02.05.1985
Sameinað þing: 78. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4721 í B-deild Alþingistíðinda. (3981)

Skýrsla um utanríkismál

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. utanrrh. fyrir þessa skýrslu, hve snemma hún er komin, og eins vil ég lýsa ánægju minni með það með hve góðum fyrirvara þessi umr. var ákveðin.

Við lestur þessarar skýrslu kemur margt fram í hugann og nánast í flestum málsgreinum er eitthvað sem væri vert að ræða um, en þess er enginn kostur, það mundi verða margra klukkutíma verk. Ég vil þó hér, áður en ég fer að ræða það sem er aðalumræðuefni mitt í þessari umr., minnast á tvö atriði sem getið er um. Í fyrsta lagi vil ég nefna þær áætlanir um útgjöld til hermála sem gert er ráð fyrir á árinu 1985, þ. e. að það verði yfir eitt þúsund milljarðar dollara sem varið verður til þeirra. Þessi tala er næsta ógnvekjandi og liggur í augum uppi og þó ekki væri nema hluta af henni varið til annarra verkefna, sem bættu lífskjör í heiminum, sem drægju úr sjúkdómum, sem stuðluðu að betra samfélagi, þá væri mikið unnið og þá mundi einnig verulega draga úr ófriðarhættu, reiptogi eða togstreitu milli þjóða og ríkja og skapast möguleikar á betri heimi.

Þá vil ég lýsa mikilli ánægju minni með þar sem segir að samþykktur hafi verið samningur á allsherjarþinginu um bann við pyntingum og hvers konar ómannúðlegri og niðurlægjandi meðferð manna. Það er vissulega einn svartasti bletturinn á samfélagi nútímans hve pyntingar og niðurlæging eru stór liður í pólitískri stefnu ýmissa ríkja. Ég geri mér fyllilega ljóst að með slíkum samningi er ekki komið í veg fyrir pyntingar, en það er a. m. k. skref í þá átt að draga úr þeim, það er hægt að vinna gegn þeim á ákveðnari hátt en áður, og ég vænti þess að Ísland láti hvergi á skorta um aðstoð við að þvo þennan smánarblett af mannkyninu.

Um samskipti austurs og vesturs mætti margt ræða. Það er athyglisvert að ýmislegt bendir til að þrátt fyrir mikinn kulda í þessum samskiptum séu þó að opnast möguleikar á nýjum viðræðum, jafnvel nýr viðræðugrundvöllur að skapast, og það er illt ef eitthvað yrði til þess að draga úr því. Því miður eru yfirlýsingar leiðtoga beggja risaveldanna með þeim hætti að ekki vekur of mikla bjartsýni, en almenningsálit í heiminum, a. m. k. hér í norðurálfu heims, er með þeim hætti að það er áreiðanlegt að menn vilja mikið á sig leggja til þess að koma raunhæfum viðræðum af stað. Íslendingar geta kannske ekki gert mikið af því að stuðla að slíkum viðræðum, en það sýnist mér sjálfsagt að þeir geri það sem unnt er, beiti áhrifum sínum þar sem þeir hafa þau til þess að hvetja til raunhæfra viðræðna um afvopnun, um frystingu kjarnorkuvopna og um samdrátt í herafla.

Því miður hefur nú komið upp ný staða sem ekki er séð fyrir endann á enn þá. Þar á ég við geimvopnaáætlun sem sett hefur verið fram, að vísu ekki í neinu endanlegu formi, heldur frekar hugmynd um hana, sem Bandaríkjamenn vinna að og Sovétmenn hafa vafalaust einnig haft einhvern undirbúning að, og nú fyrir örfáum dögum lýsti hinn nýi leiðtogi Sovétríkjanna yfir því að þeir yrðu neyddir til að fara út í sams konar aðgerðir og Reagan Bandaríkjaforseti hefur imprað á í allmörgum ræðum.

Slík þróun er vissulega ískyggileg og það ætti að vera von okkar að hægt verði að vinna þannig að afvopnunarmálum að nýtt kapphlaup hefjist ekki úti í geimnum. Að vísu eru líklega yfir tvö þúsund gervitungl úti í geimnum sem annast alls konar upplýsingaöflun og tengjast þar með hernaði, en spurning mannkynsins hlýtur að vera sú: Hver á geiminn? Ég held að þjóðir heims geti ekki sætt sig við það að eitt eða fleiri stórveldi ógni öllu lífi og öryggi á jörðinni með aðgerðum þar sem um afleiðingar er sáralítið vitað fyrir fram.

