02.05.1985
Sameinað þing: 78. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4680 í B-deild Alþingistíðinda. (3969)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil gera svofellda grein fyrir atkv. mínu:

Hér er um hernaðarmannvirki að ræða og auk þess um nýbyggingu og útvíkkun hernaðarmannvirkja að tefla, en ekki viðhald eða endurnýjun þeirra hernaðarmannvirkja sem fyrir eru í landinu. Flest bendir til að með uppbyggingu þessa fyrirhugaða ratsjárkerfis sé verið að smíða hlekk í keðju umfangsmikilla hernaðarmannvirkja sem ætlað er að festa Ísland í sessi sem herstöð um ófyrirsjáanlega framtíð.

Í öðru lagi er ég andvígur því að ganga gegn vilja heimafólks á Vestfjörðum og á Norðausturlandi sem margt hefur lýst mikilli andstöðu og áhyggjum út af því að gera heimabyggðir þess að herstöð. Í þeim hópi eru ekki aðeins flokkssystkini mín heldur fólk úr öllum stjórnmálaflokkum. Ég vil taka undir raddir þessa fólks með atkv. mínu.

Þótt þáltill. þessi sé um sumt gölluð að orðalagi og ég hefði kosið aðra málsmeðferð vil ég taka af öll tvímæli um afstöðu mína til kjarna þessa máls, þ. e. uppbyggingar nýrra ratsjárstöðva. Henni er ég andvígur. Því til áréttingar segi ég já.