að stuðli að nýsköpun í íslensku atvinnulífi og er gert ráð fyrir því að Rannsóknaráð ríkisins annist úthlutun á því fjármagni. Rannsóknaráð hefur þegar lagt fram tillögur að reglum um umsóknir og úthlutun sem hæstv. menntmrh. hefur lagt fyrir ríkisstj. og hafa ekki þar verið gerðar athugasemdir við þær hugmyndir.

Þá hefur viðskrh. sett á fót nefnd til að kanna utanríkismarkaðsmál. Auka þarf tengsl utanríkisviðskipta við utanrrn. Nauðsynlegt er að nýta sendiráðin sem allra best í þessu skyni og vel kemur til greina að útvíkka þá útflutningsstarfsemi sem nú er á vegum Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins og láta það ná til útflutnings í heild. Ég geri líka ráð fyrir að tillögur þessarar nefndar liggi fljótlega fyrir og muni þá í haust verða tilbúið lagafrv. um slíkt útflutningsráð.

Ég vil geta þess til að fyrirbyggja misskilning sem mér finnst stundum ríkja í sambandi við nýsköpun í atvinnulífinu að að sjálfsögðu á slík nýsköpun ekkert síður við hefðbundnar atvinnugreinar okkar Íslendinga en eitthvað algjörlega nýtt. Raunar felst í nýsköpun atvinnulífsins að á öllum sviðum verði leitað fullkominnar tækni til að auka framleiðni, auka og bæta afkomu fyrirtækjanna, gera þeim kleift að greiða hærri laun og gera þeim kleift að keppa á erlendum mörkuðum, jafnvel betur en þau hafa til þessa gert. Ég tel t. d. að rafeindavæðing, tæknivæðing fiskvinnslunnar sé eitt allra brýnasta verkefni sem okkar bíður á næstunni. Ég ritaði því Framkvæmdastofnun ríkisins bréf um áramótin og óskaði eftir því að undirbúningur að slíkri tæknivæðingu yrði hafinn. Farið hafa fram umræður á milli Framkvæmdastofnunar, Iðntæknistofnunar o Háskóla Íslands og fleiri aðila um það mál. Ég er sannfærður um að þar má mikið bæta. Bæta má framleiðni og afköst sem ætti að geta orðið til þess að fiskvinnslunni yrði gert kleift að greiða hærri laun, en laun í fiskvinnslunni hafa lengi verið þrándur í götu almennra kjarabóta hér á landi.

Nýsköpun í landbúnaðinum er reyndar þegar hafin og þá ekki síst með nýjum búgreinum sem hafa þróast og þurfa í enn ríkari mæli að eflast samhliða þeirri framleiðslubreytingu sem óhjákvæmileg er á hinum svokölluðu hefðbundnu búgreinum. Þessi aðlögun hófst 1979, annars vegar með breytingu á framleiðsluráðslögunum og hins vegar með byggingu nokkurra tilraunabúa í loðdýrarækt og refarækt. Slíkum búum hefur síðan fjölgað mjög mikið og unnið hefur verið að því að sameina þau um fóðurstöðvar og skipuleggja þannig þessa nýju búgrein sem allra mest og best. Því þarf að sjálfsögðu að halda áfram. Að mati fróðra manna eru þarna miklir möguleikar. Þá er óhjákvæmilegt að nýta til þess að styrkja byggð þar sem dregur úr hinum hefðbundnu greinum og til að auka útflutningsframleiðslu þjóðarinnar.

Fiskeldi er jafnframt ný grein og þó ekki ný því að hér á landi hafa menn verið við fiskeldi í allmörg ár þó að í smáum stíl sé. Góður árangur bæði Norðmanna og Færeyinga hefur vakið menn til umhugsunar um að á því sviði sé mikið að vinna og auka megi mjög útflutning af eldisfiski sem reyndar hefur verið ákaflega lítill til þessa.

