02.05.1985
Sameinað þing: 78. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4692 í B-deild Alþingistíðinda. (3977)

Skýrsla um utanríkismál

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir til umr. allviðamikil skýrsla hæstv. utanrrh. um utanríkismál sem nú er orðið hefðbundið að lögð sé fyrir þingið. Ég sé ástæðu til að þakka fyrir þetta framlag hæstv. ráðh. og að það kemur nú fyrir þingið fyrr en var á síðasta ári þegar umr. um skýrslu ráðh. fór fram á allra síðustu dögum þings. Þannig hefur okkur alþm. gefist betri kostur en ella til þess að fara yfir þessi mál og Alþingi ætti að geta rætt þau efni varðandi utanríkismál sem hv. þm. þykir ástæða til við betri aðstæður en áður.

Með þessari skýrslu liggur einnig fyrir yfirlit frá fastanefnd Íslands hjá sameinuðu þjóðunum í New York, allviðamikið gagn sem fengur er að og varpar ljósi á þau fjölmörgu mál sem þar eru til meðferðar og Ísland tekur afstöðu til hverju sinni.

Það hefur verið mikið rætt um utanríkismál á þessu þingi eins og raunar hinu síðasta í tengslum við margar till. sem fram hafa komið hér varðandi utanríkismálin. Þær till. hafa verið til meðferðar í hv. utanrmn. og eru sumar þegar á lokastigi og komnar fyrir þingið. Þar er um að ræða till. varðandi afvopnunarmál sem nú er leitast við að ná samstöðu um meðal fulltrúa í utanrmn., till. um málefni erlendra sendiráða og hér hafa komið fyrir þingið fjölmargar fsp. sem tengdar eru hernaðaruppbyggingu hérlendis og gefið hafa tilefni til mikilla umræðna hér á þinginu. Síðast en ekki síst er að minnast till. þeirrar varðandi hernaðarratsjárstöðvar sem hér hefur verið rædd og umr. nú fer fram í skugga atkvæðagreiðslu varðandi þennan nýjasta þátt í útfærslu hernaðarumsvifa hérlendis. Ég mun víkja lítillega að því síðar í máli mínu.

Hér ætla ég einkum að takmarka mig við örfáa þætti af þeim mörgu sem skýrsla þessi gefur tilefni til að ræddir séu. Ég mun ræða nokkuð þá sýn til alþjóðamála sem er að finna í skýrslunni og í tengslum við þau hin svokölluðu varnar- og öryggismál Íslands sem gerð eru nokkur skil í þessari skýrslu. Þá mun ég víkja að þróunarsamvinnu og hlut Íslands í norður-suður samstarfi og framlagi okkar til þróunarmála. Samstarf okkar á alþjóðavettvangi innan Sameinuðu þjóðanna og Norðurlanda gefur einnig tilefni til ábendinga og nokkur atriði vildi ég nefna sem snerta utanríkisviðskipti og starfsemi þeim tengd.

Ég vil þó ekki sleppa því hér að minnast á það efni sem hæstv. ráðh. kom að í máli sínu hér áðan og var fyrr á dagskrá þessa fundar þar sem er þáltill. um staðfestingu Hafréttarsáttmálans. Þar er að finna mikla uppskeru af löngu starfi sem ánægjulegt er að nú skuli vera komin hér fyrir Alþingi til staðfestingar. Ég efast ekkert um að um þetta mál mun takast á lokastigi full samstaða hér í þinginu. Málsmeðferð varðandi hafréttarmálefni og landhelgismál Íslendinga er dæmigerð um það hvernig lítil þjóð eins og okkar getur með einbeitni og samheldni náð árangri á mikilvægu sviði lífshagsmuna sinna. Íslendingar hafa átt drjúgan þátt í því að móta alþjóðarétt á sviði hafréttarmála. Eftir að menn brutust út úr sjálfheldunni 1971 í þessum málum og tóku ákveðin skref, sem vissulega fylgdi áhætta fyrir litla þjóð, hefur miklu þokað áfram í þessum efnum. Við erum nú að fjalla um síðustu þættina í bráð sem snerta mörk íslensks yfirráðasvæðis í tengslum og utan við okkar 200 mílna auðlindalögsögu.

Utanrmn. hefur á yfirstandandi þingtímabili fjallað mikið um mál er þessu tengjast, réttindi Íslands á Reykjaneshrygg sem ótvíræð teljast og við hljótum að helga okkur í ljósi þess réttar sem hafréttarsáttmálinn gefur okkur og síðan Hatton-Rockallsvæðið, það stóra svæði sem tengist Íslandi til suðurs. Um það hefur verið fjallað á undanförnum árum af hálfu utanrmn. í framhaldi af sérstakri þál. um þetta mál, að mig minnir í mars 1983. Þar hefur núverandi formaður utanrmn. Eyjólfur Konráð Jónsson haft frumkvæði sem ber að þakka fyrir. Hann hefur staðið þar mjög fast í ístaðinu varðandi íslenska hagsmuni og hvergi dregið af sér og hann hefur fengið þann stuðning sem eðlilegt er í þessu máli. Ég tel að við þurfum nú, þegar á reynir og ekki eru horfur á samkomulagi um sinn við granna okkar varðandi þetta mál, að standa þétt saman um íslenskan rétt eins og við setjum mál okkar fram og teljum okkur hafa rök fyrir.

Hæstv. utanrrh. nefndi það hér í ræðu sinni hver væru fyrirhuguð næstu skref í ljósi þess að ekki hefur tekist samstaða með þeim þjóðum öðrum sem gera tilkall til þessa svæðis. Alþb. mun, eins og oft hefur komið fram í þessu máli, standa fast að þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið og nú er í undirbúningi að út verði gefin í formi yfirlýsingar eða reglugerðar af Íslands hálfu.

Vissulega er ekki um að ræða neinn lokapunkt hér í sambandi við okkar hafréttarmálefni, hvað þá það að tryggja nýtingarrétt okkar á þeim svæðum sem við gerum tilkall til. Ég minni í þessu sambandi á þátt eins og þann að lögfesta þarf eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins á þeim svæðum sem við gerum tilkall til og teljum innan okkar yfirráðamarka. Þar þarf að skera úr allri réttaróvissu og við þurfum að efla rannsóknir á þessum víðlendu svæðum, þessu útfærða Íslandi sem við höfum komist yfir og átt þátt í að helga okkur á undanförnum 15 árum. Það skiptir mjög miklu að við stöndum skipulega að rannsóknum þessara svæða og tryggjum eðlilega hagnýtingu þeirra ásamt eðlilegum verndarsjónarmiðum.

Í framhaldi af þessum þætti varðandi hafréttarmálin vil ég víkja hér að alþjóðamálum og því sem snertir vígbúnaðarkapphlaupið. En það er upphaf þessarar skýrslu hæstv. utanrrh. að draga fram þá sýn sem hann hefur til þessara mála. Á bls. 1 í skýrslunni er að finna svofellda staðhæfingu, með leyfi forseta:

„Ekkert bendir til að friði sé hættara í okkar heimshluta en verið hefur eða að meiri hætta sé á heimsófriði. Þetta er árangur þeirrar árvekni sem unnendur frelsis og lýðræðis hafa sýnt.“

Þessi orð, sem hér er að finna, tel ég alltáknræn fyrir umfjöllun sem er að finna í þessari skýrslu um alþjóðamál. Þar er að finna mikið af barnalegum staðhæfingum að mínu mati og einsýnni túlkun varðandi þróun mála. Þetta á bæði við umfjöllun um hlut risaveldanna hvors um sig og gagnkvæmt í þróun alþjóðamála og einnig hið falska öryggi í skugga sívaxandi vígbúnaðar og gereyðingarvopna. Maður hlýtur að spyrja: Hvaða utanrrh. á Vesturlöndum annar en Geir Hallgrímsson gæti dregið upp þá mynd af þróun alþjóðamála sem birtist í þessari skýrslu?

