30.04.1985
Neðri deild: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4675 í B-deild Alþingistíðinda. (3956)

Um þingsköp

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hv. þd. á því að á morgun er baráttudagur verkalýðsins, 1. maí. Hér var ekki hægt að tala í dag um þau dagskrármál sem að mínu viti koma íslenskum verkalýð eitthvað við. Þar nægir að nefna á dagskrá Sþ. þáltill. um lækkun vaxta og stöðvun nauðungaruppboða, ýmis mál sem voru hér á dagskrá hv. Nd., frv. um Lífeyrissjóð bænda, erfðalög, Lífeyrissjóð sjómanna, elli- og örorkulífeyri og fleira þess háttar.

Þess í stað hefur kveðja ríkisstj. til íslensks verkalýðs verið það raus sem hér hefur farið fram í dag, um hvort einn, tveir, þrír eða fjórir karlar eiga að sitja saman í majonesveislum Framkvæmdastofnunar. Það er kannske sama ástæða fyrir þessu og því sem birtist í auglýsingum í blöðum (ÓÞÞ: Eru þetta þingsköp?) Þetta er um þingsköp, já. (ÓÞÞ: Majonesveislur?) Það algjöra ráðleysi sem ríkir hér í þjóðfélaginu virðist birtast í vali á ræðumönnum morgundagsins. Höfuðpaurarnir, hinir nýju samráðsaðilar ríkisstj. og atvinnurekenda, forustumenn verkalýðsins, virðast ætla að halda sig víðs fjarri, og hér er síðasti dagur fyrir 1. maí notaður í þetta gagnslausa raus sem kemur engri lifandi manneskju í þjóðfélaginu við nema e. t. v. nokkrum körlum innan Framkvæmdastofnunar.