Ég þarf ekki að rekja þær stóru hugmyndir sem hafa verið til umræðu upp á síðkastið. Svo virðist sem fiskeldi hér á landi muni fara nokkuð aðrar leiðir en t. d. í Noregi og Færeyjum. Staðreyndin er sú að sjávarhiti er lægri hér við land nema frá Reykjanesi og austur um með suðurströndinni þar sem aðstaða til beins eldis í sjó er ákaflega erfið eins og allir þekkja. Eflaust munu verða reynd hér bæði hafbeit og eldi í tjörnum, en að flestra mati er talið að slíkar tjarnir verði á landi og sjó dælt í þær. Því fylgir töluverður kostnaður og því líklegt að þær verði töluvert stærri í sniðum en tíðkast hefur t. d. bæði í Noregi og Færeyjum.

En svo eru þau svið, sem ég nefndi áðan, þar sem nokkur og lofsverð byrjun er sýnileg, þ. e. ýmiss konar tölvu- og rafeindaiðnaður og upplýsingaiðnaður. Ég efa ekki að hér á landi eru einnig verulegir möguleikar á þeim sviðum og tel að álitlegastur muni vera svonefndur upplýsingaiðnaður, þ. e. hugbúnaður fyrir tölvur. Margt bendir til þess að við Íslendingar gætum vel haslað okkur völl á því sviði.

Ég hef nú rakið í almennum orðum bæði þá atvinnumálastefnu sem hér var áður og mikilvægi þess að marka nú nýja stefnu og þá nefnt á hvaða sviðum ríkisvaldið þurfi fyrst og fremst að beita sér til að skapa grundvöll og loks hvaða greinar nýiðnaðar eru af sérfróðum mönnum taldar álitlegastar hér á landi.

Það frv. sem hér er lagt fram fjallar um fjárútvegun til slíkrar atvinnuuppbyggingar. Það var einn af þeim fjórum þáttum sem ég tel að ríkisvaldið ætti fyrst og fremst að láta til sín taka.

Í því sambandi hafa í nágrannalöndunum verið farnar ýmsar leiðir. T. d. hefur í Skotlandi verið sett á fót stofnun, Scottish Development Agency, sem er nær sjóði og er algjörlega á vegum hins opinbera, fær umtalsvert fjármagn á ári hverju, en hefur hins vegar starfað mjög sjálfstætt, starfar þar bæði innanlands og erlendis. Hún starfar erlendis að því að laða fyrirtæki með þekkingu til landsins, en innanlands að því að skapa grundvöll með ýmiss konar fjárútvegun eða þátttöku í fyrirtækjum til þess að stuðla að stofnun slíkra fyrirtækja í Skotlandi.

Víða hafa hins vegar verið sett á fót svokölluð áhættufyrirtæki þar sem hið opinbera og einkaaðilar hafa sameinast um að leggja fram fjármagn og taka þannig þátt í þeirri áhættu sem fylgir stofnun nýrra fyrirtækja. Sú leið er valin hér. Hér á landi hafa ýmis fyrirtæki verið sett á fót síðustu árin sem vinna á svipaðan máta. Þessi fyrirtæki eru algerlega á vegum einkaaðila og leggja fjármagn sem hlutafé í nýiðnað á ýmsum sviðum. Þessi fyrirtæki hafa af eðlilegum ástæðum verið tiltölulega smá og geta hvergi nærri fullnægt þeim þörfum sem eru fyrir fjármagn til nýsköpunar í atvinnulífinu. Því var ákveðið að leggja til að sett verði á fót öflugt áhættufjármagnsfyrirtæki sem verður, ef samþykkt er, í formi hlutafélags. Sú leið var valin til þess að aðrir, sem kjósa að taka þátt í slíkri uppbyggingu með fjármagni, eigi þess kost að gerast hluthafar. Sú leið var valin í þeirri von að þannig megi fá inn aukið fjármagn. Engu að síður er gert ráð fyrir því, eins og fram kemur í því frv. sem ég mæli fyrir, að framlag ríkisins verði umtalsvert.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að ríkisstj. verði heimilt að leggja fram í reiðufé 100 millj. kr. sem hlutafé í félaginu, en gert er ráð fyrir að hlutafé félagsins í heild verði 200 millj. kr. Jafnframt er gert ráð fyrir að ríkisvaldinu verði heimilt að leggja fram viðbótarhlutafé allt að 100 millj. kr. ef ekki fæst það hlutafjárframlag, sem menn gera sér vonir um, frá öðrum aðilum. Þá er gert ráð fyrir því í frv. að ríkisstj. verði heimilt að stuðla að því að einstaklingar, afvinnuvegir og stofnanir taki þátt í þessu hlutafélagi með því að lána til fjögurra ára allt að helming af hlutafjárframlagi slíkra aðila gegn fullnægjandi tryggingum. Loks er gert ráð fyrir því að fyrirtækinu verði heimilað að taka að láni allt að 200 millj. kr. og endurlána til slíkrar nýsköpunar í atvinnulífinu eða ráðstafa á annan þann máta sem stjórn félagsins telur rétt og heimilt verður skv. lögum. Loks er heitið ríkisábyrgð fyrir allt að 300 millj. kr. vegna ábyrgða sem stjórn félagsins kann að ákveða. (Gripið fram í: Alls um 700 millj.?)

