02.05.1985
Sameinað þing: 78. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4706 í B-deild Alþingistíðinda. (3978)

Skýrsla um utanríkismál

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt hér á því að þakka meðnm. mínum í hv. utanrmn. fyrir ágætt samstarf í nefndinni í vetur og láta í ljós þá ósk mína að það megi enn vel dafna því að enn eru mörg verk óunnin í nefndinni og mörg mál sem bíða þar afgreiðslu. Sérstaklega vil ég þakka formanni n., hv. þm. Eyjólfi Konráði Jónssyni, fyrir hans hlut í nefndarstörfunum og þá ekki síst þá ætlun hans að afgreiða frá n. öll mál sem vísað hefur verið til hennar á þessu þingi. Trúað gæti ég að þar væri þá brotið í blað í störfum þessarar hv. n. Jafnframt vil ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu um utanríkismál sem hann hefur hér gefið og lagt fyrir þingið og sem hér er nú til umr. Ég vil enn fremur þakka fyrir fylgigögn með þessari skýrslu og þær upplýsingar sem lagðar hafa verið fram í utanrmn. í vetur.

Þótt í skýrslu hæstv. utanrrh. sé fátt sem kemur á óvart eða sem markar einhver straumhvörf í utanríkismálum Íslendinga, þá er býsna margt um hana að segja og um þau mál sem hún víkur að og vil ég fyrst fjalla örlítið um þá heimsmynd sem í skýrslunni birtist.

Afstaða okkar til umheimsins og samskipti okkar við aðrar þjóðir markast alla jafna af þeirri heimsmynd eða heimssýn sem við höfum á hverjum tíma og þá ekki síst þeirri heimsmynd sem þeir hafa sem með utanríkismál þjóða fara. Sú heimsmynd sem birtist í skýrslu hæstv. utanrrh. virðist mér í stuttu máli sú mynd sem mótaðist á árum hins svonefnda kalda stríðs, heimsmynd þar sem heiminum er skipt í tvær stríðandi fylkingar, gráar fyrir járnum, önnur í austri, hin í vestri, og þar sem öryggi þjóða byggist á tilvist vopna sem eru nægilega öflug til að halda hinum stríðandi fylkingum í óttablandinni fjarlægð hvorri frá annarri, eða eins og segir á bls. 6 í skýrslu hæstv. utanrrh., með leyfi forseta:

„Friður á viðsjárverðum tímum getur nefnilega ekki grundvallast einvörðungu á trú á góðum ásetningi. Hann verður þvert á móti að byggjast á varnarviðbúnaði í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna og jafnvægi í vopnabúnaði aðila, helst á sem lægstu stigi.“

Helst á sem lægstu stigi. Vissulega. En þarna kemur skýrt fram að að mati hæstv. utanrrh. byggist friður á vopnajafnvægi. Góður ásetningur og friðarvilji duga skammt, það eru vopnin sem tala. Hér er fyrir mér komin í hnotskurn sú heimssýn sem kennd hefur verið við kalda stríðið og sem hefur leitt okkur inn í þann vítahring ógnvænlegs vígbúnaðarkapphlaups sem við nú búum við. Það hvarflar ekki að mér að gera lítið úr þeim ógnum sem mannkyni stafar af vígbúnaði risaveldanna né heldur hvarflar það að mér að halda því fram að einhver allsherjarlausn á þessari járnbentu vígstöðu sé einhliða afvopnun annars hvors aðilans. En ég leyfi mér að halda því fram að án góðs ásetnings og raunverulegs friðarvilja verði mannkyninu aldrei þokað úr skugga helsprengjunnar til friðar og mannúðar í frjálsum heimi.

