30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4619 í B-deild Alþingistíðinda. (3916)

435. mál, uppeldisstörf á dagvistarheimilum

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Fsp. hv. 10. landsk. þm. er á þskj. 727 og hljóðar svo: „Hvað líður framkvæmd þeirrar starfsáætlunar um uppeldisstörf á dagvistarheimilum sem samþykkt var að gerð yrði með lögum nr. 40/1981?“

Nefndin sem hæstv. forseti Nd., þáv. menntmrh., skipaði árið 1982 til þess að semja áætlun í samræmi við þessi lög hefur lokið störfum nú fyrir fáeinum vikum. Nefndin hefur kosið að kalla þetta verk sitt „Uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimili, markmið og leiðir.“ Nefndin skilaði þessari uppeldisáætlun til menntmrn. 25. febrúar s. l. og var hún þá send til þeirra stofnana og félagasamtaka sem tilnefndu fulltrúa í nefndina. Það voru: 1. stjórnarnefnd dagvistarheimila Reykjavíkurborgar, 2. félagsmálaráð Akureyrar, 3. félagsmálaráð Hafnarfjarðar, 4. félagsmálaráð Kópavogs, 5. Samtök foreldrafélaga við dagvistarheimili, 6. Fóstrufélag Íslands, 7. Fósturskóli Íslands og 8. Kennarasamband Íslands.

Þessi uppeldisáætlun er nú í prentun og verður tilbúin til dreifingar í næstu viku að því er ætlað er. Ákveðið hefur verið að senda hana til allra dagvistarheimila á landinu og nokkurra fleiri aðila sem hafa sýnt þessu máli áhuga. Einnig verður hún seld í Námsgagnastofnun. Það má ætla að foreldrar og aðrir þeir sem börn annast hafi áhuga á að kynna sér efni þessa verks.

Um inntak þessarar uppeldisáætlunar má í stuttu máli segja að þar eru sett fram markmið sem nefndin taldi að stefna bæri að í uppeldisstarfi á dagvistarheimilum. Síðan er fjallað um helstu uppeldissvið, grundvallarviðhorf og meginleiðir í uppeldi ungra barna. Uppeldisáætlunin felur ekki í sér neinar gerbreytingar á því starfi sem nú fer fram á dagvistarheimilum í landinu. Miklu fremur er henni ætlað að auðga það starf, dýpka það og víkka. Uppeldisáætlunin byggir á hefðbundnum grundvallarhugmyndum um forskólauppeldi. Markmið starfsins mótast fyrst og fremst af lýðræðislegu lífsviðhorfi og kristilegu siðgæði. Aðaláhersla er lögð á að efla alhliða þroska barnanna, þ. e. líkams-, tilfinninga-, vitsmuna-, félags- og fagurfræðilegan og siðgæðisþroska og búa börnunum vei skipulagt uppeldisumhverfi og örugg leikskilyrði sem jafnframt eru hlýleg og lærdómsrík. Uppeldisáætluninni, sem svo er nefnd, er ætlað að vera leiðarvísir fyrir fóstrur og annað starfsfólk á dagvistarheimilum. Hún á að vera nokkurs konar umgjörð um það uppeldisstarf sem þar fer fram eða sveigjanlegur starfsrammi. Á grundvelli þessa leiðarvísis og með markmiðin að leiðarljósi getur sérhvert dagvistarheimili gert sínar eigin áætlanir og byggt upp uppeldisstarfið í samræmi við þær þarfir og aðstæður sem fyrir hendi eru.

Varðandi framhald þessa starfs er rétt að taka fram að ég hef ráðið Valborgu Sigurðardóttur, fyrrum skólastjóra Fósturskólans, til að kynna þessa uppeldisáætlun á dagvistarheimilum fyrir starfsfólki og foreldrum og einnig til að vinna áfram að gerð leiðbeininga fyrir þessa sömu aðila, foreldra og starfsfólk. En Valborg var sérfræðingur þessarar nefndar og hafði á hendi samningu sjálfs nefndarálitsins og frágang þess í nánu samstarfi við nefndarmenn.

Ég ætla, herra forseti, að hér með hafi ég lokið við að svara þessari fsp. og mun fúslega í framhaldi af þessu svari skenkja fyrirspyrjanda það eina eintak sem ég á af þessari uppeldisáætlun í trausti þess að þetta verði tilbúið úr prentun innan fárra daga.