30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4621 í B-deild Alþingistíðinda. (3920)

435. mál, uppeldisstörf á dagvistarheimilum

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Aðeins til þess að við skiljum hvor aðra, hæstv. menntmrh. og ég. Ég held að það sé mér ekki nóg svar að ein manneskja, jafnvel þó að hún sé ein virtasta fóstra og forstöðumaður landsins, ef það er allt sem gera á, að hún kynni þessa skýrslu og vinni — nú man ég ekki hvernig hæstv. ráðh. orðaði það — leiðbeiningar til þá væntanlega fóstra og forstöðumanna. Ég lagði á það áherslu í mínu máli, þegar ég mælti fyrir þessu frv., að þetta yrði gert í samvinnu við skólamenn og umfram allt að unnin yrðu námsgögn. Og það gerir engin ein manneskja. sannleikurinn er sá að ofan á allt sem fóstrur landsins hafa á sig lagt hafa þær líka meira og minna búið til sín eigin námsgögn vegna þess að þeim þætti námsgagnagerðar hefur ekki verið sinnt. Ég vænti þess að ég megi skilja það svo — ráðherra leiðréttir þá ef það er alger misskilningur — að til þessa verði veitt fé við gerð næstu fjárlaga. Þetta verður ekki til af engu. Mér þætti vænt um að heyra hæstv. ráðh. sjálfan segja hér að þetta sé réttur skilningur minn.