Heimsmynd kalda stríðsins skilar þar engum árangri, eins og glögglega kemur reyndar fram í skýrslu hæstv. utanrrh. þar sem oft er vikið að því hversu lítinn árangur afvopnunarviðræður undanfarinna ára hafa borið. Í skýrslu sinni harmar hæstv. ráðh. þetta ástand mála, en ég vil benda honum á að það er einmitt sú heimssýn sem hann leggur til grundvallar í skýrslu sinni, sú heimssýn að vopnin tryggi friðinn en ekki öfugt, sem gerir það að verkum að vígbúnaðarmálum er nú háttað á þann veg sem raun ber vitni. Hér þarf að koma til hugarfarsbreyting og hana finn ég ekki í skýrslu hæstv. utanrrh.

Annað einkenni þeirrar heimsmyndar sem við okkur blasir í þessari skýrslu er einföldun á eðli og atferli stórveldanna. Rétt eins og í skýrslu sinni til Alþingis í fyrra er eins og hæstv. utanrrh. sjái annað stórveldið sem algott og hitt sem alvont. Víða má finna dæmi þessa í þeirri skýrslu sem nú er hér til umræðu. Ef menn fletta upp á bls. 5 í skýrslunni stendur þar í kaflanum um samskipti austurs og vesturs, með leyfi forseta:

„Slökun í samskiptum austurs og vesturs getur ekki eflst á ný né orðið varanleg ef annar aðilinn lítur svo á að hægt sé að skilgreina hana að vild. Traust eða tortryggni ræðst líka af öðrum aðgerðum hlutaðeigandi ríkja. Þannig er ógjörningur fyrir Vesturlönd að horfa fram hjá innrás Sovétmanna í Afganistan, hersetu þar og óstöðvandi blóðbaði allt frá því í desember 1979. Ekki er heldur hægt að þurrka út rás atburða í Póllandi og hvernig margháttuð mannréttindi hafa verið og eru fótum troðin þar og annars staðar í Austur-Evrópu þrátt fyrir hátíðlegar skuldbindingar, t. d. í Helsinkisáttmálanum. Þá munu fáir hafa gleymt því er Sovétmenn skutu niður kóreönsku farþegaflugvélina með þeim afleiðingum að hátt á þriðja hundrað manns fórust.“

Ekki stendur þarna eitt orð um misgjörðir hins stórveldisins, ekki heldur þegar kemur að kaflanum um Mið- og Suður-Ameríku dálítið seinna í skýrslunni. Þar er t. a. m. að finna svofellda lýsingu á ástandinu í Nicaragua, með leyfi forseta:

„Í kosningunum í Nicaragua í byrjun nóvember s. l. unnu Sandinistar, er komust til valda í byltingunni 1979, er harðstjóranum Somoza hershöfðingja var steypt af stóli, auðveldan sigur. Hlutu þeir 63% atkvæða, en stærsta stjórnarandstöðuflokknum Coordinadora-bandalaginu var meinuð þátttaka í kosningunum. Leiðtogi Sandinista Daníel Ortega var kjörinn forseti og flokkur Sandinista hlauf 61 sæti af 96 á þinginu. Skæruhernaður heldur áfram í landinu.“

Hér lýkur umfjöllun um Nicaragua í skýrslunni. Engum líkum er leitt að því hvers vegna skæruhernaður heldur áfram í landinu, eins og þarna segir, hvaðan skæruliðum kemur fé til vopnakaupa eða hvort Bandaríkjamenn eiga þarna nokkurn hlut að máli. Það hefur þó varla farið fram hjá neinum, sem hefur fylgst með fréttum af umræðum í bandaríska þinginu um málefni Nicaragua á undanförnum dögum eða tekið eftir því að Bandaríkjaforseti setti í gær viðskiptabann á Nicaragua, að Bandaríkjamenn eiga þarna hlut að máli. Ég tek þetta aðeins sem eitt dæmi af mörgum í skýrslunni um það hvernig hæstv. utanrrh. virðist sjá annað stórveldið sem algott og hitt sem alillt. Ég vil biðja menn að misskilja ekki orð mín á þann veg að með þessu sé ég að afsaka einhver af þeim fólskuverkum sem þarna um ræðir. Það er ég ekki að gera. Þau eru óafsakanleg.

