30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4617 í B-deild Alþingistíðinda. (3913)

411. mál, hvalveiðar

Fyrirspyrjandi (Valdimar Indriðason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þau svör sem hann gaf hér við fyrirspurn minni. Mér finnst að það hafi verið full þörf á því að spurt væri um þetta mál sem hér hefur legið í þagnargildi að mestum hluta frá í byrjun árs 1983. Það kemur á daginn núna þegar við ræðum þessi mál, sem við vissum ekki um óbreyttir þm., að í þessum málum er mikið unnið, virðist vera, og verið að gera þar áætlanir og menn vinna að því að leysa þessi mál. Ég fagna því mjög. Þetta vissi ég ekki um áður en fsp. var borin upp. Ég vona, og vil ekki vekja upp neinar frekari umræður um þessi mál, að þarna verði jákvæður og góður árangur sem fyrst. Ég held og hef trú á, eftir orðum hæstv. sjútvrh., að hér verði hvalveiðar áfram. Hvað miklar getum við ekki sagt um, þær verða undir vísindalegu eftirliti að sjálfsögðu, enda þurfa Íslendingar ekki að óttast slíka hluti. Við höfum sýnt það og sannað, eins og ég tók fram áðan, með þá nytjastofna sem við höfum verið að friða hér við landið, að þar hefur engin þjóð staðið okkur framar. Og ég þyrði að fullvissa alla aðila um að gagnvart hvalnum og slíkum stofnum væri ekki hætta á því að Íslendingar gengju lengra en góðu hófi gegndi. Þess vegna höfum við sérstöðu í þessu máli sem við þurfum að nýta okkur sem best á alþjóðavettvangi í viðræðum við þessa aðila.