Ég efast um að jafnvel Bandaríkjastjórn leyfði sér að draga upp þá svart-hvítu heimsmynd sem við blasir í alþjóðakafla þessarar skýrslu. Hér er myndin dregin upp þannig að Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið eru sýnd sem hin hvíti engill, talin ímynd hins góða lýðræðis, frelsis og sáttfýsi í afvopnunarmálum. Hins vegar eru Sovétríkin og Varsjárbandalagið sem hinn svarti djöfull í hverri grein og sá aðili sem sé ábyrgur fyrir vígbúnaðarkapphlaupinu á liðnum árum og sem lokað hafi á alla samninga. Þannig tel ég að málin séu ekki í reynd. Það þarf ekki annað en að vísa til þeirra miklu umræðna sem farið hefur fram innan ríkja Atlantshafsbandalagsins og þeirra hörðu deilna sem þar hafa verið uppi varðandi stefnu núverandi forseta Bandaríkjanna og Bandaríkjastjórnar á umliðnum árum til að ljóst sé hversu rangar þessar áherslur eru og hversu fáránlegt það er að bera á borð mynd eins og þá sem hér er dregin upp varðandi þróun heimsmála og stigmögnun vígbúnaðarkapphlaupsins á undanförnum árum.

Ég er ekki með þessum orðum að leggja mat á þau gildi sem mjög er rætt um varðandi annars vegar austrið og hins vegar vestrið sem svo eru kölluð í hinum alþjóðlegu umræðum. Ég er ekki að leggja að jöfnu gildi eins og borgaralegt lýðræði í sinni skástu mynd og sovéskt alræði. Ég er ekki að leggja að jöfnu þingræði á móti flokkseinræði eins og við þekkjum það í fjölmörgum löndum heimsins og raunar miklum meiri hluta, þ. á m. í Austur-Evrópu. Um þau efni mætti margt segja og auðvitað eiga menn að leggja mikið á sig til verndar lýðræði og mannréttindum hver í sínum garði og í alþjóðlegu samstarfi. Á það vil ég leggja ríka áherslu.

Við, sem byggjum Norðurlönd, búum að mínu mati við lýðræði í sínu skásta formi sem það er að finna á heimsbyggðinni, einnig þegar litið er til félagslegs öryggis og jöfnunar efnislegra gæða. En þó eru þessi gildi á undanhaldi innan Norðurlanda í heild og ekki síst hér á Íslandi undir veldissprota þeirra hv. ráðh. Steingríms Hermannssonar og Geirs Hallgrímssonar. Myndin er því ekki skjannahvít hér hjá okkur fremur en þegar litið er til annarra heimshluta.

Þegar við lítum til risaveldanna hvors um sig og framferðis þeirra á eigin áhrifasvæðum, ekki síst gagnvart löndum þriðja heimsins og þeim sem minnst mega sín, þá getur verið erfitt að greina á milli, hlutur hvors þeirra er herfilegri. Það er raunar breytilegt frá ári til árs hvor stórveldarisinn fótum treður meira alþjóðalög, svo ekki sé minnst á frelsi, sjálfsákvörðunarrétt þjóða og hvað þá glansmynd lýðræðisins eins og hún gjarnan er túlkuð. Dæmin blasa hvarvetna við, blóðferill Sovétríkjanna í Afganistan á undanförnum árum sem ekkert lát er á og purkunarlaust ofbeldi Bandaríkjastjórnar gagnvart ríkjum Mið-Ameríku. Innrásin í Grenada er okkur enn í fersku minni, stuðningur við morðsveitir í El Salvador, kverkatökin sem reynt var að beita Nicaragua í fyrra með hafnbanni og tundurduflalagningum við strendur landsins og nú í gær með tilkynningu um algert viðskipta- og samgöngubann af hálfu Bandaríkjanna.

Um þetta er farið nokkrum orðum í þessari skýrslu. En það er athyglisvert að lesa þá kafla og hvernig þar er tekið til orða á bls. 19 og 20 í þessari skýrslu. Við munum eftir því hvernig hæstv. utanrrh. hagaði máli sínu þegar Bandaríkjastjórn réðist inn í Grenada og braut þar alþjóðalög. Seiminn af því hiki og málflutningi ráðh. er að finna í orðum skýrslunnar þar sem segir: „Engu að síður var talið að um alvarlegt brot á alþjóðalögum og skerðingu á sjálfstæði Grenada væri að ræða.“

Þegar fjallað er um málefni Nicaragua er ekki að finna mikið af ákveðnum skoðunum hæstv. ráðh. Þar segir m. a. efst á bls. 20, með leyfi forseta:

„Varanleg lausn finnst ekki nema að hún sé reist á grundvallarreglum lýðræðis og mannréttinda og réttlátari skiptingu tekna og eigna. Þetta er megininntakið í tillögum Contadora. Bandaríkin höfðu lýst yfir stuðningi við þessar tillögur í meginatriðum og það hafði Kissinger-nefndin einnig gert með þeim fyrirvara að tímabundin aðstoð við El Salvador og Honduras kynni að reynast nauðsynleg meðan uppreisnaröflin nytu hernaðaraðstoðar og vopnasendinga utan að. Nokkrir viðræðufundir hafa átt sér stað milli fulltrúa Bandaríkjanna og Nicaragua um framkvæmd og túlkun Contadora-samkomulagsins, en um það stendur enn djúpstæður ágreiningur að því er virðist.“ Punktur. Skoðanir engar að öðru leyti. Í tilefni af þeim yfirlýsingum, sem gefnar voru út á þeim degi sem forseti Bandaríkjanna hélt til fundar í Vestur-Þýskalandi í gær, um málefni Nicaragua sé ég ástæðu til að spyrja hæstv. utanrrh.: Hvert er viðhorf hans til þeirra yfirlýsinga sem Bandaríkjastjórn gaf í gær um viðskiptabann gagnvart Nicaragua? Hvert er viðhorf hans til stefnu Bandaríkjastjórnar gagnvart löndum Mið-Ameríku? Þau viðhorf koma ekki fram á marktækan hátt þannig að hægt sé að fóta sig á þeim á síðum þessarar skýrslu og þess vegna er spurt.

En það er ekki síst í samskiptum sínum við þriðja heiminn sem risaveldin gangast undir próf, eins og Bandaríkin gagnvart Mið-Ameríku, og úr því fæst skorið t. d. hversu langt virðing stórveldanna, Bandaríkjanna í þessu tilviki, nær fyrir þeim gildum um lýðræði og frelsi sem mest er hampað í skálaræðum og áróðri í klúbbi hinna ríku.