Ég er aðeins að benda á þá einföldun sem einkennir þessa heimsmynd og sem engan veginn fær staðist neitt raunveruleikapróf. Staðreyndin er vitaskuld sú að hvorugt stórveldanna er algott eða alvont. Þau eru bæði sek um það að seilast til áhrifa um heiminn í krafti veldis síns, hvort með sínum hætti, og þau reyna að skipta heiminum á milli sín í áhrifasvæði og skapa og viðhalda óvinaímyndinni hvort um annað til þess að tryggja sig í sessi og réttlæta vígbúnað sinn. Og þau eru bæði sek um það að fylla vopnabúr heimsins með kjarnorkuvopnum sem ógna öllu lífi á þessari jörð. Slíkt athæfi er ófyrirgefanlegt, óleyfilegt og stríðir gegn öllu mannlegu siðferði. Það er aðför að lífinu á þessari jörð, aðför að grundvallarlögmálum mannlegrar tilvistar. Frammi fyrir þessum ógnum stöndum við í dag og við stöndum frammi fyrir því að takast á við þennan óhugnað. Það hefur fallið í okkar hlut, sem nú lifum, okkar sem nú erum að ala börn í þennan heim, að takast á við þennan stóra vanda sem ógnar sjálfum lífsneistanum í brjósti okkar og til þess að takast á við þennan mikla vanda heimsmála dugar okkur ekki sú einfalda heimssýn sem ráða má af skýrslu hæstv. utanrrh. Okkur dugar ekki að skipta heiminum upp í eitt gott stórveldi á móti öðru vondu stórveldi. Þannig komumst við ekkert áfram í áttina að afvopnun, eins og reynslan hefur reyndar sýnt. Við verðum í þessum efnum að taka á stórveldunum báðum og hafa það jafnframt hugfast að heimurinn er miklu flóknari og margskiptari en sem nemur austur/ vestur-skiptingunni.

Í skýrslu hæstv. utanrrh. er sannarlega fjallað um aðra heimshluta en þá sem falla undir yfirlýst umráðasvæði stórveldanna tveggja, ef svo má að orði komast. En það virðist lítil tilraun gerð til þess í skýrslunni að skoða ástand mála í öðrum heimshlutum í samhengi t. d. við hergagnaframleiðslu risaveldanna, í samhengi við vopnasöluhagsmuni þeirra, sem eru gífurlegir eins og fram kemur á bls. 4 í skýrslunni, og hvernig það ásamt vígbúnaði risaveldanna sjálfra og misheppnuðum afvopnunarviðræðum tengist ástandinu í þessum löndum. Í skýrslu hæstv. utanrrh. er enga greiningu á þessu samhengi heimsmála að finna. Í skýrslunni er allt bútað niður í aðskilin hólf, stórveldin í einu hólfi, aðrir heimshlutar í öðru, herstöðin á Íslandi í sínu sérhólfi. þróunarmálin í sínu hólfi og þannig áfram. Engin samtenging, engin tilraun til að greina samhengi hlutanna. Og að baki þessari hólfuðu heimssýn liggur hin svart/hvíta mynd af stórveldunum og sá skilningur að vopnin tryggi friðinn. Þannig birtist okkur heimssýn þessarar skýrslu um utanríkismál á sama tíma og við vitum að við verðum að skoða ástand heimsmála í nánara samhengi en hér er gert vegna þess einfaldlega að allir hlutar heimsins eru í dag nátengdir bæði efnahagslega og hernaðarlega á meðan við vitum að stórveldin eru bæði uppvís að yfirgangi og vitfirrtri vígbúnaðarframleiðslu og á meðan við vitum að sú hugsun að vopnin tryggi friðinn hefur ekki skilað okkur í átt til afvopnunar eða slökunar á vettvangi heimsmála. Þessi heimsmynd dugar okkur ekki til að takast á við þann mikla vanda sem við okkur blasir, hvorki á sviði afvopnunarmála né á sviði þróunarmála. Til þess þurfum við heimsmynd sem skoðar efnahags- og vígbúnaðarmál í heildarsamhengi, heimsmynd sem viðurkennir að enginn er hvorki algóður né alvondur, allra síst stórveldin, og sem skilur að án einlægs ásetnings og friðarvilja fæst engu þokað í þessum málum.

