30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4610 í B-deild Alþingistíðinda. (3900)

411. mál, hvalveiðar

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ekki óeðlilegt að mál sem þetta komi til umræðu á Alþingi og eins og hv. fyrirspyrjandi benti á hafa hvalveiðar verið gildur þáttur í tekjuöflun okkar þjóðarbús um margra ára skeið. Ég tel að þær upplýsingar sem hæstv. sjútvrh. hefur hér borið fram sem svar við fsp. beri vott um að að öllu leyti hafi verið eðlilega að máli staðið af hálfu ráðh. í þessu efni á grundvelli þeirrar samþykktar sem Alþingi gerði um að virða bann Alþjóðahvalveiðiráðsins. Ég hef sem aðili að utanrmn. Alþingis átt þess kost á fyrri stigum að fylgjast með þessu máli og upplýsingum sem þar hafa komið fram og ég vil að það liggi fyrir sem mitt viðhorf í þessu að ég tel að hér hafi verið farið fram skynsamlega í ljósi þeirrar ályktunar og ákvörðunar sem tekin var af Alþingi og að við þurfum að gera okkur ljóst að ef við ætlum að ná því marki að nýta þessa sjávarauðlind með eðlilegum hætti og þannig að við bíðum ekki hnekki af út á við, þá þarf að fara hér með ýtrustu gát. Það eru fá efni á alþjóðavettvangi í sambandi við nýtingu sjávarauðlinda sem jafnmikill styrr hefur staðið um og hvalveiðar og ég ætla ekki að fara að rifja neitt upp í þeim efnum. En ég tel að vönduð vinnubrögð af okkar hálfu, rannsóknir á því árabili sem fram undan er, muni skipta sköpum um það hvort fært verði fyrir okkur að hefja nýtingu hvalastofnanna eða veiðar í hvalastofnana á grundvelli þeirra rannsókna.

Ég lít ekki á hvali sem neina undantekningu frá öðrum lífrænum auðlindum, en hvalir hafa sín sérkenni og hvalastofnar. Um þá höfum við vitað allt of lítið, og hvað sem menn vilja segja um málafylgju þeirra sem harðast hafa gengið fram í sambandi við verndun hvalastofna, þá verðum við að gera okkur ljóst að á okkur hvíla augu heimsins í sambandi við þetta mál. Ég vil ljúka mínu máli, herra forseti, með því að hvetja til þess að menn stuðli að því og styðji við það að rannsóknir megi ganga hér fram, rannsóknir sem ekki mega á neinn hátt bera vott um að menn séu að fara á bak við þær samþykktir sem Alþingi hefur gert á sínum tíma og veiðarnar séu eingöngu stundaðar í rannsókna- og upplýsingaskyni.