Þegar kemur til mannréttinda er raunar svipað uppi á teningnum. Það er víða að finna Sacharov sem haldið er í stofufangelsi stjórnvalda og við þurfum helst að líta til þeirra allra. Pyndingar, sálrænar og líkamlegar, eru hlutskipti tugþúsunda ef ekki milljóna í svartholum sem finna má í öllum heimshlutum, e. t. v. utan Vestur-Evrópu, að við skulum vona. Við hljótum að beita okkur gegn slíkum aðgerðum hvar sem þær birtast og taka undir kröfuna um það að Helsinki-samkomulagið, um þróun mannréttinda og aðgerðir til að tryggja þau, verði haldið. Þeirri mynd, sem að þessu lýtur, er ekki haldið til haga sem skyldi í skýrslu utanrrh. Þar eru drættirnir nær einvörðungu svart-hvítir þannig að leitun er á viðlíka einsýni.

Þessi ágalli skýrslunnar eykur ekki traust á henni þegar kemur nær heimavettvangi og fjallað er um varnar- og öryggismál Íslands sem svo eru kölluð og ég mun víkja hér nánar að. Hvað snertir þann þátt skýrslu hæstv. utanrrh. þá vitnar hún um það að í tíð núverandi ríkisstj. hefur verið hleypt hér af stað stórfelldari aukningu hernaðarframkvæmda en nokkru sinni fyrr síðan Bandaríkjaher kom hingað fyrir 34 árum. Dæmin eru velþekkt og læt ég nægja aðeins að stikla á þeim helstu:

Framkvæmdir í Helguvík með höfn og birgðageymslum sem auka olíubirgðarými við Keflavíkurflugvöll skv. skýrslunni um 66% þegar fullbyggt er.

Í öðru lagi bygging flugstöðvar fyrir bandarískt fé að meiri hluta, bygging sem keyrð er áfram með háum fjárveitingum og erlendum lántökum á sama tíma og framkvæmdir við innlenda flugvelli og framkvæmdir þeim tengdar eru skornar við nögl meira en nokkru sinni fyrr.

Í þriðja lagi bygging öflugra flugskýla fyrir orrustuþotur Bandaríkjahers og boðuð viðbót fjögurra flugskýla til viðbótar við þau níu sem fullbúin verða á þessu ári.

Í fjórða lagi undirbúningurinn að nýjum hernaðarratsjárstöðvum og endurnýjun eldri stöðva sem hér hefur verið fjallað um og atkvæði féllu um hér á Alþingi í dag. Ég vil að gefnu tilefni inna hæstv. utanrrh. eftir því, vegna þess að það liggur ekki skýrt fyrir, hvort með endurnýjun ratsjárstöðvar á Stokksnesi verði um að ræða að engir bandarískir hermenn, engir útlendingar, verði þar í herstöðinni að endurnýjun lokinni. Fullyrðingar féllu um þetta í umr. um ratsjárstöðvar fyrir fáum dögum á Alþingi og hæstv. ráðh. tók undir þá skoðun eins hv. þm. að endurnýjun þessarar stöðvar á Stokksnesi boðaði það að þar yrðu engir erlendir aðilar við starfrækslu að því loknu. Úr skýrslu ratsjárstöðvanefndar má hins vegar lesa annað. Ég tel nauðsynlegt að þetta liggi hér skýrt fyrir og spyr því hæstv. ráðh.: Hvert er viðhorfið í þessu efni? Með hverju er reiknað í sambandi við þær áætlanir sem fyrir liggja að þessu leyti? Er fyrri staðhæfing ráðh. um þetta efni rétt?

Í fimmta lagi nefni ég byggingu öflugrar stjórnstöðvar fyrir Bandaríkjaher á Keflavíkurflugvelli sem ráðgerð er, talað um sem „styrkta stjórnstöð“ í skýrslunni, „gluggalausa“, útbúna „sérstökum hreinsiútbúnaði vegna hugsanlegrar mengunar frá efnavopnum og á þannig að geta hýst starfsmenn þess í allt að eina viku“, eins og segir orðrétt í skýrslu utanrrh. „Slíkt er í samræmi við NATO-staðla“, stendur þar. „Áform eru fyrir hendi.“ „Væntanlega yrði hafist handa um byggingu stöðvarinnar á næsta ári.“ Punktur.

Eitt vil ég nefna hér til viðbótar þar sem er endurnýjun á orrustuflugvélaflota herliðsins í Keflavík. Boðað er að til Keflavíkurflugvallar muni koma 18 orrustuflugvélar af gerðinni F-15 sem eiga að leysa þær 12 Phantom-orrustuvélar af hólmi sem þar eru nú.

Þrátt fyrir þessar gífurlegu framkvæmdir og endurnýjun herbúnaðar hérlendis reynir utanrrh. að halda því fram að eðli herstöðvarinnar sé óbreytt nú í dag og á næstu árum, nánast hið sama og var fyrir 34 árum þegar Bandaríkjaher steig hér á land öðru sinni. Hér sé aðeins á ferðinni meinlaus eftirlitsstöð sem engum ógni. Á þessu er þrástagast í þessari skýrslu utanrrh. síðu eftir síðu. Á bls. 26 segir um þetta, með leyfi forseta.

„Lega Íslands frá hernaðarlegu sjónarmiði ræður örlögum þess, ekki síður í dag en á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Á þeirri forsendu verður mótun og framkvæmd íslenskrar varnarstefnu að byggjast. Það er og hefur verið stefna okkar í varnarmálum að öll starfsemi varnarliðsins miðist við varnir og eftirlit, enda er það í samræmi við varnarsamninginn og stefnu Atlantshafsbandalagsins. Sú aðstaða, sem Bandaríkjunum fyrir hönd Atlantshafsbandalagsins hefur verið sköpuð hérlendis, miðast við þetta hlutverk.“

Og á næstu síðu segir einnig: „Varnarliðið er hér til varnar landinu og svæðunum umhverfis það í samræmi við óskir okkar sjálfra. Eftirlitsstarfið, sem varnarliðið innir af hendi, er grundvallarforsenda þess að ávallt verði hægt að greina aukningu á herstyrk Sovétríkjanna í námunda við Ísland þannig að Atlantshafsbandalagið geti brugðist við með viðeigandi hætti. Eðli varnarstöðvarinnar hefur ekki breyst þrátt fyrir umfangsmikla endurnýjun og endurbætur er hófust snemma á þessum áratug. Endurbætur þessar eru nauðsynlegar eigi varnarstöðin að geta sinnt varnar- og eftirlitshlutverki sínu, en það grundvallast annars vegar á loftvörnum og hins vegar á kafbáta- og skipaeftirliti.“

Að þessu er síðan enn vikið með svipuðum hætti á bls. 31 þar sem verið er að andmæla staðhæfingum um það gagnstæða. Þar segir:

„Fullyrt hefur verið að með aukningu birgðarýmis í Helguvík væri ætlunin að breyta eðli varnarstöðvarinnar og skapa m. a. aðstöðu fyrir langdrægar sprengjuflugvélar bandarískra flughersins. Þetta er rangt, enda mundu íslensk stjórnvöld ekki samþykkja slíka breytingu á eðli varnarstöðvarinnar.“

