30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4628 í B-deild Alþingistíðinda. (3930)

433. mál, lán til fiskeldisstöðva

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hæstv. forsrh. að ég vona svo sannarlega að það verði skynsamleg uppbygging í greininni og að menn forðist mistök. Ég get vitnað í gamla ræðu sem ég flutti hér um þetta efni fyrir nokkru síðan og byrjaði á tilvitnun í samtal sem ég átti við gamlan bekkjarbróður minn úti í Noregi sem hefur verið þar búsettur í 20 ár eða svo. Ég var að segja honum frá því að mér og okkur Íslendingum litist vel á þetta með fiskeldið, að við mundum fá þarna sérstakan vaxtarbrodd í atvinnulífinu. Þá svaraði hann að bragði: Nei, góði minn. Fiskeldi er nákvæmnisvinna, Íslendingar eru göslarar. Þetta fer áreiðanlega í vaskinn hjá þeim eins og annað.

Mér þótti þetta náttúrlega nokkuð harður dómur en hættan er vissulega fyrir hendi og víst höfum við séð mistökin í ýmsum öðrum búgreinum þar sem menn hafa farið sér óðslega. En hvað um það, ég tek undir það sem ég hef áður sagt um þetta efni og tek undir það sem forsrh. segir um það að auðvitað er nauðsynlegt að við undirbúum okkur vel í þessari grein.

En það breytir ekki því að það mál, sem ég gerði hér að umtalsefni, um tafir á því að tvö fyrirtæki fengju ábyrgð hjá Framkvæmdasjóði til að taka lán hjá Norræna fjárfestingabankanum, hefur tafist mánuðum saman. Þessi erindi eru fjögurra og sex mánaða gömul og ég get ekki skilið hvernig hæstv. forsrh. getur svarað því að þetta sé ekkert vandamál úr því að það liggur fyrir að málin hafa tafist mánuðum saman og að upplýst var í ræðu hans hér áðan að skiptar skoðanir væru um málið í ríkisstj. Það er auðvitað skýringin og úr því verður að leysa.