Ef menn, þrátt fyrir þessi orð mín hér, efast um að viðhorfsbreytingar sé þörf, þá er einfaldast að lesa skýrslu hæstv. utanrrh. gaumgæfilega og fræðast þar nokkuð um ömurlegt ástand mála í heiminum. Við verðum að reyna nýjar leiðir í þessum efnum og það verður sífellt fleirum ljóst hér á landi, hvar í flokki sem þeir standa, eins og reyndar kom glögglega fram í umr. hér á Alþingi nýlega um nýjar hernaðarratsjárstöðvar hér á landi. Í því máli hafa margir gert sér ljóst að Íslendingar eru ábyrgðaraðilar í þessum málum rétt eins og aðrar þjóðir heimsins og að auknar hernaðarframkvæmdir hér á landi, þótt í smáum stíl séu hlutfallslega, eru hluti af vitfirrtu vígbúnaðarkapphlaupi í sveltandi heimi.

Herra forseti. Ég hef nýlega héðan úr þessum ræðustól fjallað um afstöðu Kvennalistans til aukinna hernaðarframkvæmda, bæði hér á landi og annars staðar, og tiltekið þau rök sem liggja til grundvallar afstöðu okkar. Ég ætla ekki að eyða tíma þeirra hv. þm. sem sjá ástæðu til að hlýða á þessa umr. með því að endurtaka þau. Ég minni aðeins á að á meðan stór hluti mannkyns sveltur áætlar Vopnaeftirlits- og afvopnunarstofnun Bandaríkjanna að heildarútgjöld til hermála í heiminum í ár muni fara yfir þúsund milljarða dollara. Þessu dæmi verðum við að snúa við. Til þess verðum við að finna leiðir og þar dugar engin ein leið. Þar verður margt að koma til. Ein leið er sú að sýna þann kjark í afstöðu okkar til vígbúnaðar að auka hann ekki á okkar eigin landi í neinu formi. Þannig getum við í litlu kvatt okkur hljóðs í þágu afvopnunar og friðar og orðið þeim sem stærri eru og voldugri verðugt fordæmi. En það þarf meira til, miklu meira, ef okkur á að takast að lyfta af okkur sjálfum og öðrum þjóðum heimsins ógnun vígbúnaðarins, en þá tel ég tvímælalaust vera bestu og einu raunverulegu vörnina um allt það sem okkur er kært í okkar heimshluta, einu vörnina um lífið sjálft.

Við erum lítil þjóð út við ystu höf og vissulega ekki ráðandi í heimsmálum. En við erum rödd í samfélagi þjóðanna og þá rödd eigum við að láta hljóma hátt og skýrt í þágu friðar og afvopnunar í heiminum. Héðan af Alþingi berst rödd okkar til umheimsins og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana gefst okkur starfsvettvangur til að vinna að þessum málum til heilla fyrir mannkyn allt.

Hér á því Alþingi sem nú situr hafa verið bornar fram allnokkrar tillögur í afvopnunarmálum. Ber þar að nefna tillögu okkar Kvennalistakvenna um tafarlausa frystingu kjarnorkuvopna á meðan kjarnorkuveldin reyna að koma sér saman um gagnkvæma afvopnun, tillögu sjálfstæðismanna um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar, tillögu þm. allra þingflokka nema Sjálfstfl. um bann við geymslu og notkun kjarnorkuvopna á íslensku yfirráðasvæði, en að þeirri tillögu er hv. þm. Guðrún Helgadóttir 1. flm., og tillögu fulltrúa allra þingflokka um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum, sem hv. þm. Páll Pétursson er 1. flm. að. Allar þessar tillögur eru nú til meðferðar hjá undirnefnd hv. utanrmn. og er það einlæg von mín að takast megi að ná samkomulagi um afgreiðslu þeirra á þann veg að það Alþingi sem nú situr geti gefið íslensku þjóðinni og umheiminum skýlaust til kynna vilja sinn í þessum mikilvægu málum.