Þessi síðustu orð eru athyglisverð. Mikil er vitneskja hæstv. utanrrh. um þann vígbúnað sem á sér stað hér á svæðinu í nágrenni Íslands, sem gerir honum kleift að fullyrða það sem hér kemur fram. Ég vil í þessu sambandi rifja það aðeins upp að þegar skýrsla utanrrh. var til umr. hér í fyrra, 17. maí að ég hygg, var hæstv. ráðh. inntur eftir því hvort hann kannaðist við áætlun frá yfirstjórn herafla Bandaríkjanna frá 1981 um endurmat á hernaðaruppbyggingunni á Íslandi, en fregnir þar að lútandi höfðu komið fram í bandarískum blöðum. Þessi spurning var lögð fyrir hæstv. ráðh. og svar hans er að finna í þingtíðindum frá 17. maí. Ég leyfi mér að vitna, með leyfi forseta, í örstuttan kafla. Hæstv. ráðh. sagði:

„Ég hef ekki séð þessa áætlun og hef ekki heyrt hennar sérstaklega getið. Það er svo að til eru ýmsar áætlanir og hugleiðingar, bæði frá opinberum aðilum og einkaaðilum, varðandi mögulegar aðgerðir ef í odda skærist milli þjóða hér á norðanverðu Atlantshafi. En fæst af þessu eru ábyrgar áætlanir, staðfestar eða samþykktar, og því ber ekki að taka þær hátíðlega út af fyrir sig.“

Þetta sagði ráðh. Síðan gerist það hér fyrir fáum vikum, í febrúarmánuði að ég hygg, að okkur berst í hendur sérstök grg. frá öryggismálanefnd, frá Gunnari Gunnarssyni starfsmanni nefndarinnar, um Keflavíkurstöðina. Það þarf ekki að fara lengra en í innganginn til að sjá að það, sem ráðh. vildi eyða í fyrra og kannaðist ekkert við, lá fyrir í gögnum Bandaríkjaþings þegar á árinu 1983. Ég sé ástæðu til að vekja athygli á því sem stendur í inngangi þessarar skýrslu frá öryggismálanefnd, með leyfi forseta:

„Í júlí og nóvember 1981 framkvæmdi bandaríska herforingjaráðið endurskoðun þar sem fram kom að nauðsyn væri á breytingum á útbúnaði Keflavíkurstöðvarinnar til að efla styrk hennar til loftvarna Íslands og varna sjóleiðinni yfir N.-Atlantshaf. Þó frumkvæði komi frá Bandaríkjamönnum er hér um að ræða sameiginlegar áætlanir þeirra og Atlantshafsbandalagsins.“

Hvar stöndum við með utanrrh., sem að mati framsóknarmanna, sumra hverra a. m. k., á að hafa alræðisvald í málum er varða svokallaðan varnarsamning við Bandaríkin, þegar hann veit ekki um áætlanir af þessu tagi eða greinir Alþingi a. m. k. svo frá að honum séu þær ekki kunnar? Sami ráðh. telur sig hafa efni á því að fullyrða það síðu eftir síðu að eðli herstöðvanna hérna sé óbreytt og hið sama frá því sem var fyrir áratugum síðan þrátt fyrir þá stigmögnun framkvæmda sem hann hefur staðið hér fyrir í sinni bráðum tveggja ára valdatíð sem utanrrh.

En það er fleira, sem hefur gerst hliðstætt, sem hlýtur að vekja ugg og óhug allra þeirra sem fylgjast með málefnum sem snerta öryggi Íslands. Við getum aðeins rifjað það upp hvernig mál lágu og hvernig umræðan þróaðist hér í byrjun desember eftir að fregnir bárust um það — frá erlendum aðilum en ekki frá hæstv. utanrrh. — að fyrir hefðu legið um langt árabil áætlanir bandarískra hernaðaryfirvalda um að flytja kjarnorkuvopn til Íslands á neyðar- og stríðstímum, 48 kjarnorkudjúpsprengjur. Gögn, sem þetta varðaði, voru afhent hæstv. utanrrh. og forsrh. og þeir hrukku heldur betur við. Við fengum að sjá þau í utanrmn. í ljósriti og menn töldu og telja almennt, sem hafa litið á þetta, að ekki sé ástæða til annars en að taka þessi gögn alvarlega. A. m. k. var ég þeirrar skoðunar eftir að hafa fengið að líta þau í utanrmn.

Hæstv. utanrrh. brá við skjótt og sendi fsp. vestur um haf til Bandaríkjastjórnar um það hverju þetta sætti og taldi að ef rétt reyndist væri hér um mjög alvarleg brot að ræða á yfirlýsingum og á gerðum samningum, hann liti þetta mjög alvarlegum augum. En hvert var svarið sem hæstv. ráðh. fékk frá Bandaríkjastjórn? Það er mönnum í fersku minni. Efnislega var það þannig: Góður utanrrh. Um svona hluti spyr maður ekki í NATO-samstarfi. Um svona hluti spyr maður ekki. Orðrétt úr svari bandaríska sendiráðsins, með leyfi forseta-svarið er að finna í fréttatilkynningu utanrrn. frá 19. des. 1984:

„Eins og mér er ljóst að yður er kunnugt hefur það um langt árabil verið fastmótuð stefna Atlantshafsbandalagsins og Bandaríkjanna að játa hvorki né neita heimildargildi skjala sem sögð eru trúnaðarskjöl Bandaríkjanna eða bandalagsins.“

Efnislega: Um svona hluti spyr maður ekki. Þetta er einhver mesta niðurlæging sem íslenskur ráðherra hefur orðið fyrir og það í einhverju alvarlegasta máli sem hér hefur borið að í sambandi við öryggismál Íslendinga. Ég skil það vel að hæstv. ráðh. sé ekki rótt. Ég hef ástæðu til að ætla að tilburðir hans til að afla eitthvað haldbetri upplýsinga og reyna að grafast fyrir um áætlanir NATO, sem sjá má af ákvörðunum sem hann hefur tekið varðandi endurskipulagningu í sínu rn. og hugmyndir um að kveðja til sérstaka fagmenn á sviði hernaðarmála og hertækni, sem sjá má vangaveltur um í skýrslu hans, séu tilkomnar ekki síst vegna þess að svokallaðir bandamenn hafa ekki séð ástæðu til að upplýsa ráðh. um nýjar áætlanir og fyrirætlanir sem brjóta greinilega í bága við samninga og yfirlýsingar varðandi öryggismál Íslendinga.

Hæstv. forsrh. ræddi þessi mál af tilefni upplýsinganna um þær fyrirætlanir að flytja á neyðar- og stríðstímum kjarnorkuvopn til Íslands. Hann ræddi þessi mál raunar líka hér í fyrra í umr. um utanríkismál. Ég tel ástæðu til að rifja hér upp örfá orð eftir hæstv. forsrh.:

„Ég vil leggja á það ríka áherslu,“ sagði ráðh., „að sú utanríkisstefna, sem nú er fylgt, er sú sem fyrrv. hæstv. utanrrh. Ólafur Jóhannesson framkvæmdi. Það eru engar óskir frá varnarliðinu á borði ríkisstj. um aukið umfang.“

Og síðar í sömu ræðu: „Ég vísa því á bug að um aukin umsvif varnarliðsins sé að ræða.“

Þetta eru yfirlýsingar frá hæstv. forsrh. 17. maí s. l. Hann vék líka að flugstöðinni og fagnaði mjög þeirri byggingu en fékk þann bakþanka að „það má vitanlega deila um byggingu flugstöðvarinnar, hún er kannske of stór“. En hann hafði ekki einu sinni þann bakþanka í sambandi við umsvif herliðsins hérlendis og taldi að þar væri ekki um neitt aukið umfang að ræða.