Það er hér nokkur kafli um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Það er nú unnið að því að Íslendingar taki þátt í slíkum umræðum og ég vil hvetja til þess að menn fylgist mjög grannt með allri slíkri umræðu á Norðurlöndunum og verði helst aðilar að slíkum umræðum. Mér er fullkomlega ljóst að hér er ekki um einfalt mál að ræða. Það hlýtur að tengjast öðrum þáttum í sambandi við afvopnun. En æskilegt væri ef unnt væri af Norðurlandanna hálfu að ýta undir, koma af stað eða jafnvel að standa að samkomulagi sem stuðlaði að verulegum samdrætti í kjarnorkuvopnabúnaði í Evrópu, bæði austan tjalds og vestan. Það er von þeirra sem hafa áhuga á kjarnorkuvopnalausum Norðurlöndum að þetta geti orðið liður í slíkum samningum.

Það kemur fram í skýrslu hæstv. utanrrh. að ekki er einhugur um þetta mál á Norðurlöndum, enda ekki við að búast. Norðurlöndin hafa valið sér mismunandi öryggiskerfi. Þrjú þeirra eru í Atlantshafsbandalaginu, eitt stendur utan við og hið fimmta hefur sérstakan samning við Sovétríkin. En það eitt að ríki með svo ólíka skipan utanríkismála gætu sameinast um að banna með öllu kjarnorkuvopn í löndum sínum og hugsanlega þar með dregið úr kjarnorkuvopnabúnaði í nágrenni þeirra væri merkilegur liður í því að draga úr spennu og draga úr kjarnorkuvígbúnaði. Við skulum gera okkur ljóst að eins og er eru engin kjarnorkuvopn á Norðurlöndum og ég held að allar ríkisstjórnir þar séu andvígar slíkum vopnum. Hins vegar hafa menn ekki viljað gefa út slíkar einhliða yfirlýsingar, en Finnar hafa þrýst á, sem kannske ekki er óeðlilegt vegna samningsins við Sovétríkin, en samkvæmt honum gætu Sovétríkin í vissum tilfellum flutt kjarnorkuvopn inn í Finnland.

En ég vil taka undir þar sem segir á bls. 11 og vitnað er til Ólafs heitins Jóhannessonar í skýrslu um utanríkismál til Alþingis 1982, þar sem segir með leyfi forseta:

„Formlegur milliríkjasamningur varðandi þau málefni (kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd) hlýtur því eingöngu að koma til greina í víðara samhengi þar sem fjallað er um raunverulega tryggingu þjóða Evrópu fyrir auknu öryggi.“

Undir þetta vil ég mjög sterklega taka, en þetta sýnir einnig að mínu mati hve mikilvægar þessar umræður eru og hve æskilegt er að þær leiddu til nokkurs árangurs.

Um samvinnuna innan Norðurlanda get ég verið fáorður. Hv. 2. þm. Norðurl. v. hefur gert grein fyrir samstarfinu í Norðurlandaráði á nýliðnu þingi Norðurlandaráðs og hef ég þar engu við að bæta. Samstarfið við Norðurlöndin hlýtur að vera einn af hornsteinum utanríkisstefnu okkar og reyndar sá sem harla margt og mikið byggist á. Þó er aðeins eitt atriði sem ég vildi taka hér mjög undir og reyndar ganga nokkuð lengra. Það er í sambandi við tengsl Íslands og Grænlands. Það er mjög ánægjulegt á hve mörgum sviðum samstarf, samráð og samræður Íslendinga og Grænlendinga eru hafnar, en þar skortir þó enn eitt á og það eru samgöngumálin milli þessara tveggja landa. Ég held að það hljóti að vera viðfangsefni okkar núna á næstunni að koma þeim í það horf að unnt sé á nokkuð auðveldan hátt að komast á milli landanna. Það hlýtur að vera forsenda þess að verulegt og heilladrjúgt samstarf milli þessara landa geti hafist.

Þá vil ég nefna tvö átriði í viðbót. Í fyrsta lagi hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að Íslendingar, íslenska utanrrn. ætti að hafa á sínum vegum hermálafulltrúa, sem svo mætti kalla, sérfræðing í hernaðarmálefnum, fylgjast með fundum hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins. Ástæðan fyrir þessari afstöðu minni er sú að ég tel að Íslendingar fái aldrei nógu miklar né ítarlegar upplýsingar um hernaðarmálefni er snerta Ísland. Það hlýtur að vera eitt höfuðviðfangsefni okkar að vita á hverjum tíma hvað er að gerast, hver þróun mála er og vera ekki komnir upp á álit erlendra manna, álit sem gæti verið litað af hagsmunum annarra ríkja um þau mál sem snerta öryggis- og varnarmál okkar. Ég vil því fagna þessu og tel að hér sé rétt að málum staðið.