Tilgangur með stofnun félagsins er rakinn í athugasemdum við frv. Þar segir:

„1. Að láta gera og fjármagna eða taka þátt í gerð og fjármögnun forkannana og hagkvæmnisathugana.“ Það er að mínu mati ákaflega mikilvægt að svona félag starfi sjálfstætt að slíkum athugunum bæði innanlands og erlendis og miðli þeim upplýsingum sem það fær sem gætu þá orðið grundvöllur að nýsköpun í atvinnulífi.

„2. Að eiga frumkvæði og/eða taka þátt í stofnun, endurskipulagningu og sameiningu fyrirtækja.“

Gert er ráð fyrir því að félagið geti lagt fram hlutafé til fyrirtækja sem teljast til nýsköpunar í atvinnulífi og taki þannig þátt í upphaflegri áhættu. Eðlilegt er að slíkt hlutafé sé síðan selt þegar slíkt fyrirtæki er komið yfir byrjunarerfiðleika og má þá ráðstafa fjármagninu í annað.

„3. Að kaupa hlutabréf og/eða skuldabréf atvinnufyrirtækja,“ eða m. ö. o. veita lán til atvinnufyrirtækja sem teljast stuðla að nýsköpun í atvinnulífi.

„4. Að útvega eða veita áhættulán eða ábyrgðir vegna stofnunar, rekstrar og þróunar fyrirtækja.

5. Að taka þátt í og/eða styrkja hagnýtar rannsóknir á nýjungum í atvinnulífi og tilraunir með þær og aðstoða við öflun og sölu á réttindum til hagnýtingar þeirra.

6. Að hafa frumkvæði að samvinnu innlendra og erlendra fyrirtækja í markaðsmálum, vöruþróun og á tæknisviði.“

Ég tel þetta atriði mikilvægt því eins og ég nefndi fyrr í minni ræðu munu markaðsmálin eflaust reynast okkur Íslendingum sem oft fyrr einna erfiðust vegna lítils markaðar hér heima fyrir og mjög líklegt að veita þurfi aðstoð við að markaðssetja, eins og nú er sagt, ýmislegt af því sem framleiða má innanlands.

7. Að taka lán til eigin þarfa og til endurlána.“

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég hef gert nokkuð ítarlega grein fyrir grundvallaratriðum þeirrar stefnu sem með því er mörkuð. Frv. sjálft er ekki viðamikið. Að sjálfsögðu þarf að ganga frá samþykktum fyrir stofnun hlutafélags í þeim anda sem ég hef lýst um tilgang fyrirtækisins og að sjálfsögðu þarf á það að reyna hvort fjármagn fæst annars staðar frá. Því er í þeim öðrum frv. sem ég flyt hér ekki gert ráð fyrir því að starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins ljúki eins og hún er nú fyrr en 1. september n. k. þó að sjálfsögðu taki þessi lög gildi strax við samþykkt.

Að þessum orðum loknum og að lokinni þessari umr. legg ég til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.