Framsfl. er sannarlega ekki fisjað saman og það er kannske ekki tilviljun að enginn þm. flokksins er viðstaddur þessa umr., enginn sjáanlegur í þingsal. Framsfl. á auðvelt með að hafa allar skoðanir uppi í sambandi við öryggis- og varnarmál Íslendinga. Það kom ljóst fram í atkvæðagreiðslu um nýjar hernaðarratsjárstöðvar hér áðan. Það var ekki mögulegt að skipta flokknum upp í fleiri parta varðandi skoðanir í því afdrifaríka máli. Einn þm. flokksins túlkaði það svo að það væri alveg hneisa að vera að bera það undir Alþingi Íslendinga hvaða skref ætti að stíga undir hatti hins svokallaða varnarsamnings við Bandaríki Norður-Ameríku. Á slíku ætti Alþingi enga skoðun að hafa. Þetta ætti að vera einvörðungu í höndum utanrrh. á hverjum tíma, væntanlega þar á meðal hvort Bandaríkjamönnum þóknist að flytja gereyðingarvopn til Íslands sem og annað sem snertir framkvæmd samningsins.

Það er raunar langt síðan Framsfl. hóf æfingar í sambandi við öryggis- og varnarmál Íslands sem hafa gert hann mjög fiman í sínum vendingum. Við minnumst þess hvernig flokkinn munaði ekki um það á árinu 1974 að ætla einum og sama manni, utanrrh. landsins í ríkisstjórninni 1971–1974, sem hafði tekið að sér það verkefni að koma hernum úr landi skv. stjórnarsamningi, að axla þveröfuga stefnu í nýrri ríkisstjórn sem mynduð var sumarið 1974 og sat til 1978 og festi herinn hér mjög í sessi og stóð fyrir aðgerðum sem breyttu raunar þá þegar eðli herstöðvarinnar í Keflavík frá því sem áður hafði verið. Það er sannarlega áhyggjuefni þegar flokkur, sem trekk í trekk veitir forustu í ríkisstjórnum á Íslandi, stendur þannig að málum eins og Framsfl. Það getur ekki verið að ég sé einn um að hafa áhyggjur af því. Ég hygg að fylgismenn flokksins til þessa hljóti að hafa af því vaxandi áhyggjur því raunar hefur það aldrei komið fram með jafnskýrum hætti og í dag hversu vítt er til veggja í mati forustu Framsfl. í sambandi við íslensk öryggismál.

En ég var að ræða um yfirlýsingar hæstv. utanrrh. í sambandi við mikilvæga þætti. Við hljótum að spyrja: Hvers virði eru yfirlýsingar ráðh. þegar við blasir hvernig hann hefur verið sniðgenginn af yfirboðurum Atlantshafsbandalagsins í Washington eins og ég hef hér rakið? Og við hljótum að spyrja: Hvaðan kemur ráðh. vit og vitneskja til að staðhæfa að eðli herstöðvanna hérlendis sé hið sama nú og öll þau 34 ár sem liðin eru síðan Bandaríkjaher sté hér á land? Það er gjarnan vísað til þess, af hæstv. ráðh. og þeim sem tala í sama dúr og hann, að hægt sé að greina á milli sóknar- og varnarhlutverks í stríðsátökum og í hernaðaráætlun. Þetta kann að hafa átt við einhver rök að styðjast fyrir mörgum árum, en menn þurfa ekki að hlusta lengi eða lesa sér mikið til í herfræðilegum ritum nútímans til að fá um það fullvissu, upplýsingar sem bornar eru fram af aðilum jafnt í austri sem vestri, að ekki er lengur gerlegt í reynd að greina á milli sóknaráforma og varnarviðbragða í sambandi við hernaðaráætlanir. Það er vonlítið að greina á milli og mörkin þarna á milli hafa orðið æ óljósari með hverju ári sem liðið hefur.

En í sambandi við þessi efni, þá er það sjónarmið út af fyrir sig að miklu geti verið fórnandi fyrir öflugan granna og þau gildi sem ég var að minnast hér á fyrr í ræðu minni. En við hljótum að spyrja um það, ef litið er til hinna vaxandi umsvifa Bandaríkjahers hérlendis: Hver er viðbúnaðurinn til verndar fólki, hinum almenna manni hérlendis, til verndar fólki á Suðurnesjum, til verndar fólki á höfuðborgarsvæðinu, ef til átaka kemur eða styrjaldarátök eru yfirvofandi sem flest bendir til að geti orðið í formi kjarnorkuátaka? Ég held að öllum sem skoða þennan þátt verði það ljóst að Bandaríkjaher er ekki hérlendis vegna Íslendinga sérstaklega, heldur vegna eigin hagsmuna og ímyndaðra eða raunverulegra hagsmuna Atlantshafsbandalagsins í heild, ef til styrjaldarátaka kemur. Þetta verður þeim sem á kost á að heimsækja Keflavíkurflugvöll skoða þar hernaðarmannvirki og leggja spurningar fyrir þá aðila sem þar ráða ríkjum, enn þá ljósara. Ég ásamt öðrum fulltrúum í utanrmn. átti kost á því að fara í slíka heimsókn fyrir nokkrum vikum.

Íslenskur almenningur er þarna raunverulega ekki á blaði að öðru leyti en því sem menn hafa trú á því að gagnkvæmur vígbúnaður, fælingarkenningin svonefnda, komi í veg fyrir að styrjöld brjótist út og að tilvist Bandaríkjahers skipti sköpum í því samhengi.

Þá vil ég benda á að í þessari skýrslu og raunar í umr. hér á þinginu að undanförnu hefur komið fram að fyrirhugað er og eru þegar stigin skref í þá átt af hæstv. utanrrh. að tengja hernaðarumsvif Bandaríkjahers hérlendis við íslenskar stofnanir. Þetta hefur komið fram berlega í sambandi við undirbúning að hernaðarratsjárstöðvunum hérlendis, þar sem Póstur og sími og flugmálastjórn eða aðilar á þeirra vegum hafa verið dregin inn í áætlanir og undirbúning. Þetta kemur fram í sambandi við Landhelgisgæsluna alveg sérstaklega. Ég vil vísa til þess, sem fram kemur að þessu leyti í skýrslunni þar sem er mjög athyglisverður kafli varðandi Landhelgisgæsluna og þann hlut sem hæstv. ráðh. ætlar henni eða er að velja fyrir sér að hengja á Landhelgisgæsluna. Um það segir, með leyfi forseta, á bls. 31:

„Það er mat hermálasérfræðinga Atlantshafsbandalagsins, að það ástand gæti skapast á átakatímum og jafnvel fyrir átök, að tundurduflatálmunum yrði komið fyrir undan ströndum landsins og jafnvel inni á flóum og fjörðum. Enda þótt liðsauki frá Atlantshafsbandalaginu yrði sendur til Íslands til að fjarlægja slíkar tálmanir er ljóst, að hér gæti verið um mjög yfirgripsmikið verkefni að ræða. Því er brýnt, að Landhelgisgæslan hafi yfir að búa þeirri þekkingu og hafi á hendi þá stjórnun, að hægt sé að nýta bæði skip gæslunnar og fiskiskip eftir atvikum og þörfum.

