29.04.1985
Neðri deild: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4594 í B-deild Alþingistíðinda. (3891)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég nefndi lauslega í ræðu minni áðan að Framkvæmdastofnun ríkisins muni láta af störfum og verði, má segja, skipt upp í Byggðastofnun og þá nýsköpun sem ég lýsti áðan.

Eitt af þeim frv. sem ég mæli nú fyrir er frv. til laga um Byggðastofnun. Byggðasjóður hefur verið mikilvægur þáttur í starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins. Má segja að þróun byggðar hér á landi eftir árin 1967 og 1968, þegar verulegur samdráttur varð í afla, hafi hvatt til þess að skipulegt átak yrði gert til þess að stuðla að því sem nefnt hefur verið jafnvægi í byggð landsins. Ég hygg að við Íslendingar höfum yfirleitt verið sammála um að okkur bæri að byggja landið nokkurn veginn allt sem byggilegt er. Ég hygg að við höfum verið sammála um að þannig nýtast náttúruauðlindirnar best og ég hygg jafnframt að við höfum verið sammála um að lífskjör manna, hvar sem þeir búa á landinu, þyrftu að vera sem líkust.

Að þessu hefur Byggðasjóður sem ein deild í Framkvæmdastofnun ríkisins unnið. Og ég held að menn geti verið sammála um að verulegur árangur hefur náðst í mörgum tilfellum. Byggðasjóður hefur iðulega hlaupið undir bagga þar sem erfiðleikar hafa orðið staðbundnir og oft miklir í byggðamálum og sérstaklega þá þar sem atvinnufyrirtæki hafa staðið höllum fæti og hætta hefur blasað við. Nægir í því sambandi að nefna tilfelli eins og Skagaströnd, Bíldudal, Þórshöfn, Eyrarbakka, Stokkseyri og fleiri mætti upp telja. Byggðastofnun hefur einnig unnið að allvíðtækri áætlanagerð um þróun byggðar á landinu. Þær áætlanir hafa tvímælalaust verið gagnlegar en ég hygg að gagnrýna megi hins vegar að yfirleitt hafa þær ekki legið til grundvallar framkvæmdum, eins og ætlast var til þegar Byggðasjóður ásamt Framkvæmdastofnun ríkisins var settur á fót. Einnig hefur það töluvert verið gagnrýnt að Byggðasjóður hefur í mörgum tilfellum veitt nokkuð sjálfkrafa lán til ýmiss konar atvinnuuppbyggingar og kaupa á tækjum um land allt og þá hafa menn ekki treyst sér til að meta í slíkum tilfellum hver hin raunverulega byggðaþörf hefur verið. En ég hygg að þegar á heildina er litið verði því alls ekki á móti mælt að starfsemi

Byggðasjóðs hefur verið árangursrík og stuðlað mjög að því að byggð hefur ekki raskast þó meir en raun ber vitni. Byggðasjóður hefur jafnframt birt upplýsingar um byggðaþróun hér á landi. Þær hafa verið gagnlegar og munu birtast enn á ný með skýrslu Framkvæmdastofnunar sem fljótlega verður kynnt hér á hinu háa Alþingi. Ljóst er að byggðaþróun gengur nokkuð í öldum, ef ég má orða það svo, og fer mjög eftir því hvernig ástand hinna hefðbundnu atvinnuvega er hverju sinni. Ég nefndi áðan að byggðaröskun varð töluverð upp úr 1967, 1968, þegar sjávarútvegurinn átti í umtalsverðum erfiðleikum. Það sýnir sig einnig að byggðaröskun hefur orðið veruleg nú eftir erfiðleikatímabil í sjávarútvegi og reyndar einnig í landbúnaði allra síðustu árin. Orðið hefur verulegur tilflutningur á fólki frá strjálbýlinu til þéttbýlisins, einkum til höfuðborgarsvæðisins, eins og fljótlega verða birtar tölur um í ítarlegri gögnum sem fyrir Alþingi verða lögð.