Þá er é kominn að atriði sem ekki er hvað minnst um vert. Ég tel að einmitt dagurinn í dag sé merkilegur í utanríkismálum okkar Íslendinga. Hæstv. utanrrh. lagði hér fram hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hlýtur það að vera öllum Íslendingum fagnaðarefni að þessi samningur skuli nú liggja fyrir, þessi samningur sem Íslendingar áttu svo mikinn þátt í að móta, sem hefur svo gífurlega þýðingu fyrir Ísland, framtíð þess, auðlindir þess, stöðu þess í heiminum. Ég vil sérstaklega fagna þessum degi og vænti þess að samningurinn fái skjóta meðferð og hv. þm. geti sem einn maður greitt honum atkvæði og þannig í því stóra máli, sem svo mörgum öðrum, sýnt einhug og samhug þjóðarinnar.

En ég held að það mál sem kannske meira rými er varið til í þessari skýrslu en nokkru sinni áður sé það sem í framtíðinni er hvað mikilvægast fyrir Íslendinga. Þar á ég við varnar- og öryggismál landsins. Það hefur að undanförnu farið fram allmikil umræða um þau mál og síðast í dag var fjallað um hugsanlegar ratsjárstöðvar. Það er flóknara mál en svo að ég hafi talið rétt að afgreiða það með þál. einni, enda treysti ég mér ekki til þess. Ég taldi að það mál ætti að vera í höndum ríkisstj., en á það var lögð mikil áhersla að fá það til atkvæða sem ég tel að hafi verið miður.

Lega landsins veldur því að það er eftirsóknarvert fyrir herveldi í reiptogi um „sterka reiti“, eins og það er kallað í skákinni. Ísland hlaut reyndar að lenda í hópi vestrænna þjóða. Það var eðlilegur hlutur, bæði úf frá stöðu landsins, menningu þess, stjórnarfari og beinum viðskiptatengslum. Þar með var ekki sagt að hér þyrfti að vera herstöð og við inngönguna í Atlantshafsbandalagið var ekki gert ráð fyrir herstöð hér á landi. En það liðu ekki nema tvö ár frá því að samningurinn var gerður og þar til hingað var fluttur her og þá vegna styrjaldar í Asíu austanverðri. Það var trú margra að þetta væri einungis bráðabirgðaástand meðan gerðar væru upp sakirnar í Kóreu, en brátt kom í ljós að ekki var tjaldað til einnar nætur. Kalda stríðið var hafið fyrir alvöru og Ísland orðið hlekkur í herstöðvakeðju sem teygði sig vítt um hnöttinn. Í fyrstu var reynt að einangra herstöðina eftir megni, en í ljós kom að áhrif hennar, efnahagsleg og menningarleg, voru meiri en þjóðinni var hollt. Smátt og smátt varð ljóst að enginn gat gert sér grein fyrir því við hvaða aðstæður herstöðin hér yrði lögð niður. Kveðið var svo á að hér skyldi ekki vera her á friðartímum. En hvenær eru friðartímar? Hugtakið er teygjanlegt í allar áttir, ekki síst þegar haft er í huga að risaveldin tvö telja sér bæði rétt og skylt að láta sig varða hvers konar átök hvarvetna á hnettinum.

Enginn veit betur en smáþjóð að ríki á engan vin. Fyrir síðustu heimsstyrjöld og í kjölfar hennar kom upp sú hugmynd að það væri Íslendingum mjög í hag að tengjast Bandaríkjunum, jafnvel ekki síður en Evrópu, fyrir hagstæð viðskipti í Bandaríkjunum væri einfalt að bjóða hér land undir herstöð. Flestir held ég að hafi áttað sig á því að slík verslun væri ekki sæmandi neinni þjóð. Einhvern veginn hefur því samt verið komið inn hjá Íslendingum að þeir verði á sinn hátt að þakka herveldinu, þeim beri skylda til að leggja sitt af mörkum til verndar hinum vestræna lýðræðisheimi. Menn gleyma því að með því einu að hafa herstöð og eftirlitsstöðvar hér á landi leggja Íslendingar ærið til varna bandalagsins. Ísland er mjög mikilvægt fyrir Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið. Það er óbeint liður í vörnum Norður-Ameríku og Norður-Atlantshafs. Stöð þar á fyrst og fremst að fylgjast með kafbáta og herskipaflota Sovétríkjanna og flugi flugvéla þeirra í grennd við landið. Tvær AWACS-vélar, sem bækistöðvar hafa á Keflavíkurflugvelli, fylgjast með flugi á Norðaustur-Atlantshafi.