Þetta segir hæstv. ráðh. þarna og bætir við: „Landhelgisgæslan hefur um nokkurt skeið unnið að því að kanna þessi mál nánar í samvinnu við varnarmáladeild. Sóttir hafa verið fundir og námskeið Atlantshafsbandalagsins í þessu skyni, og fyrirhugað er að halda þessari athugun áfram. M. a. hafa Norðmenn boðist til þess að halda sérstakt námskeið á þessu sviði fyrir Landhelgisgæsluna.“

Hér eru talsverð áform á ferðinni og ég sé ástæðu til að spyrja hæstv. ráðh. nánar út í þetta: Hverjar eru, nánar tiltekið, fyrirætlanir utanrrh. í þessum efnum varðandi hlut Landhelgisgæslunnar til öryggisstarfa? Út af fyrir sig getur það verið mál til athugunar að Landhelgisgæslan eigi hlut að máli í sambandi við slíka þætti, en ég vara við því að verið sé að flækja þessa íslensku stofnun inn í hernaðarumsvif Bandaríkjahers hérlendis. Ég vil inna hæstv. ráðh. eftir því hvort þetta mál hefur verið rætt í ríkisstj. og hvort hæstv. utanrrh. gæti upplýst hvert væri viðhorf hæstv. dómsmrh. sem yfirmanns Landhelgisgæslunnar í þessum efnum. Hæstv. dómsmrh. er ekki hér viðstaddur þessa umr., annars hefði ég beint fsp. minni beint til hans, en kannske getur hæstv. utanrrh. leyst úr því.

Það eru að vísu ekki margir flóar og firðir úti fyrir kjördæmi hæstv. dómsmrh. þannig að hann hefur kannske ekki haft svo miklar áhyggjur af lagningu tundurdufla þar úti fyrir ströndum, enda líkur til þess að slík hervirki mundi reka í aðrar áttir, í önnur kjördæmi, kannske fylgja öndvegissúlum Ingólfs, en um þessi efni er ástæða til þess að inna ráðh. nánari skýringa.

Í skýrslunni er að finna, og hæstv. ráðh. vék að því hér í máli sínu áðan, hugleiðingar varðandi breytingu á varnarmáladeild og þátttöku í störfum hermáladeildar NATO. Í þessu samhengi varpa ég fram þeirri spurningu hvort menn hafi trú á því að við Íslendingar værum miklu nær um það hlutskipti sem okkur er ætlað af Pentagon, hermálaráðuneyti Bandaríkjanna, þó að gripið verði til þeirra ráða sem ráðh. hér boðar til að bæta úr eigin þekkingarskorti, að ráðnir yrðu að utanrrn., eins og það heitir í skýrslunni, „sérfræðingar með herfræðilega og hertæknilega reynslu og menntun“.

Nú er það svo að full ástæða er fyrir Íslendinga að afla sér sem gleggstrar vitneskju í sambandi við það sem snertir land okkar. Úr því vil ég ekkert draga. En ég er ekki viss um að gleggstu upplýsingarnar sé að fá með því að sitja á fundum hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins eða draga saman gögn frá okkar bandamönnum. Ég hygg að víðar þurfi að leita fanga í rauninni til að afla vitneskju um fjölmargt það sem snertir okkar öryggishagsmuni.

Herra forseti. Að því er varðar öryggishagsmuni okkar Íslendinga og það sem lesa má út úr þessari skýrslu hæstv. ráðh., þá ber allt að sama brunni. Við Íslendingar erum hér leiksoppur í hernaðarneti Atlantshafsbandalagsins og Bandaríkjanna sérstaklega. Það er ekki einu sinni haft fyrir því að setja æðstu ráðamenn, íslenska, inn í áætlanir sem varða land okkar, stöðu þess og öryggi, m. a. varðandi flutninga á helsprengjum til landsins. Ísland er komið framar í víglínu en nokkru sinni fyrr fyrst og fremst vegna þess herbúnaðar sem hér er og er nú verið að endurnýja og auka við í stórum mæli. Alþb. er nú sem fyrr andvígt þessari stefnu. Það varar við háskanum sem þjóðinni er búin með vígbúnaði hérlendis. Það telur að Íslendingar eigi að leggja sitt lóð á vogarskálina með allt öðrum hætti í tafli risaveldanna. Við þurfum að leitast við að tryggja öryggi lands okkar án herstöðva og með því að standa utan hernaðarbandalaga. Slíkt er vissulega ekki vandalaus leið. Því vil ég alls ekki halda fram. Ekkert er sjálfgefið, ekki heldur hlutleysi eða yfirlýsingar þar að lútandi, en ég tel að það sé kostur og leið sem Ísland eigi að þræða og hefja undirbúning að slíkri stefnubreytingu fyrr en seinna. Við eigum á alþjóðavettvangi að leggja okkar lóð á vogarskál slökunar. Við getum orðið þar að liði og gagni og um það höfum við ýmis dæmi þegar við beitum okkur. Ég nefni hér athyglisvert dæmi í þessum efnum, þar sem er starf sérstakra þingmannasamtaka sem vinna að því að draga úr spennu milli stórvelda, hinna svokölluðu Parlamentarians for World Order, en formaður þeirra nú er Íslendingur, Ólafur Ragnar Grímsson. Þessi samtök hafa fengið því áorkað að fá fremstu talsmenn, þjóðarleiðtoga sex ríkja í fimm heimsálfum, til þess að leggja sitt lóð á vogarskál til þess að hafa áhrif á stórveldin. Vísa ég þar til hinnar svonefndu Delhi-yfirlýsingar sem gefin var út af þjóðarleiðtogum í Indlandi, Argentínu, Mexíkó, Grikklandi, Svíþjóð og Tanzaníu og sem birt var fyrir nokkrum mánuðum. Það ber að fagna slíku samstarfi og það ber að fagna því að Íslendingar skuli beita sér með þeim hætti sem þegar hefur verið gert innan þessara samtaka. Það væri ástæða til þess að vitna hér í Delhi-yfirlýsinguna, en ég vil tímans vegna ekki lengja ræðu mína með því.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að öðrum þætti sem um er fjallað í þessari skýrslu og miklu varðar fyrir okkur Íslendinga, en það er þróunarsamvinnan og áherslur af okkar hálfu í norður-suður samstarfinu. Sú umræða er fyrirferðarmikil á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eins og skýrslan frá 39. þinginu ber m. a. vott um. Ég átti þess kost að fylgjast með þessari umr. á síðasta allsherjarþingi, þar sem málefni Afríku voru alveg sérstaklega í brennidepli og það er ánægjulegt að verða vitni að því, á þeirri stóru samkomu þjóðanna, hversu stór hlutur Norðurlanda er í reynd, stór miðað við fólksfjölda og hvernig sem á málið er litið. Norðurlönd njóta á þessum vettvangi verulegs trausts, hafa áunnið sér það vegna þess að þau hafa borið gæfu til þess að leggja sitt lóð þar rétt á vogarskál og veitt á marga lund hið besta fordæmi í sambandi við stuðning við þróunaraðstoð. Það gildir um flest Norðurlandanna sem þegar hafa náð því marki sem Sameinuðu þjóðirnar hafa óskað eftir í sambandi við framlag hinna ríku þjóða til hinna fátæku. Á þessu sviði erum við Íslendingar því miður miklir eftirbátar annarra Norðurlandaþjóða eins og hæstv. utanrrh. vék að í máli sínu. Við greiðum innan við 0.1% af okkar þjóðartekjum til þróunaraðstoðar og þar hefur verið um lækkun á framlögum að ræða undanfarin tvö ár, ekki síst í sambandi við afgreiðslu fjárlaga á yfirstandandi ári. Það ber að harma að ekki tókst um það samstaða hér á þingi að halda a. m. k. því hlutfalli sem gilti á síðasta ári í sambandi við framlag til þróunaraðstoðar, en um það fluttum við fulltrúar stjórnarandstöðunnar á Alþingi sérstaka till. að svo mætti verða, en hún hlaut ekki samþykki.

