30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4613 í B-deild Alþingistíðinda. (3907)

411. mál, hvalveiðar

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Ég vil taka undir þakkir til fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli hér í þingsölum nú, tveimur árum eftir að Alþingi samþykkti að hlíta banni Alþjóðahvalveiðiráðsins.

Það er vissulega tímabært að hugleiða þetta mál á nýjan leik, ekki síst í ljósi þeirra miklu efnahagslegu og atvinnulegu hagsmuna sem við hvalveiðar eru bundnir. Þá á ég ekki aðeins við veiði stórhvala sem fyrirspyrjandi nefndi svo, en þar er um atvinnu hátt á annað hundrað manna að ræða og verulegar gjaldeyristekjur, heldur einnig hrefnuveiðar víða um land. Þess vegna er full ástæða til þess að velta því fyrir sér hver framtíðin verður að loknu þessu ári í hvalveiðum.

Vegna þeirra ummæla sem við höfum heyrt í þessum umr. vildi ég leggja örfá orð í belg og í fyrsta lagi víkja að Hafréttarsáttmálanum sem kom hér á dagskrá. Þar er ekki að finna neitt bann eða nein sérstök fyrirmæli um almennar takmarkanir á hvalveiðum. Hafréttarsáttmálinn byggir á því að auðlindir hafsins séu nýttar, en jafnframt að þeim sé veitt full vernd gegn ofveiðum.

Nú liggur fyrir samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins sem er tekin á ákaflega hæpnum grunni. Alþingi hefur hins vegar ákveðið að hlíta henni og við svo búið situr vitanlega. En vegna ummæla eins hv. alþm. um það að við vitum ekkert um það í dag hér á Íslandi hvort óhætt er að veiða hvalastofninn eða ekki, þá er óhjákvæmilegt að benda á að fram að þessu liggja ekki fyrir neinar vísindalegar rannsóknir eða niðurstöður um það að hvalastofnarnir við Ísland séu rányrktir. Þetta er staðreynd sem ástæða er til að undirstrika og hafa í huga. Þvert á móti sýna aflatölur að í þau 40 ár sem hvalveiðar hafa nú farið fram hér, allt frá stríðslokum, hafa stofnarnir ekki farið minnkandi.

Nú gat sjútvrh. um sérstaka framkvæmdaáætlun hvað hvalveiðar snertir. Hana hafa þm. ekki séð né heldur utanrmn. Það er ugglaust næsta skref og það er skynsamlegt skref. Ástæða er til að fagna að skriður er kominn á málið. Það er ekki seinna vænna vegna þess að bannið tekur gildi frá upphafi næsta árs. En ég held að full ástæða sé til að leggja áherslu á að til þess að vísindalegar upplýsingar og staðreyndir fáist verður vitanlega að standa að söfnun þeirra í verulegum mæli. Einnig verður að heimila veiðar í vísindaskyni í sem ríkustum mæli til þess að unnt sé að afla sem mestra, gleggstra og víðtækastra staðreynda um göngur hvala hér við land, um stofnstærð, aldursskiptingu, dreifingu o. s. frv. Það er því ástæða til að láta þá ósk í ljós að hér verði um sem víðtækasta rannsóknar- og vísindaáætlun að ræða.