30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4616 í B-deild Alþingistíðinda. (3912)

411. mál, hvalveiðar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég átti þess ekki kost að hlýða á svar hæstv. sjútvrh., en ég fagna því að þetta mál skuli hafa verið tekið hér upp. Af umræðum sem ég hef heyrt hér þykist ég nokkuð mega ráða hverju hann hefur svarað. En í mínum huga var það heldur dapurlegur dagur í þingsögunni þegar Alþingi tók þá ákvörðun að mótmæla ekki banni Alþjóðahvalveiðiráðsins, dapurlegur vegna þess að þá komu hv. þm. hér hver á fætur öðrum í þennan ræðustól og beygðu sig ekki fyrir rökum heldur fyrir hótunum. En þetta er liðin tíð, búið og gert og tilgangslaust um það að tala nú.

Ég vil eindregið hvetja til þess að leitað verði allra leiða til þess að unnt verði í einhverjum og helst sem mestum mæli að halda héðan áfram hvalveiðum þannig að þessi atvinnugrein megi áfram vera til staðar vegna þess að hér er ekki aðeins um að ræða einn þátt atvinnulífsins, heldur er hér beinlínis um að ræða þátt og ekki lítinn í okkar mannlífi og menningu.

Það er eitt sem ég einkum sakna í þessu máli, sem þögn hefur nú ríkt um að undanförnu, og það er að við höfum látið undir höfuð leggjast að kynna okkar rök og kynna okkar málstað. Á hverri einustu ráðstefnu þar sem fjallað er um náttúruverndarmál kynna þeir grænfriðungar, sem fara þó með litlum friði og hóta efnahagslegum hermdarverkum, sín mál mjög rækilega. Þetta höfum við ekki gert. Okkar rök, sem vissulega eru þung og veigamikil, hafa legið í þagnargildi. Þess vegna vil ég skora á hæstv. sjútvrh. að beita sér fyrir því að okkar rök og okkar málstaður í þessu veigamikla hagsmunamáli verði kynnt betur en gert hefur verið þannig að okkar sjónarmið megi berast sem víðast. Við höfum sterk rök og gild rök fyrir okkar málstað í þessu máli, en við höfum látið undir höfuð leggjast að flytja þetta mál og færa rök fyrir okkar málstað svo sem vert hefði verið. Til þess vil ég eindregið hvetja. Þetta kostar nokkurt fjármagn, því er ekki að neita, en við eigum ekki að horfa í það. Við eigum að láta nokkurt fé af hendi rakna til þess að sem flestum megi verða ljóst að þeir ofstopamenn sem beita sér gegn okkur í þessu máli, og ég segi ofstopamenn og er reiðubúinn að standa við það, hafa ekki allan rétt og öll rök sín megin. Við eigum þarna líka bæði rétt og rök.