Mál þessi hafa verið mikið rædd í utanrmn. svo sem réttmætt er að undanförnu. Þar hafa komið fram greinargerðir og upplýsingar um stöðu þessara mála, sem væntanlega eiga eftir að koma hér fyrir þingið í tengslum við till. af hálfu nefndarinnar um að breyta hér verulega um áherslur og stefnu frá því sem verið hefur í sambandi við framlag til þróunaraðstoðar. Ég get tekið fullum hálsi undir það sem fram kemur um þetta efni frá hæstv. ráðh. og er kannske tími til kominn að við finnum eitthvað sem sannmæli er um í sambandi við áherslur í utanríkismálum, en það sem fram kemur í skýrslu hans á bls. 37, að hann geti með hliðsjón af því sem þar segir um þróunarsamvinnu fyrir sitt leyti fallist á tillögu stjórnar Þróunarsamvinnustofnunar Íslands um að stefnt verði að því að ná áðurnefndu 0.7% marki á sjö árum, er einmitt það sem umræðan í utanrmn. hefur snúist um og ég vil treysta því að þar takist samstarf nú á næstu dögum um það að bera þetta mál fram fyrir þingið og ná um þetta víðtækri samstöðu milli flokka og með þingheimi öllum. Hvað sem segja má um efnahagssamstöðu okkar Íslendinga, þá vil ég orða það svo: Við höfum ekki efni á því að standa að þessum málum með þeim hætti sem verið hefur á undanförnum árum. Við verðum hér að reka af okkur slyðruorðið.

Um form þróunarsamvinnu mætti margt segja. Ég tel að sú aðstoð sem við höfum veitt t. d. Cabo Verde sé á margan hátt til fyrirmyndar og við getum í sambandi við aukin framlög í þessu skyni einmitt horft til þess að efla tvíhliða samvinnu við einstök ríki til að reyna að tryggja að það sem við reiðum af hendi nýtist sem best og sem fyllstar upplýsingar liggi fyrir um það hérlendis að sú aðstoð sem við reynum að veita komi að sem bestu gagni.

Ég vil þá nefna aðeins örfá atriði sem snerta samvinnu innan Norðurlandanna, en það er raunar þáttur sem svo oft hefur verið ræddur hér á Alþingi og svo mikið sammæli er um að ekki er ástæða til að hafa um það mörg orð í tengslum við þessa skýrslu. Ég er þeirrar skoðunar að samvinna Norðurlanda sé og eigi að vera í ríkari mæli en verið hefur hornsteinn í okkar utanríkisstefnu og við eigum að leggja mikið á okkur til þess að tryggja sem best samstarf innan Norðurlanda. Ég tel að reynslan af norrænu samstarfi á liðnum áratugum, þrátt fyrir margháttaða gagnrýni sem heyrst hefur, færi okkur heim sanninn um að hún hafi verið árangursrík fyrir Ísland. Þar er eftir miklu að slægjast fyrir okkur, bæði efnahagslega og menningarlega og sú umræða sem fram fór á nýlega afstöðnu Norðurlandaráðsþingi, m. a. varðandi íslensk hagsmunamál í tengslum við norræna samvinnu, bera þessa vitni. Fyrirætlanir um sérstakan þróunarsjóð fyrir vesturhluta Norðurlanda eru eitt dæmi af áformum varðandi norræna samvinnu sem geta orðið Íslandi til framdráttar og hið sama gildir um áformin varðandi sérstaka norræna líftæknistofnun hér á Íslandi. Alveg sérstaklega ber okkur Íslendingum að kappkosta að ná sem bestu og nánustu samstarfi við næstu granna, Færeyinga hér skammt í austri og Grænlendinga í vestri. Það hefur sem betur fer tekist á undanförnum árum að auka samstarf þessara grannríkja, þessara smáríkja hér í útnorðri, og leggja grunn að frekari þróun þess og ég vænti að ekki liði langur tími þangað til hægt sé að taka stefnumarkandi ákvarðanir að þessu leyti sem fullt sammæli verður um. Við Íslendingar þurfum að sjálfsögðu sem stærsti bróðirinn í þessum þriggja þjóða hópi að leggja okkur sérstaklega fram um að vera veitendur með eðlilegum hætti og það veit ég raunar að er allra hugur þeirra sem við þessi mál fást hérlendis.

Einn síðasti kafli skýrslu hæstv. utanrrh. fjallar um utanríkisviðskipti. Það væri vissulega ástæða til að ræða ýmsa þætti sem varða utanríkisviðskipti okkar af tilefni þess sem fram kemur í þeim kafla skýrslunnar sem viðskrn. hefur lagt til. Ég ætla hins vegar ekki að taka hér langan tíma til þeirrar umræðu. Við Íslendingar erum háðari utanríkisviðskiptum en flestar aðrar þjóðir og þess vegna er full ástæða til þess að mál þessi séu gaumgæfð og rædd hér á hv. Alþingi. Staðan í utanríkisviðskiptum okkar, með miklum viðskiptahalla ár eftir ár og vaxandi erlendri skuldasöfnun, ýtir raunar á að þessi mál séu rædd og gaumgæfð meir en almennt er gert hér á Alþingi. Staðan í þeim málum er verulegt áhyggjuefni. Við þurfum að leggja okkur fram um að ná þar fram breytingu fyrr en síðar, svo drjúgur þáttur sem efnahagsstaðan að þessu leyti er í okkar sjálfstæðisviðleitni. Þar er háski á ferðum lítilli þjóð ef heldur fram sem horft hefur að undanförnu. Sama gildir í sambandi við utanríkisverslun okkar sem er okkur afar þýðingarmikil og verður það eflaust á ókomnum árum. Þar hefur ekki verið staðið að málum með þeim hætti um langt árabil eins og þurft hefði. Okkur hefur ekki tekist að samstilla kraftana í sambandi við markaðsöflun og kynningu á Íslandi og íslenskri ímynd á hugsanlegum markaðssvæðum eins og þurft hefði. Þar hafa hin Norðurlöndin verið okkur langtum fremri og við hefðum og megum margt af þeim læra að þessu leyti.