Tvímælalaust er mikilvægt og reyndar tel ég nauðsynlegt að markvissri byggðastarfsemi sé fram haldið. Því er nú flutt frv. til laga um Byggðastofnun sem er beinn arftaki Byggðasjóðs en er nú gert ráð fyrir að verði sjálfstæð stofnun. Því fylgja bæði kostir og gallar má segja. Í tengslum við Framkvæmdasjóð var iðulega unnt að lyfta stærra grettistaki í byggðamálum en Byggðasjóður gat einn. Oft var unnt að sameina útlán Byggðasjóðs og Byggðastofnunar í slíku skyni. Ég tel jafnframt ljóst að Byggðastofnun hljóti í framtíðinni að vinna að byggðamálum í nánu samstarfi við stofnlánasjóði viðkomandi atvinnugreina, sem um kann að vera að ræða hverju sinni, það hljóti að verða sameiginlegt átak. Hins vegar er gert ráð fyrir í þessu frv. að Byggðastofnun vinni markvissara að einstökum vandamálum byggða en veiti ekki almenn útlán að ákveðnum hundraðshluta til atvinnuþróunar eins og í mörgum tilfellum hefur verið. Í raun og veru er ekki gert ráð fyrir ýkjamiklum breytingum á Byggðastofnun og starfsemi þessari að öðru leyti frá því sem verið hefur.

Gert er ráð fyrir því að stjórn stofnunarinnar verði kjörin af Alþingi. Rétt þótti að halda þeirri skipan. Í byggðamálum er iðulega um allpólitísk mál að ræða, ef ég má orða það svo, og ég held í mjög mörgum tilfellum mikilvægt að þekking alþm. á þróun byggða sé til staðar og því eðlilegt að þeir séu áfram í stjórn. Að sumu leyti er valdsvið stjórnarinnar aukið frá því sem nú er. Stjórnin ræður sjálf forstjóra að stofnuninni og ásamt honum annað starfslið stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir því að stofnunin heyri undir forsrh. eins og Framkvæmdastofnun gerir nú en að þessu leyti starfi hún óháðari ríkisvaldinu.

Í gildandi lögum er ákvæði sem áskilur að Byggðastofnun skuli fá með framlagi á fjárlögum til viðbótar því fjármagni sem hann hefur eftir öðrum leiðum, allt að 2% af útgjaldahlið fjárlaga ár hvert. Þetta hefur verið nokkuð umdeilt atriði. Því hefur verið fullnægt flest ár, þó alls ekki öll og þá ætíð með því, að undanskildu, held ég, einu ári, að Byggðasjóður hefur fengið lánsheimildir til að ná þessari tölu, að hafa 2% útgjalda fjárlaga til ráðstöfunar. Í þessu frv. er þessu lítillega breytt. Um framlög á fjárlögum fer eins og fjárlög gera ráð fyrir hverju sinni. Hins vegar er gert ráð fyrir því að stofnunin hafi heimild til erlendrar lántöku þannig að ráðstöfunarfé nái 0.5% þjóðarframleiðslu en það er svipuð upphæð og 2% fjárlaga. Að ýmsu leyti þótti eðlilegra að miða við þetta fremur en fjárlögin. Heildarráðstöfunarfé Byggðastofnunar verður engu að síður svipað.

Í frv. eru svo allítarleg ákvæði um starfsemi stofnunarinnar, um áætlanagerð á hennar vegum. Henni ber að gera áætlanir eins og hún hefur gert til þessa. Henni ber að fylgjast með atvinnuástandi á einstökum stöðum og heimild er fyrir stjórn stofnunarinnar til að ákveða styrki í undantekningartilfellum þegar óhjákvæmilegt er til þess að forða frá bráðum vanda.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Eins og ég hef lýst þá er Byggðastofnun í öllum grundvallaratriðum svipuð Byggðasjóði sem hv. þm. þekkja vel.

Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. til l. um Byggðastofnun einnig vísað til fjh.- og viðskn. Loks mæli ég fyrir frv. til l. um Framkvæmdasjóð Íslands. Framkvæmdasjóður er, eins og ég hef áður sagt, ein deild af Framkvæmdastofnun ríkisins. Þeirri deild, Framkvæmdasjóði, var ætlað að annast lántöku fyrir hina ýmsu fjárfestingarsjóði í landinu og það hefur Framkvæmdasjóður að stórum hluta gert. Segja má að það verk hafi verið í tengslum við það verkefni Framkvæmdastofnunar að samræma starfsemi hinna ýmsu stofnlánasjóða, fylgjast með starfseminni og vera ríkisstj. til ráðuneytis um starfsemi framkvæmdasjóðanna. Þótt Framkvæmdastofnun hafi gert áætlanir um útlán sjóðanna og hafi veitt umsögn við gerð lánsfjáráætlunar og lánsfjárlaga þá held ég að segja megi að Framkvæmdastofnun hafi aldrei gegnt þessu hlutverki eins ítarlega og ráð var fyrir gert við setningu laganna 1971. Ég held að segja megi að hinir ýmsu framkvæmdasjóðir hafi meira eða minna starfað án íhlutunar Framkvæmdastofnunar eftir að fjármagn til þeirra hefur verið ákveðið. Þó hefur Framkvæmdastofnun í ýmsum tilfellum hlaupið undir bagga þegar augljós fjárvöntun hefur orðið hjá einstökum sjóði og þannig verið iðulega mikilvægur bakhjall. Ætlunin er að þessi starfsemi Framkvæmdastofnunar leggist niður og færist nú alfarið yfir til hinna ýmsu stofnlánasjóða. Frumvörp um stofnlánasjóðina eru í undirbúningi, eru á lokastigi og hef ég gert mér vonir um að þau mætti leggja fyrir Alþingi nú einhvern næstu daga þótt vafasamt sé orðið að þau náist að afgreiða á þessu þingi eins og æskilegt væri.

En Framkvæmdasjóður er staðreynd og um hann verða að gilda lög. Því er það frv. flutt sem ég mæli nú fyrir. Framkvæmdasjóður er í miklum skuldbindingum bæði erlendis og innanlands. Erlendar skuldir Framkvæmdasjóðs um síðustu áramót munu nema um 6 milljörðum 806 millj. kr. en innanlands 3 milljörðum 106 millj. kr. Samtals eru þetta rúmlega 9900 millj. kr. Auk þess hvíla nokkrar aðrar skuldir á Framkvæmdasjóði og munu heildarskuldir sjóðsins vera af stærðargráðunni u. þ. b. 10 milljarðar kr. Hins vegar eru útlán Framkvæmdasjóðs: lán með gengistryggingu 5 milljarðar 928 millj. kr., lán með verðtryggingu 3 milljarðar 125 millj., önnur útlán 47 og bankainnistæða 1 milljarður 55 millj. kr. Það er lán sem tekið var fyrir áramótin en ekki hefur verið ráðstafað enn og færist því sem eign á ársreikning um síðustu áramót. Útlán Framkvæmdasjóðs eru því samtals um 9.1 milljarður kr. og svo bankainnistæður, eins og ég sagði áður, upp á rúmlega 1 milljarð kr. Eigið fé Framkvæmdasjóðs mun vera samtals um 480 millj. kr. Það felst að hluta í mun á útlánum og innlánum í sjóðinn en einnig á sjóðurinn eignir, fyrst og fremst húseign þá á Rauðarárstíg þar sem sjóðurinn er nú til húsa ásamt Byggðastofnun og Þjóðhagsstofnun, en einnig á sjóðurinn hlutabréf í tveimur fyrirtækjum, Álafossi hf. og Norðurstjörnunni.

Framkvæmdasjóður Íslands er því augljóslega í miklum skuldbindingum og ef einhver hefur ímyndað sér að hann mætti leggja niður þá er ljóst af því sem ég hef nú nefnt að svo verður ekki.

Gert er ráð fyrir því að breyta lögum um Framkvæmdasjóð fyrst og fremst þannig að Framkvæmdasjóður standi ekki í beinum útlánum. Eins og ég hef áður sagt er stofnlánasjóðum, Byggðasjóði, Þróunarfélagi ætlað slíkt hlutverk. Hins vegar er heimilt að nýta Framkvæmdasjóð til lántöku erlendis vegna fjárfestingarsjóðanna ef þeir þess óska.

Í frv. er gert ráð fyrir því að ríkissjóður ábyrgist allar skuldbindingar Framkvæmdasjóðs. Það er eðlilegt því að ríkissjóður stendur að baki starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins og er því ábyrgur í dag fyrir þeim skuldbindingum sem þar hafa verið gerðar.

