30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4613 í B-deild Alþingistíðinda. (3906)

411. mál, hvalveiðar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli hér því að vissulega er um stórt mál að ræða. Þau eru nefnilega mörg litlu hreppsfélögin sem eiga þarna töluvert mikilla hagsmuna að gæta að því er varðar atvinnumál og ekkert síður er vert að líta til þess þáttar sem eru útflutningsverðmætin í sambandi við þessa atvinnugrein.

Ég tók svar hæstv. sjútvrh. svo að það væri a. m. k. einn þáttur þeirrar áætlunar sem nú er verið að vinna að að kanna hvort ástæða væri til þess fyrir Alþingi að endurskoða fyrri ákvörðun. Ég er þeirrar skoðunar að það sé fullkomin ástæða til þess að endurskoða þá ákvörðun sem hér var tekin 2. febrúar 1983. Ég hef þá misskilið hæstv. sjútvrh. illilega ef það kom ekki fram í hans máli að meðal annars væri það starf, sem nú er innt af hendi, til þess unnið að kanna líka hvort ástæða væri til að endurskoða þá afstöðu. Ég held að nauðsynlegt sé að slíkt verði gert. Þarna eru fjöldamargir aðilar sem hafa hagsmuna að gæta atvinnulega séð og á fleiri sviðum.

Þó að ég segi þetta er ég ekki þar með að segja að ekki eigi að fara að málinu með gát. Það er skynsamra manna háttur að gera slíkt. En ég held að það sé full ástæða til þess að hafa sterklega inni í þeirri mynd sem nú er unnið að að skapa að endurskoðun á ályktuninni frá í febrúar 1983 komi fyllilega til greina.