Í skýrslu hæstv. utanrrh. er nú í fyrsta sinn getið um mikilvægi SOSUS-kerfisins. Þetta hlustunarkerfi hefur nú verið tengt eftirlitsstöð hér í tvo áratugi. En hvað er SOSUS-kerfið? Það eru mörg hundruð og jafnvel þúsundir hljóðnema sem tengdir eru með köplum sem liggja í eftirlitsstöð á landi. Upplýsingar þaðan fara svo til flugvéla, herskipa og kafbáta. Þá eru hér níu Orion P-3C kafbátaleitarvélar sem geta flutt kjarnorkuvopn. Þær annast eftirlit sitt með því að fleygja hlustunarduflum og fylgjast þannig með kafbátaferðum. Þetta er búið að vera óbreytt um 20 ára skeið. Sú spurning hefur vaknað að undanförnu hvort eðli herstöðvarinnar sé að breytast. Og það sem hefur vakið þær spurningar er hve miklar framkvæmdir fara fram nú á tiltölulega skömmum tíma. Þar er um að ræða fjölgun flugvéla, ekki aðeins að skipt er um orrustuvélar heldur er þeim fjölgað um 50%. Það hefur v.;rið rætt um að byggja nýja stjórnstöð. Það eru endurbyggðar ratsjárstöðvar. Það er aukið verulega birgðarými fyrir eldsneyti í Helguvík. Þar er einnig unnið að hafnargerð. Það nú segja að hvert þessara atriða út af fyrir sig sé kannske ekki mikið og ég býst við að afstaða Íslendinga til hugsanlegra ratsjárstöðva á Vestfjörðum og Norðausturlandi væri önnur ef þessar framkvæmdir væru ekki allar í gangi í senn. Það hlýtur að vera íhugunarefni hvers vegna þetta gerist allt svona í einu, en það sem kannske er þó fyrst og fremst íhugunarefni er að nú er ekki lengur verið að leyna því að þessi stöð er engin bráðabirgðastöð. Það er ekki lengur sú hugmynd uppi að þessi stöð verði lögð niður. Ég held að þetta sé eitt alvarlegasta umhugsunarefnið um þessar mundir.

Í vetur komu fram upplýsingar um að áætlun hafi verið til um að flytja skyldi kjarnorkuvopn til Íslands á hættutímum. Þar væri um að ræða djúpsprengjur, B-57, sem hafa 10 kílótonna sprengikraft er jafngildir 10 þús. tonnum af TNT, en slík sprengja er aðeins kraftminni en sprengjan sem varpað var á Hiroshima 6. ágúst 1945. Þessum sprengjum skyldi varpað úr Orion-vélunum til að eyðileggja kafbáta eða þá hugsanlega til að hindra ferðir þeirra um sund. Ástæða er til að spyrja hvort áætlun þessi sé ekki í gildi eða hvort nýjar áætlanir liggi nú fyrir og þá hvort í þeim sé gert ráð fyrir flutningi kjarnorkuvopna til Íslands. Ríkisstjórn Íslands var ekki sagt frá þeirri áætlun um þessi efni. Slíkt virðingarleysi, sem jaðrar við fyrirlitningu, hlýtur að skapa tortryggni og auðveldar ekki samninga eða ætti a. m. k. ekki að auðvelda samninga um aukin hernaðarumsvif og framkvæmdir á vegum Atlantshafsbandalagsins hér á landi.

Það vekur undrun mína að þegar í ljós kemur hve lítinn trúnað Bandaríkjastjórn sýnir ríkisstjórnum Íslands skuli vera léð máls á mikilli uppbyggingu og endurnýjun herbúnaðar, fjölgun flugvéla o. s. frv. á sama eða svipuðum tíma og slíkar upplýsingar koma fram. Ég tel að ríkisstjórn Íslands beri skylda til og hafi rétt á að vita um allar áætlanir varðandi Ísland svo að hægt sé að meta á hverjum tíma hvernig bregðast skuli við hugsanlegum beiðnum Bandaríkjastjórnar eða Atlantshafsbandalagsins um t. d. flutning kjarnorkuvopna til landsins. Þótt það sé stefna allra íslenskra ríkisstjórna til þessa að hér skuli ekki vera kjarnorkuvopn er ekki hægt að fortaka að sú staða komi upp að um það verði beðið.

