30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4615 í B-deild Alþingistíðinda. (3911)

411. mál, hvalveiðar

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það er eingöngu til að forða misskilningi að ég kveð mér hljóðs. Síst af öllu vil ég fara að rifja upp gamlar deilur og tel að það þjóni engum tilgangi að við séum að ræða það núna hvort rétt var eða rangt gert. Ég sagði aðeins að við hefðum ekki glatað rétti, að mínu mati, með því að mótmæla ekki. Það hníga að því mörg rök. Við getum sagt okkur úr Alþjóðahvalveiðiráðinu ef við ekki viljum hafa með það að gera o. s. frv. Ég ætla ekki að endurtaka þau rök. Við skulum ekki fara að deila um hvort við gerðum rétt eða rangt, en við höldum því ekki fram opinberlega, framan í þeim sem við eigum undir högg að sækja að ná rétti til hvalveiða undir vísindalegu eftirliti, að við höfum farið rangt að og tapað rétti. Við hljótum að halda því fram að við höldum öllum okkar rétti og ekki síðri rétti en þeir sem hafa mótmælt, enda þurfa þeir 3/4 til þess að fá samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins til breytinga, en við þurfum ekki nema meiri hluta atkvæða til að okkar mál verði tekið fyrir, það liggur alveg fyrir í samþykktum ráðsins.

En umfram allt: förum ekki að deila um þetta. Þetta var mikið álitamál og við sem vorum þá í utanrmn. þurftum að leggja á okkur mikla vinnu, og ekki nema sjálfsagt að gera það, til að komast að niðurstöðu. Við vorum ekkert að deila þar í nefndinni. Það endaði með því að sitt sýndist hvorum, meiri hluta og minni hluta, og gengum til atkvæða. Það munaði víst einu atkvæði. Það þjónar ekki tilgangi að fara að rifja það upp og rífast um það.

Að því er varðar Hafréttarsáttmálann þá vill svo vel til að honum verður, held ég, útbýtt hér í dag eða þá á fimmtudaginn í íslenskri þýðingu. Þá geta allir lesið það sem þar stendur um núgildandi rétt í þeim málum er hvalina varða.