Ein þessara tillagna fjallar um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum og um hana trúi ég að sé víðtæk samstaða hér á Alþingi. Það er því hörmulegt að í skýrslu hæstv. utanrrh. skuli vera tekið á þessum málum eins og raun ber vitni,.en þar segir m. a., með leyfi forseta á bls. 10:

„Ég fæ ekki séð að sérstök yfirlýsing um kjarnavopnalaus svæði á Norðurlöndum, varðandi svæði sem þegar er kjarnavopnalaust, efli öryggi Íslands, annarra Norðurlanda eða friðargæslu í heiminum nema meira komi til. Ástæða væri frekar til að beina athyglinni að umræðum um útrýmingu kjarnavopna þar sem kjarnavopn eru nú til staðar en að vera með vangaveltur um svæði sem eru kjarnavopnalaus.“

Þarna kennir mikils misskilnings. Yfirlýsing um kjarnavopnalaus svæði er einmitt liður í útrýmingu kjarnavopna. Þetta er ekki sitt hvað eins og hæstv. utanrrh. virðist halda. Með því að lýsa sig kjarnorkuvopnalaus svæði geta þjóðir heimsins gefið kjarnorkuveldunum til kynna á ótvíræðan hátt hver sé afstaða þeirra til þessara gjöreyðingarvopna og þannig beitt kjarnorkuveldin þeim þrýstingi sem e. t. v. má duga til þess að þau reyni af alvöru að semja um útrýmingu þessara vopna.

Eins og fram kemur í skýrslu hæstv. utanrrh. er það og hefur alltaf verið stefna íslenskra stjórnvalda að hér skuli ekki vera staðsett kjarnorkuvopn og ég sé ekki nein skynsamleg rök mæla á móti því að þessi stefna sé staðfest, um annað er ekki verið að ræða.

Samstarf og samvinnu við nágrannaþjóðir okkar í þessum efnum sem öðrum tel ég ákaflega mikilvæga og sama er að segja um starf okkar á vettvangi alþjóðastofnana. Þar getum við Íslendingar beitt okkur -í hvívetna til eflingar friðar, mannréttinda og farsældar í okkar hrjáða heimi. Hvað Sameinuðu þjóðirnar varðar hef ég iðulega ítrekað nauðsyn þess í hv. utanrmn. að Alþingi yrði gert kleift að vera virkur aðili í stefnumótun Íslands á þeim vettvangi. Svo er ekki nú og verður ekki lengur við það horf mála unað.

Það vekur einnig athygli að Ísland virðist ekki hafa haft frumkvæði að neinum tillöguflutningi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, því sem síðast sat, og er það mjög miður því að það er ekki síður undir okkur komið en öðrum þjóðum að hafa frumkvæði um mál sem til heilla horfa. Ég hlýt því að spyrja hæstv. utanrrh. að því hvar frumkvæði hans sé á þessum vettvangi.

Það er svo annað mál hver áhrif þær tillögur raunverulega hafa sem samþykktar eru á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og er það e. t. v. brýnasta málið á þessum vettvangi sem og á vettvangi annarra alþjóðastofnana að leitast við að tryggja það að aðildarríkin standi við þær tillögur og þá samninga sem samþykktir eru því margt er það gagnmerkt og er þar skemmst að minnast þess alþjóðasamnings um afnám alls misréttis gagnvart konum sem hæstv. utanrrh. hefur nú lagt fyrir Alþingi til fullgildingar. En það er eitt að samþykkja tillögur og fullgilda samninga og annað að framfylgja þeim og sannarlega fer raunverulegur árangur af starfi Sameinuðu þjóðanna m. a. eftir því hvernig aðildarlöndin standa að framkvæmd mála heima fyrir. Í þeim efnum gildir það sama um okkur og önnur aðildarríki og því eigum við einnig að þessu leytinu til okkar þátt í því hvernig til tekst með framkvæmd mála.

