30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4624 í B-deild Alþingistíðinda. (3925)

421. mál, sjómannadagurinn sem lögskipaður frídagur

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. svör hans sem voru skýr og greinargóð. Ég get vissulega tekið undir það að rík ástæða er til að afla sem víðtækastrar samstöðu um þetta mál, knýja það ekki fram í mikilli andstöðu eða blóra við þá sem hlut eiga að máli og freista þess að ná samstöðu og samkomulagi um að sjómannadagurinn verði lögskipaður frídagur. Ég skildi orð hæstv. ráðh. á þann veg að hann teldi ekki tímabært á þeim skamma tíma þings sem nú lifir að knýja þetta mál fram heldur væri hann reiðubúinn að beita sér fyrir því á næsta þingi að löggjöf yrði sett um það að sjómannadagurinn verði lögskipaður frídagur. Ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. sjútvrh. og þakka honum svörin.