30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4607 í B-deild Alþingistíðinda. (3897)

387. mál, viðmiðunarverð Fiskveiðasjóðs á skipum

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. svar hans þó að það hafi verið á þann veg að í því fólust litlar upplýsingar. Ég veit að fyrir þá aðila, sem um þessi mál fjalla nú á of mörgum stöðum um landið, er það neikvætt að upplýsingar um þessa hluti liggja ekki fyrir. Í ræðu sjútvrh. kom þó fram að Fiskveiðasjóður bauð í eitt skip, Sigurfara frá Grundarfirði. Sú upphæð sem sjóðurinn bauð var húftryggingarverð skipsins. Manni verður því spurn hvort það sé hið fyrirhugaða viðmiðunarverð sem búast megi við að þessi skip verði til sölu á frá Fiskveiðasjóði fyrir heimaaðila. Ég tel að ef líkur væru fyrir því væri mjög nauðsynlegt að heyra það frá ráðherra hvort við því mætti búast.