Ég vil við þetta tækifæri fagna því að Ísland skuli nú í fyrsta skipti hafa hlotið sæti í Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna, en verkefni þess eru fjölþætt og margvísleg, eins og segir í skýrslunni, og leyfi ég mér þar, með leyfi forseta, að vitna til þess sem segir á bls. 21 í þessari skýrslu um verkefni þessa ráðs:

„Í stuttu máli er því falið að vaka yfir, gæta og efla alla þá fjölmörgu þætti er stuðla að réttindum manna og velferð þeirra. Því er ætlað að gera athuganir og rannsóknir og gefa skýrslur um alþjóðleg efnahags- og félagsmál, menningar-, mennta- og heilbrigðismál og mál þeim skyld og gera tillögur um slík mál til allsherjarþingsins. Það á að efla virðingu fyrir mannréttindum og frelsishugsjónum. Það gerir drög að alþjóðasamningum og leggur fyrir allsherjarþingið og það getur kallað saman alþjóðaráðstefnur um þau málefni er undir það heyra.

Af þessari upptalningu, sem er hvergi nærri tæmandi, sést hve víðtækt og mikilvægt hlutverk Efnahags- og félagsmálaráðsins er. En það er einmitt á þeim sviðum er undir ECOSOC [sem er ensk skammstöfun yfir þetta ráð] heyra sem Sameinuðu þjóðunum hefur orðið mest ágengt í störfum sínum.“

Eins og af þessu má ljóst vera er hér um ákaflega mikilvægt og umfangsmikið starf að ræða og nú þegar Ísland er orðinn beinn aðill að þessu starfi vil ég spyrja hæstv. utanrrh. hvernig hann hafi hugsað sér að standa þar að hlut Íslands, hvort hann hafi hugsað sér að Ísland hafi þarna eitthvert frumkvæði og þá með hvaða hætti.

Nátengd þeim málum sem þarna eru til umfjöllunar eru þau mál sem þróunarsamvinna hvers konar tekur til, en eins og fram kemur í skýrslu hæstv. utanrrh. og áður hefur fram komið hér á þessu þingi, m. a. við afgreiðslu fjárlaga, hafa framlög af ríkisfé til þróunaraðstoðar farið lækkandi á tveimur s. l. árum og eru nú nífalt lægri en það mark sem velmegunarríki Sameinuðu þjóðanna hafa sett sér, þ. e. 0.7% af þjóðarframleiðslu. Er þetta vitaskuld gersamlega óverjanlegt, ekki síst þegar tekið er tillit til vaxandi örbirgðar víða í heiminum, neyðarástands í Afríku og til þess að Ísland mun vera sjötta ríkasta land heims. Framlög okkar til þessara mála geta skipt sköpum upp á líf og dauða fyrir þá sem í hlut eiga og við svo búið má ekki lengur standa. Hafa þessi mál verið til meðferðar í hv. utanrmn. í vetur og standa vonir til að nefndin muni sameinast um tillögu í þessum efnum. Er það einlæg ósk mín og von að svo megi verða og vil ég í því efni einnig fagna því, sem fram kemur í skýrslu hæstv. utanrrh., að hann hafi fyrir sitt leyti fallist á þá tillögu Þróunarsamvinnustofnunar Íslands að 0.7% markinu yrði náð á næstu sjö árum. Í því efni stöndum við Kvennalistakonur heils hugar með hæstv. utanrrh. og nú skora ég á hæstv. ríkisstj. að gera slíkt hið sama.

