30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4615 í B-deild Alþingistíðinda. (3910)

411. mál, hvalveiðar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það bætir ekki stöðu þessa máls þó að önnur afglöp hafi verið samþykkt sama dag í sölum Alþingis og e. t. v. sami baráttumaður fyrir báðum.

En spurningin er þessi: Hvaða lífskjör viljum við hafa í þessu landi? Höfum við efni á því að rústa vel rekin fyrirtæki sem eru að nýta auðlindir þessa lands undir eftirliti íslenskra vísindamanna og undir eftirliti sjútvrn.? Teljum við að grasafræðingarnir í Sviss og Austurríki viti meira um þessi mál? Það er spurningin sem menn verða að gera upp við sig. — Ég veit að sumir hafa áhuga á því að fletta öðrum blöðum og skoða aðra hluti þegar þessi mál eru til umr. nú vegna þess að þeir töluðu af það mikilli vanþekkingu seinast að þeir hafa ekki efni á því að það verði rifjað upp.

Hitt er aftur á móti athyglisvert þegar formaður utanrmn., hv. 4. þm. Norðurl. v., hvetur menn til að tala í það minnsta ekki um það upphátt að við höfum gert vitleysu. Hvað er verið að segja? Menn eiga að tala um það í hljóði. En hvenær tala menn um hlutina í hljóði? Það er þegar þeir eru búnir að gera þau mistök að þeir skammast sín fyrir að tala um þá upphátt.

Auðvitað þurfum við að endurskoða okkar afstöðu. Auðvitað þurfum við að hafa það sem meginmarkmið að nýta þær auðlindir sem hér eru, að sjálfsögðu undir vísindalegu eftirliti. Og ég vil halda því fram að við höfum ekki efni á því að rýra lífskjör þjóðarinnar með því að taka jafnvitlausar ákvarðanir og teknar voru hér á Alþingi á þeim degi sem minnst var á áðan.