30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4624 í B-deild Alþingistíðinda. (3926)

433. mál, lán til fiskeldisstöðva

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða fsp. til hæstv. forsrh. um ábyrgðir Framkvæmdasjóðs vegna lána til fiskeldisstöðva. Við tölum gjarnan mikið um áhuga okkar á því að efla hér fiskeldi, hér sé um að ræða vaxtarbrodd í íslensku atvinnulífi. Svo mikið er víst að mikill og vaxandi áhugi er á þessari grein á Íslandi og við heyrum oft tíðindi af því að verið sé að stofna til nýrra stöðva á þessu sviði. Samt er það svo að Alþingi, ríkisstj., hið opinbera hefur staðið sig ákaflega klént að mínum dómi í þessum málefnum. Þar er enga fasta stefnumörkun að finna um það hvernig á þessum málum skuli haldið. Segja má að fiskeldi eigi hvergi heima í kerfinu, ekki í stjórnkerfinu því að það heyrir í rauninni ekki undir neitt rn., löggjöf sem í gildi er hefur ekki verið miðuð við að fiskeldi yrði stundað í þeim mæli sem nú er útlit fyrir og menn binda vonir við og að því er fjárfestingarlánasjóði varðar er helst svo að sjá að fiskeldið, þessi vaxtarbroddur atvinnulífsins, eigi hvergi heima.

Það er hægt að rekja sögur af því hvernig menn hafa farið bónleiðir til búðar í banka- og fjárfestingarlánasjóðakerfinu til þess að fá lán til framkvæmda af þessu tagi. Bankarnir neita og segja að þar eigi menn ekki heima og menn eiga ekki heima í Fiskveiðasjóði og ekki heldur í Stofnlánasjóði landbúnaðarins m. a. vegna þess að menn hafa ekki greitt iðgjald í þann sjóð af grein sem varla hefur verið til fram undir þetta.

Mér er kunnugt um að a. m. k. tveir allöflugir aðilar, þ. e. Fiskeldi Grindavíkur og Íslandslax, hafa fengið lánsvilyrði hjá Norræna fjárfestingarsjóðnum eða Norræna fjárfestingarbankanum til uppbyggingar á fiskeldisstöðvum sínum. Þessi vilyrði eru ekki ný af nálinni. Ég held að ég muni það rétt að annað fyrirtækið hafi byrjað á því a. m. k. að leita til bankanna um að þeir gerðust ábyrgðaraðili, ekki vegna þess að fyrirtækið væri svo fátækt eða gæti ekki veitt verulegar ábyrgðir heldur vegna þess að fjárfestingarsjóðurinn fór fram á að fá einn ábyrgðaraðila. Félagið sjálft bauð sjálfskuldarábyrgð eigendanna og eigendurnir, sem eru næstum öll útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki í Grindavík, eru með ársveltu upp á milljarð og þykir náttúrlega hart að geta ekki önglað saman peningum sem nemur einum bátspungi. Engu að síður var talið nauðsynlegt að einn ábyrgðaraðili væri fyrir hendi. Bankarnir neituðu. Þá var leitað til Framkvæmdasjóðs fyrir u. þ. b. hálfu ári síðan um að hann veitti þessa ábyrgð og þá gegn bakábyrgðum í þeim fyrirtækjum öllum í Grindavík sem samtals eru með eins milljarðs kr. veltu. En ábyrgðin hefur ekki fengist enn þótt hálft ár sé liðið.

Svipaða sögu er að segja af öðru fyrirtæki, Íslandslaxi hf. Að því er allöflugur eigandi líka, nefnilega Samband ísl. samvinnufélaga og systkini á þeim bæ, svo ég stytti mér leið við að telja upp hverjir eignaraðilarnir séu. Líka þeir eiga margra mánaða gamla umsókn hjá Framkvæmdasjóði um að fá ábyrgð til að geta fengið að nýta sér það lán sem þeir hafa fengið vilyrði fyrir hjá Norræna fjárfestingarbankanum.

Þetta verður að teljast harla undarlegt og óviðunandi að á sama tíma og menn tala hér fullum hálsi um það hverja nauðsyn beri til að efla þessa grein skuli það tefjast fyrir sjóðakerfinu á Íslandi mánuðum saman, allt upp í hálft ár að afgreiða óskir um slíkar ábyrgðir. Ég lít reyndar svo á að þær séu ekki annað en formsatriði vegna þess að eignir þeirra aðila sem eru að fara fram á þessar ábyrgðir, annars vegar næstum allar fiskvinnslustöðvar í Grindavík og útgerðarfyrirtæki og hins vegar Samband ísl. samvinnufélaga, eru hér að veði. Það er því engin áhætta sem Framkvæmdasjóður er að taka á sig. Þess vegna er vitaskuld spurt og spurningin er einföld og hún er bara ein til forsrh.:

„Hvað tefur að Framkvæmdasjóður Íslands veiti Fiskeldi Grindavíkur og Íslandslaxi hf. ábyrgð á láni hjá Norræna fjárfestingarbankanum sem báðir aðilar hafa fengið vilyrði fyrir að fenginni slíkri ábyrgð?“