Það er ótalmargt sem við Íslendingar getum gert á sviði þróunaraðstoðar. Við höfum yfir að ráða sérþekkingu á ýmsum sviðum sem með réttri beitingu getur nýst þurfandi þjóðum til lífsnauðsynlegrar sjálfshjálpar. Fiskveiðaverkefnið á Grænhöfðaeyjum, sem er stærsta verkefni okkar á þessu sviði til þessa, tekur þar af öll tvímæli, en ég hafði tækifæri til þess s. l. sumar að kynna mér það af eigin raun ásamt dr. Gísla Pálssyni mannfræðingi. Skýrsla um niðurstöður þeirra rannsókna liggur nú fyrir í utanrrn. og ég ætla því ekki að hafa hér um langt mál, en ég vil aðeins minna á að það virðist kjörið að nýta þá þekkingu sem við nú höfum á aðstæðum á eyjunum til að færa út aðstoðina þar, einkum með tilliti til fiskverkunar, sem skapa mundi fjölda atvinnulausra atvinnu og jafnframt auka þjóðartekjur landsmanna, en þær eru nú einhverjar hinar lægstu í heiminum á mann. Tvíhliða aðstoð af því tagi sem hér um ræðir er tvímælalaust vænleg til árangurs, ekki síst ef myndarlega er tekið á í hvert skipti og því fé sem til ráðstöfunar er ekki dreift í of margar áttir. Reynsla sú sem við höfum aflað í aðstoð okkar við Grænhöfðaeyjar ætti einnig að nýtast okkur vel til að fara af stað með sambærileg verkefni í öðrum löndum, en í því efni vil ég undirstrika nauðsyn þess að viðunandi athuganir verði gerðar á aðstæðum í viðkomandi landi með góðum fyrirvara því að annars er síður hægt að tryggja að aðstoðin komi að gagni og að hún miðist við þarfir og aðstæður íbúa sem er vitaskuld grundvallaratriði allrar þróunaraðstoðar.

Einnig vil ég sérstaklega minna á hversu brýnt það er að taka með sérstökum hætti á málefnum kvenna í þróunaraðstoð vegna þess að við umbyltingu hefðbundinna samfélagsforma og tilkomu nýrra atvinnuhátta, m. a. fyrir tilstuðlan þróunaraðstoðar, vill oft fara svo að konurnar verði út undan. Það getur gleymst að taka með í reikninginn að þær eru einnig vinnuafl, engu síður en karlar, og að staða þeirra í þeim samfélögum sem um ræðir mótast m. a. af þeirri staðreynd. Einnig ber að hafa í huga að konurnar eru víðast hvar ábyrgar fyrir að fæða börnin og einn mikilvægur þáttur þess að hamla gegn þeim ógnvænlega barnadauða sem nú er til staðar, t. d. í Afríku, er að sjá til þess að mæðurnar séu sjálfbjarga í fæðuöflun handa börnunum. Hér er aðeins um að ræða einn þátt þróunaraðstoðar af mörgum en harla mikilvægan og þátt sem ég er ekki í nokkrum vafa um að muni skila árangri og það með nokkuð skjótum hætti.

Í þróunarmálum almennt er stór verk að vinna. Neyð heimsins barna er mikil og þarna verðum við Íslendingar að beita okkur, bæði með okkar eigin þróunaraðstoð og með framtaki okkar á alþjóðavettvangi í þágu friðar og jafnari skiptingar heimsins gæða. Það er staðreynd að auðæfi jarðarinnar nægja til að útrýma skorti ef þau eru réttilega notuð.

Herra forseti. Ég skal nú stytta mál mitt þótt enn sé af ýmsu að taka í skýrslu hæstv. utanrrh. Mikilvægi þess að koma utanríkisviðskiptum okkar í farsælt horf er okkur öllum væntanlega ljóst og sama er að segja um gildi norrænnar samvinnu og samvinnu eyjanna í Norður-Atlantshafi, þ. e. Íslands, Færeyja og Grænlands, sem um margt eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta. Ber í því sambandi sérstaklega að fagna stofnun norræns þróunarsjóðs fyrir þetta svæði sem væntanlega mun gefa okkur svigrúm til að takast af einhverjum þrótti á við þau verkefni sem við blasa á þessum vettvangi.

