02.05.1985
Sameinað þing: 78. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4726 í B-deild Alþingistíðinda. (3982)

Skýrsla um utanríkismál

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Umræður um þessa skýrslu utanrrh. ber að með nokkuð öðrum hætti en oft áður því þau þing sem ég hef starfað á og man, sem eru kannske ekki mjög mörg, nokkur þó, hefur þetta borið að með svolítið öðrum hætti. Skýrslan hefur komið hér með tiltölulega stuttum fyrirvara. Umræður um hana hefur borið að oft með býsna litlum fyrirvara. Nú var skýrslan lögð hér fram a. m. k. fyrir hálfum mánuði ef ekki þremur vikum og ákveðið með alllöngum fyrirvara hvenær hún skyldi tekin til umræðu. Þetta eru vinnubrögð sem eru betri en þau sem áður hafa verið tíðkuð og mætti taka upp í fleiri málum hér á hinu háa Alþingi. Oft hafa þm. borið fram kvartanir yfir því hvernig þessi mál hafa borið hér að, en nú er ekki ástæða til þess. Engu að síður er ekki margmennt í þingsölum nú þegar verið er að ræða þessi mjög svo veigamiklu mál.

Það verður varla sagt, a. m. k. ekki af því sem ég hef heyrt af þessari umræðu, að margt hafi komið á óvart. Ég held að svo sé ekki. Það sem ég hef heyrt af þessari umræðu hefur verið í næsta hefðbundnum stíl. Það er hins vegar eitt og annað sem er athyglisvert, en kemur kannske ekki svo mjög á óvart. Hv. 5. þm. Austurl. tók jafnan svo til orða hér að hann talaði um „svokölluð öryggis- og varnarmál“. Mér er ekki alveg ljóst hvers vegna þm. tekur svo til orða vegna þess að hér erum við m. a. að ræða svokölluð öryggis- og varnarmál íslensku þjóðarinnar þar sem við höfum búið um hnútana með ákveðnum hætti í samræmi við vilja meiri hluta þjóðarinnar.

Hann tók líka, þessi hv. þm. þannig til orða efnislega að við ættum að tryggja öryggi okkar með hlutleysi. Ég er honum ósammála um þetta og ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni, 9. þm. Reykv. Haraldi Ólafssyni, þegar hann sagði að við ættum ekki að raska því jafnvægi sem hér hefur ríkt á undanförnum árum og sem hefur tryggt okkur frið. Við eigum ekki að skapa hér tómarúm vegna þess að tómarúm sem skapast undir þessum kringumstæðum hefur tilhneigingu til þess að vera ekki mjög lengi tómarúm, þ. e. tómarúm sem þrýst er á úr ýmsum áttum er nálægt því enga stund tómarúm.

En hv. þm. Haraldur Ólafsson sagði líka annað sem ég vildi víkja að hér. Hann talaði um tvímælalausa yfirburði vestrænu ríkjanna á Norður-Atlantshafi. Ég er ekki viss um að þetta sé alveg rétt. Flotar þessara ríkja, Atlantshafsbandalagsríkjanna, hafa mjög lítið stækkað á undanförnum árum, nánast ekki neitt vegna þess að varnarmálayfirvöld þar hafa ekki fengið þær fjárveitingar til uppbyggingar sinna flota sem óskað hefur verið eftir. Hins vegar hefur hvert stórskipið á fætur öðru runnið fram úr sovéskum skipasmíðastöðvum og er þar ekkert lát á sífelldri og stöðugri uppbyggingu flota Sovétríkjanna, m. a. hér á Norður-Atlantshafi. Um þetta mætti nefna margar tölur úr ýmsum ritum, nýútgefnum m. a., en ég ætla ekki að gera það að þessu sinni. Annað, sem komið hefur fram í þessum umræðum og er líka býsna athyglisvert, kemur kannske á annan hátt á óvart og þó kannske ekki svo mjög, að Alþb. hefur verið að reyna að búa sér til nýja mynd í hugum almennings að því er þessa umræðu varðar. Það er þegar menn leggja stórveldin tvö, Sovétríkin og Bandaríkin, að jöfnu. Þetta gerði fulltrúi Alþb., hv. 5. þm. Austurl., og það sem kom mér meira á óvart er að fulltrúi Kvennalistans gerði það líka, lagði að jöfnu Bandaríkin og Sovétríkin. Nú þekkja allir sögu tengsla Alþb. og forvera þess við Sovétríkin. (Gripið fram í.) Það verður aldrei of oft rifjað upp, hv. þm. Steingrímur Sigfússon, hvernig fyrirrennari Alþb. var beinlínis hluti af alþjóðadeild Sovétríkjanna og í mjög nánum tengslum við Sovétríkin. Þetta er hluti sögunnar sem má ekki gleymast og þess vegna verður það aldrei of oft upp rifjað, einkanlega fyrir ungum mönnum í Alþb. En það kemur á óvart þegar Samtök um kvennalista leggja þessi tvö ríki að jöfnu, annars vegar einræðisþjóðfélag sovétríkjanna, hið lokaða kerfi þar sem borgaraleg réttindi í þeim skilningi sem við þekkjum fyrirfinnast ekki, þar sem menn þurfa leyfi lögregluyfirvalda til að ferðast innanlands í sínu eigin landi, þar sem svo strangur hemill er hafður á því að fólk geti myndað með sér samtök eða búið sér til lista yfir félaga að það eru ekki einu sinni gefnar út símaskrár í því landi. Hins vegar er svo annað þjóðfélag sem auðvitað er með mörgum göllum, bandaríska þjóðfélagið. Mér dettur ekki í hug að neita því eða halda því fram að það sé gallalaust.(Gripið fram í: Það hefur þó símaskrár.) Já, það hefur það, hv. þm. (GA: Við erum að tala um embætti ...) Við erum að tala um þessi tvö þjóðfélög, hv. þm. (GA: Ekki símaskrár.) Við erum að tala um þessi tvö þjóðfélög. Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir held ég að muni fá orðið næst á eftir mér, forseti, er það ekki rétt, þannig að hún getur sparað sér sínar athugasemdir þangað til hún kemur í þennan ræðustól. En að menn skuli leggja þessi tvö samfélög að jöfnu, eins og gert hefur verið í þessum ræðustól, finnst mér aldeilis með endemum. En það segir auðvitað sitt. (Gripið fram í.) Hv. þm. getur komið hér í ræðustól á eftir og talað.

