30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

90. mál, Seðlabanki Íslands

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Suðurl. fór til Afríku. Hann lýsti gatnagerð í Addis Ababa. Í blaðafréttum nýlega var frá því skýrt að í því landi, Eþíópíu, þar sem ríkir alvarleg hungursneyð og alþjóðlegar hjálparstofnanir m.a. hér á landi hafa reynt að koma matvælum til skila til íbúanna, hefði ríkisstjórn Mengistu, hins mikla mannúðarvinar og marxista í Eþíópíu, keypt whisky handa ráðuneytisstjórum og seðlabankastjórum þar í landi fyrir 30 millj. og þótti hneyksli í The Times of London.

Ég minnist þess frá námsárum mínum að þegar rætt var um aðstoð við vanþróaðar þjóðir í Afríku, þá var vitnað í hverja lýðfrelsishetjuna á fætur annarri, þá orðna að einræðisherrum, þar á meðal N’Krumah í Ghana, sem nýttu þá efnahagsaðstoð sem barst til þessara snauðu þjóða aðallega til að reisa sjálfum sér minnismerki. Höll Seðlabankans við Kalkofnsveg eða Arnarhól er minnismerki í afrískum stíl yfir óstjórn og siðleysi, sem viðgengist hefur a.m.k. á vitlausa áratugnum á Íslandi, hún er minnismerki um það.

Þegar spurt er hér hápólitískra spurninga og t.d. beint til hæstv. fjmrh.: Hvar eru peningarnir í þjóðfélaginu til þess að greiða fólki mannsæmandi laun? Þá á hann engin svör. En það er til marks um flottræfilshátt þessa þjóðfélags að á sama tíma og við byggjum í afrískum stíl minnismerki yfir okkar eigin óstjórn, þá eru ekki til peningar til að borga þeim konum laun sem munu skúra musterið þegar þar að kemur.