30.04.1985
Neðri deild: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4676 í B-deild Alþingistíðinda. (3957)

464. mál, barnalög

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á barnalögum, en flm. ásamt mér eru hv. þm. Ólafur G. Einarsson, Guðrún Helgadóttir, Guðmundur Einarsson, Guðrún Agnarsdóttir og Ólafur Þ. Þórðarson. Frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hafi foreldrar barns fengið skilnað erlendis og svo háttar til að því foreldri, sem ekki hefur forsjá barns, hefur ekki verið gert að greiða meðlag með því, t. d. vegna fjárhagsörðugleika, getur valdsmaður úrskurðað meðlag til forsjárforeldris á hendur Tryggingastofnun ríkisins, enda leggi það fram hið erlenda skilnaðarleyfi eða skilnaðardóm fyrir valdsmanninn. Ríkissjóður endurgreiðir þessar fjárhæðir en Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimtir greiðslur þessar hjá föður eftir því sem fært reynist.“

Í barnalögunum er ákvæði þess efnis að færi barnsmóðir fullnægjandi sönnur á faðerni barns að mati valdsmanns þar sem hún á lögheimili, en barnsfaðir er heimilisfastur erlendis eða ókunnugt er um heimilisfang, skal valdsmaður úrskurða henni meðlag á hendur Tryggingastofnun ríkisins. Með þessu ákvæði er tryggður réttur til meðlagsgreiðslna vegna óskilgetinna barna þannig að Tryggingastofnun ríkisins greiðir meðlagið ef barnsfaðir er heimilisfastur erlendis eða ekki er vitað um búsetu hans. Á sama hátt greiðir Tryggingastofnun ríkisins barnalífeyri þegar fyrir liggur að barn verði ekki feðrað. Þannig virðist því að fullu vera tryggður réttur óskilgetinna barna þannig að barnsmóður eru ávallt tryggðar meðlagsgreiðslur, annaðhvort í formi meðlags eða lífeyris.

Hins vegar, sé um að ræða að ekki reynist unnt að afla meðlagsúrskurðar eftir skilnað foreldra erlendis á hendur þess foreldris sem ekki hefur forsjá barns vegna þess að meðlagsskyldur aðili er búsettur erlendis og hefur skv. skilnaðardómi í sínu landi ekki verið dæmdur meðlagsskyldur, þá eru ekki lagaskilyrði fyrir íslensk stjórnvöld til þess að úrskurða hann meðlagsskyldan. Engar lagaheimildir eru heldur fyrir hendi til þess að úrskurða greiðslu meðlags eða barnalífeyris á hendur Tryggingastofnun ríkisins þó forsjárforeldri flytjist aftur hingað til lands með börn sín eftir skilnað erlendis.

Ljóst er því að um mismunun er að ræða á réttarstöðu skilgetinna og óskilgetinna barna til greiðslu á lífeyri. Tilgangur með flutningi þessa frv. er að leiðrétta þennan mismun þannig að valdsmaður geti úrskurðað á hendur Tryggingastofnun ríkisins meðlagsgreiðslur vegna skilgetinna barna einnig þegar ljóst er skv. framvísun erlends skilnaðarleyfis eða skilnaðardóms að það foreldri sem ekki hefur forsjá barns hefur ekki verið dæmt meðlagsskylt, t. d. vegna fjárhagsörðugleika.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, til að hafa fleiri orð dm þetta frv. og vísa að öðru leyti til grg. með því. Ég vil þó nefna að kostnaður sá sem leiðir af samþykkt þessa frv. er mjög óverulegur þar sem skv. upplýsingum bæði Tryggingastofnunar og dómsmrn. er um mjög fá slík mál að ræða. Voru þau aðeins þrjú á s. l. ári. Ljóst er þó að samþykkt frv. skiptir verulegu máli fyrir framfærslu þeirra fáu aðila sem þarna eiga hlut að máli.

Ég vænti þess, herra forseti, að hv. allshn., sem ég legg til að málið fái til meðferðar, sjái sér fært að afgreiða þetta frv. aftur til deildar þó stutt sé til þingloka, enda málið þess eðlis að það ætti ekki að þurfa það langa umfjöllun í hv. allshn.