Í skýrslunni er að finna vangaveltur og ábendingar um viðleitni af hálfu núv. ríkisstj. til að bæta hér úr og það er full ástæða til að taka undir alla viðleitni í þeim efnum. Hins vegar finnst mér að sú nefndarskipan sem greint er frá í skýrslunni, þar sem um er að ræða einar þrjár nefndir sem ætlað er að sinna ýmsum þáttum þessara mála, vera heldur ruglingsleg og erfitt að sjá hvaða áherslur eru þar á ferðinni. En vonandi er að sú starfsemi og það starf sem þar er unnið að sé með sæmilega skilvirkum hætti. Ég get bent á ýmsar gagnlegar hugmyndir sem fram hafa komið að undanförnu í sambandi við hugsanleg tengsl utanríkisþjónustunnar og viðskrn. okkar í sambandi við markaðsstarfsemi, t. d. gagnmerka grein frá sendiherra okkar, Einari Benediktssyni, sem birt var í Morgunblaðinu 19. apríl s. l. um þessi efni, en hann er einn af starfsmönnum okkar utanríkisþjónustu sem hefur lagt sig verulega eftir því á undanförnum árum að styðja við markaðsöflun og viðleitni útflytjenda. Ég tel að fjölgun viðskiptafulltrúa við okkar sendiráð, hvort sem það er beint í tengslum eða á vegum utanrrn. eða viðskrn., sé af hinu góða og við þurfum að reyna að ná á sem skemmstum tíma miklu betri árangri á sviði markaðsöflunar og það á ýmsum svæðum heimsins en tekist hefur til þessa.

Það væri ástæða til þess, herra forseti, að ræða hér sérstaklega þá starfsemi sem fram hefur farið á vegum hæstv. iðnrh. í sambandi við utanríkisviðskipti og reyndar viðleitni hans til þess að draga hingað erlenda aðila til að fjármagna í íslenskum stórfyrirtækjum og nú síðast í íslenskum smáfyrirtækjum. Þar hefur hins vegar ekki gengið eftir svo sem ráðh. hefur til stofnað með sérstökum nefndum sem hafa verið á fleygiferð um heimsbyggðina á undanförnum misserum, en næsta lítið hefur orðið ágengt í sinni viðleitni. Ég get kannske sagt sem betur fer að þessu leyti þar sem ég er andvígur þeirri stefnu sem þar er framfylgt í mikilvægum þáttum. En það vekur athygli þegar hæstv. iðnrh. boðar að hann ætti að koma upp sérstökum sendiherrum á vegum síns ráðuneytis í sambandi við markaðsöflun og viðleitni til þess að kynna Ísland í fjarlægum heimshlutum, kynna þetta Singapore norðursins, sem hann hefur kallað svo, á heimaslóð í Suðaustur-Asíu, og ég sé ástæðu til þess að inna hæstv. utanrrh. eftir því hvort þarna sé samstarf á milli og hvort það sé ætlunin að ráðherrar einstakra atvinnusviða fari að taka upp sjálfstæða starfsemi af þessu tagi, jafnvel að koma upp sérstökum sendiherrum. Hvað má segja um hæstv. sjútvrh.? Væri honum ekki ætlandi að taka til hendinni ef hæstv. iðnrh. er farinn að boða starfsemi af því tagi sem hér var vikið að? Ég er ekki með þessu að segja að einstök rn., þó að ekki fari þau með viðskipti eða utanríkismál, eigi ekki og geti ekki lagt okkar utanríkisviðskiptum lið, það getur verið allt á sínum stað, en það skiptir mjög miklu að hér sé um samhæfðar aðgerðir að ræða þó að menn geti greint á um stefnuna hverju sinni að þessu leyti.

Í lokakafla skýrslu hæstv. utanrrh. er vikið að utanríkisþjónustunni og settar fram hugmyndir um eflingu hennar og stofnun nýrra sendiráða. Ég tel það vera mjög eðlilegt, nú þegar 15 ár eru liðin frá því að aukið hefur verið við sendiráð eða fastanefndir af hálfu Íslands, það mun síðast hafa verið árið 1970, að menn velti því fyrir sér hvort ekki sé tímabært að koma upp nýjum sendiráðum á okkar vegum. Ég get vel undir það tekið og átt hlut að slíkri athugun mála. Hér eru nefnd í skýrslu hæstv. ráðh. sérstaklega þrjú lönd sem til greina komi. Ég vil hér ekki fara að kveða neitt ákveðið upp úr um það, hvort þar séu eðlilegar áherslur á ferðinni. Ég tel raunar mjög eðlilegt að horft sé til Austur-Asíu og þá e. t. v. Japan í sambandi við staðsetningu á nýju sendiráði, en ég teldi einnig eðlilegt að menn huguðu að því að koma upp íslensku sendiráði í einhverju svæða þriðja heimsins og þá t. d. í Afríku. Við eigum þegar veruleg samskipti við Afríkulönd, bæði í sambandi við þróunarsamvinnu og á sviði viðskipta, og þá alveg sérstaklega við Nígeríu. Mér finnst að tímabært sé fyrir okkur að íhuga, hvort það sé ekki eðlilegt, ef við teljum okkur hafa ástæður til þess að fjölga sendiráðum, að finna einu sendiráði stað í ákveðnu svæði hins svokallaða þriðja heims og það væri ekki óeðlilegt að þar væri litið til Afríku.

Ég vil í sambandi við utanríkisþjónustuna þakka það mikla starf sem fram fer á hennar vegum, starfsmanna hennar í sendiráðum okkar þar sem þau eru til staðar og margir okkar sendiherra þurfa að heimsækja hin fjölmörgu ríki og halda uppi tengslum við ríki þar sem engin sendiráð eru starfrækt af okkar hálfu. Það mikla starf sem þarna er unnið ber að virða og þakka og ég er ekki í vafa um að íslenskir sendimenn þurfa að leggja þarna meira á sig í rauninni en ætlast er til af sendimönnum stærri þjóða sem halda uppi sjálfstæðum sendiráðum miklu víðar en við höfum möguleika og efni á að gert sé.

Ég vil, herra forseti, að endingu undirstrika nauðsyn þess að við Íslendingar leitumst við að standa sem þéttast saman um öll mikilvægustu svið er varða okkar utanríkismál. Því miður höfum við ekki borið gæfu til þess í þeim þáttum sem snerta öryggismál landsins og þar hefur þjóðin verið klofin í andstæðar fylkingar á liðnum áratugum og svo er enn. Það ber vissulega að harma. Öll viðleitni til að ná mönnum saman í þessu efni tel ég að sé athugunarverð og skipti miklu og ég vil fyrir mitt leyti leggja mitt af mörkum til þess að það sé hægt. En eins og annars staðar þarf fleiri en einn til að koma til að hægt sé að ná saman um andstæð eða býsna ólík sjónarmið. Ég tel að við þurfum að leggja okkar lóð með allt öðrum hætti og í meiri mæli á vogarskálar friðar og sátta í heiminum og það gerum við best með því að skipa okkur í sveit ríkja sem vilja standa utan við togstreitu risaveldanna. Lítil og fámenn þjóð sem Íslendingar þarf alveg sérstaklega á samheldni að halda í viðsjálum heimi og það hlýtur að vera leiðarljós okkar alþm. þrátt fyrir ólíkar skoðanir að leggja okkur fram um að ná saman þegar um er að ræða mikla og brýna hagsmuni okkar lands.