En að lokum vil ég víkja fáeinum orðum að umfjöllun hæstv. utanrrh. um herstöðina hér á landi og láta þess getið í leiðinni að hv. utanrmn. fór í fróðlega heimsókn á herstöðina á Keflavíkurflugvelli í vetur og hafði tækifæri til að skoða með eigin augum ýmislegt sem þar var að sjá. Hvað umfjöllun í skýrslu hæstv. utanrrh. um herstöðina varðar kemur þar fátt eða réttara sagt ekkert nýtt fram, fátt sem ekki hefur þegar verið rætt hér á Alþingi, nú síðast í síðustu viku í umr. um till. til þál. um byggingu nýrra hernaðarratsjárstöðva hér á landi. Til að stytta mál mitt nú vísa ég til þess sem ég sagði þá um þessi mál.

En það var óneitanlega örlagaþrungin stund við upphaf þessa fundar þegar gengið var til atkv. um þessa þáltill. og meiri hluti Alþingis samþykkti að eigi skyldi hamlað gegn auknum herbúnaði hér á landi. Það setti að mér hroll og þannig veit ég að er um fleiri því að eins og menn vita er talið að um helmingur þjóðarinnar sé andvígur þessum hernaðarframkvæmdum. Ekki vefst það fyrir hæstv. utanrrh. né meirihlutamönnum hér á Alþingi né heldur þau rök sem fram hafa komið um ábyrgðarhlut okkar Íslendinga í þessu efni sem þar með gerumst með beinum hætti þátttakendur í aukningu vígbúnaðar í heiminum. Slík viðhorf eiga sér ekki stað í þeirri heimsmynd sem hæstv. utanrrh. setur fram í skýrslu sinni og sem ég fjallaði um í upphafi máls míns. Þau falla þar ekki inn í. Sama er að segja um þau rök sem fram hafa komið þess efnis að eðli herstöðvarinnar hér á landi gæti verið að breytast. Þau eiga heldur hvergi heima í skýrslu hæstv. utanrrh. Þar er einfaldlega staðhæft að eðli herstöðvarinnar breytist ekki og síðan ekki meira um það.

Þetta er vitaskuld gersamlega ófullnægjandi umfjöllun og einnig sker það í augu að hvergi í skýrslu hæstv. utanrrh. er vikið að þeim upplýsingum sem William Arkin kom á framfæri hér í vetur, viðbrögðum Bandaríkjastjórnar við fsp. hæstv. utanrrh. vegna þessa eða þeim umræðum sem um þetta mál urðu bæði hér á landi og í nágrannalöndunum. Hvernig víkur þessu við? Hvers vegna er þessa að engu getið í skýrslu hæstv. utanrrh. um utanríkismál? Ég spyr og vonast eftir svari frá hæstv. utanrrh. Vitaskuld veit ég að upplýsingar Arkins falla ekki inn í þá einföldu heimsmynd, sem við okkur blasir í þessari skýrslu, frekar en margt annað sem í skýrsluna vantar og ég hef hér fjallað um. En, herra forseti, er það ekki lágmarkskrafa að hæstv. utanrrh. leitist við að tæpa á öllum helstu afburðum á sviði utanríkismála í skýrslu sinni til Alþingis, hverjar sem skoðanir hans kunna að vera á einstökum málum?

Herra forseti. Ég læt nú lokið máli mínu, en vil í lokin ítreka það sem ég hóf mál mitt á, en það er hvílík nauðsyn er viðhorfsbreytingar á sviði heimsmála ef við eigum að hafa einhverja von um að leysa mannkyn undan ógnum helsprengjunnar og búa því frið og farsæld í frjálsum heimi. Til þess dugar okkur ekki hin einfalda heimsmynd þessarar skýrslu um utanríkismál og til þess er engin ein leið því að vandinn er ógnvænlegur. En til þess verðum við að finna leiðir og ég hef hér rætt um nokkrar, en við þurfum að finna fleiri leiðir sem haldbetri eru en þær sem við höfum í dag því þar liggur lífsvon þúsunda manna um heim allan. Og ég heiti á alla kjörna þm. á hv. Alþingi Íslendinga að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að við getum öll sem eitt lagt okkar af mörkum til lausnar þessara mála mannkyni til lífsbjargar.