Ég er þeirrar skoðunar að Alþingi ætti að samþykkja að hér skuli aldrei leyfð kjarnavopn af neinu tagi. Ef hins vegar kæmi fram beiðni um að hingað skuli flutt kjarnavopn væri það Alþingis að taka afstöðu til þess á grundvelli upplýsinga sem ríkisstjórn Íslands vissi um og þekkti. Krafa okkar Íslendinga hlýtur að vera sú að vita ætíð um þær áætlanir sem gerðar eru varðandi landið. Smáþjóð þarf margs að gæta í ótryggum heimi, en þó einskis fremur en að láta ekki ótta óvissunnar ná tökum á sér.

Okkur hættir dálítið til að sjá óvini og árásir í öllum áttum. Gæsla ber merki styrjaldar, sagði Montaigne, en öryggi þarf ekki að aukast þó að gæslan sé aukin, kannske þvert á móti. Mín skoðun er sú að við eigum að vera áfram í Atlantshafsbandalaginu eins og Danir og Norðmenn. Við höfum lýst yfir samstöðu okkar með lýðræðisþjóðum í norðurálfu heims. En stórveldin eru viðsjárverðir vinir smárra ríkja. Sjálfstæði okkar tryggjum við aðeins með því að sýna reisn gagnvart nágrönnum okkar og meta sjálfir hve langt á að hleypa vinaþjóðum inn í land okkar. Förum að með allri gát, en gleymum því ekki að mikilvægi landsins gefur okkur tækifæri til þess að setja skilyrði.

Ég tel mjög mikilvægt að hér sé ekkert gert til þess að raska jafnvægi á norðurslóðum. Ég held að einmitt veruleg uppbygging hér geti skapað þá hugmynd að hér sé verið að byggja einhvers konar Gíbraltar. Þess vegna vil ég vara við allri aukningu, t. d. fjölgun flugvéla og nýrri stjórnstöð. Ég vil varast að svo líti út sem herstöðin hér sé eitthvað sem eigi að standa um áratugi og jafnvel aldir. Ég tel að við eigum að halda fast við það, sem sagt var þegar Íslendingar gengu í Atlantshafsbandalagið, að hér ætti ekki að vera her á friðartímum og að gert sé ráð fyrir því að herinn fari, að herstöðin verði lögð niður. Við eigum að vera herlaust land friðar og slökunar. En það er ekki tími til þess nú, ég viðurkenni það. Það er ekki tími til þess nú og þess vegna eigum við að hafa sem hægast um okkur og ekkert að gera sem skapi þá hugmynd að hér eigi sér stað einhver veruleg uppbygging.

Íslendingar hafa því miður átt erfitt með að ná saman í varnar- og öryggismálum. Í flestum öðrum þáttum utanríkismála hafa þeir náð verulegri samstöðu. Ég held að það væri mjög mikilvægt ef við gætum náð samstöðu um að umsvif væru hér í lágmarki og ég harma ef unnið er að því að skapa þá hugmynd að hér sé verið að setja niður herstöð til langs tíma. Við vitum ósköp vel að Bandaríkin og Vestur-Evrópuríkin hafa yfirburði hvarvetna á Atlantshafi, líka á svæðinu hér í kringum okkur. Það er einmitt stefna Bandaríkjastjórnar að hafa yfirburði á hafinu. Það eftirlit sem hingað til hefur farið hér fram tel ég vera nægjanlegt. En við ættum að geta verið sammála um að tortryggni og ótti er það hættulegasta sem þjóðirnar eiga við að stríða. Það er tortryggni og ótti sem er undirstaða vígbúnaðarkapphlaupsins. Þess vegna eigum við að draga úr óttanum, við eigum að draga úr tortryggninni og við eigum að vinna að því að skapa meiri jöfnuð í veröldinni. Við eigum að verja meiru fé til þróunarstarfsemi. Og ég vil taka undir þær hugmyndir, sem um það koma fram í skýrslu hæstv. utanrrh. Við eigum að gera allt sem við getum til þess að dregið sé úr vígbúnaði, að hafin sé raunveruleg afvopnun og hinum hræðilegu kjarnavopnum fækkað og þeim helst útrýmt með öllu.