30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4614 í B-deild Alþingistíðinda. (3908)

411. mál, hvalveiðar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er e. t. v. ekki ástæða til þess að bæta miklu við það sem hefur hér verið sagt. Ég vil taka undir margt af því sem kom fram hjá síðasta ræðumanni. Ég held að við hljótum að reyna að athuga alla möguleika á því að halda þessum veiðum áfram ef þess er nokkur kostur. Mér er sagt af þeim sem hafa stundað þessar veiðar að ekkert bendi til þess að stofninn hafi minnkað á undanförnum árum. Þetta eru að vísu þeir sem stunda veiðarnar. Þó hefur sýnt sig að t. d. hrefnuveiðarnar hafa gengið það greiðlega að það hlýtur að benda til þess að mikið sé af hrefnu víða við land. sömu sögu má segja um hvalveiðarnar. Þetta er auðvitað engin vísindaleg úttekt á þessum málum, en bendir alla vega til þess að stofnstærðirnar séu ekki minni en þær hafa verið um árabil.

Ég vil leggja á það áherslu að reynt verði að halda á þessum málum á þann veg — og því fyrr því betra — að hægt sé að halda þessum veiðum áfram.