Gert er ráð fyrir því að Framkvæmdasjóður heyri undir forsrh. eins og Framkvæmdastofnun ríkisins gerir í dag og þar með Framkvæmdasjóður. Hins vegar er gert ráð fyrir þriggja manna stjórn og er einn skv. tilnefningu Seðlabanka Íslands, einn skv. tilnefningu fjmrh. og einn án tilnefningar. Eðlilegt þótti að þessir menn skipi stjórn sjóðsins. Í fyrsta lagi, eins og ég nefndi áðan, er ríkissjóður ábyrgur fyrir öllum skuldbindingum Framkvæmdasjóðs, og því eðlilegt að maður frá fjmrh. sitji í stjórn sjóðsins. Í öðru lagi er starfsemi sjóðsins nátengd starfsemi Seðlabankans, ekki síst t. d. í sambandi við erlendar lántökur ef Framkvæmdasjóður verður nýttur í því skyni. Því er eðlilegt að Seðlabanki Íslands hafi þar mann.

Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir því að húseign sú, sem ég nefndi áðan, að Rauðarárstíg 25 í Reykjavík verði sameign Framkvæmdasjóðs og Byggðastofnunar. Byggðastofnun er þarna til húsa og er eðlilegt að hún verði þar áfram. Einnig er heimild til að skipta þessari eign á milli þessara tveggja aðila. Sömuleiðis er gert ráð fyrir því í þessari sömu grein að hinn 1. janúar 1986 skuli eignarhaldsfyrirtæki ríkisins taka við allri hlutafjáreign Framkvæmdasjóðs og eignarráðum sjóðsins á viðkomandi hlutafélögum sem ég nefndi áðan að eru Álafoss hf. og Norðurstjarnan hf. Ég tel óhjákvæmilegt að fara fáeinum orðum um þetta ákvæði og þá sérstaklega beina því til fjh.- og viðskn. að hún athugi það mjög vandlega.

Eins og ég hef fyrr nefnt er Framkvæmdasjóður ábyrgur fyrir verulegum skuldbindingum bæði erlendis og innanlands. Í ákvæðum vegna erlendra lána er yfirleitt kveðið svo á að þau lán skuli taka til endurskoðunar ef eiginfjárstaða lántakanda, í þessu tilliti Framkvæmdasjóðs, er að einhverju umtalsverðu leyti skert.

Nú lít ég að vísu svo á að það ákvæði í 1. gr. sem segir að ríkissjóður ábyrgist allar skuldbindingar Framkvæmdasjóðs sé nægileg trygging fyrir skuldheimtumenn erlendis. Engu að síður þykir mér rétt að nefna það, sem mér hefur borist í hendur síðan frv. var fram lagt frá hagsmunagæsluaðila margra þessara erlendu skuldheimtumanna, að skoða þurfi mjög vandlega hvort rétt er að hafa ákvæði eins og er í 4. gr. í lögum. Þó að það vegi lítt í heildartryggingum fyrir þeim lánum sem Framkvæmdasjóður hefur tekið kann það að opna möguleika fyrir erlenda skuldheimtumenn til að heimta endurskoðun á kjörum á þeim lánum sem veitt hafa verið. Ég mun að sjálfsögðu láta nefndinni í té þau bréf sem ég hef fengið þessu aðlútandi. Er eðlilegt að nefndin skoði þau vel. Vitanlega má á ýmsan annan máta koma því svo fyrir að Byggðastofnun sé áfram til húsa á Rauðarárstíg 25 þó að ekki sé það fram tekið í þessum lögum. Um hlutafélögin tvö, sem Framkvæmdasjóður á, má vitanlega einnig hafa annan hátt, t. d. þann að hlutafé sé selt hugsanlegu eignarhaldsfyrirtæki sem reyndar er ekki enn neitt ákveðið um og er í undirbúningi. En mér þykir rétt að þessi atriði komi hér fram strax í framsögu þannig að þau verði athuguð af fjh.- og viðskn.

Ég vil þá leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði einnig frv. til l. um Framkvæmdasjóð Íslands vísað til hv. fjh.- og viðskn.