Það er ýmislegt fleira sem hér hefur komið fram. Raunar hefur þessi dagur allur einkennst af umræðum um utanríkismál. Það var óneitanlega merkilegt að fylgjast með afstöðu annars stjórnarflokksins í atkvgr. um till. um ratsjárstöðvar þar sem þingflokkur Framsfl. tvístraðist eins og ákveðin tegund fugla, að stundum er sagt, út um allt. Það segir sína sögu um afstöðu þess flokks til þess varnarsamstarfs sem við erum nú aðilar að og höfum verið næsta lengi.

Í þessum umræðum, sem eiga að fjalla um utanríkismál almennt, hefur mönnum orðið mjög tíðrætt um öryggis- og varnarmál, enda ekki óeðlilegt og verður jafnan í umræðu af þessu tagi, og þá kenningu sem einn af þm. Alþb., sem á ekki sæti hér á þingi um sinn, en helgar sig því að koma nýskipan á heimsmálin, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, hóf máls á fyrir nokkrum árum um hið breytta eðli varnarstöðvarinnar í Keflavík. Þessi kenning er í meginatriðum röng vegna þess að það hefur ekki orðið nein grundvallarbreyting á eðli þeirrar starfsemi sem fram fer í Keflavík og á vegum varnarliðsins hér þó að í áranna rás hafi tækin breyst og orðið fullkomnari, eins og eðlilegt hlýtur að teljast. Ég get fyllilega tekið undir það sem hæstv. forsrh. sagði í dag í umræðum um ratsjárstöðvarnar við atkvgr. þegar hann tók efnislega þannig til orða að ef héðan væri haldið uppi eftirliti með umferð við og í kringum íslensk landsvæði, hafsvæði og okkar lofthelgi ætti að gera það með góðum búnaði. Ég veit að þeim hv. þm. sem hafa heimsótt stöðvarnar á Miðnesheiði og hafa komið inn í þá stjórnstöð, þaðan sem fylgst er með flugi flugvéla, m. a. sovéskra herflugvéla í kringum landið, er það mætavel ljóst að þessi tæki eru í senn gömul og úrelt. Það er auðvitað sjónarmið út af fyrir sig sem þeir Alþb. menn hafa uppi, að þeir vilja ekki að hér séu hafðar uppi varnir eða Ísland eigi neins konar aðild að varnarsamstarfi vestrænna þjóða, en það er að mínu mati rangt að hér hafi orðið nokkur eðlisbreyting á. Þó svo að hér eigi að endurnýja tvær ratsjárstöðvar sem áður voru starfræktar, þó svo að gamlir olíugeymar sem stofna vatnsbólum Suðurnesjamanna í hættu verði fluttir til og rými aukið nokkuð þá eru þetta engar eðlisbreytingar. Því fer víðs fjarri.

Þessi umræða á ekki eingöngu að snúast um öryggis- og varnarmál, enda þótt þau hljóti að vera drjúgur þáttur hennar. Þingflokkur Alþfl. greiddi allur í dag atkv. gegn till. hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, sem hér var til umr., og hafði þar einhuga afstöðu. Við erum sömuleiðis einhuga í þeirri afstöðu okkar að sú leið sem farin hefur verið til að tryggja varnir landsins hafi gefið góða raun, enda áttu forustumenn Alþfl. á sínum tíma þátt í að móta þá stefnu.

Ég vil, herra forseti, víkja að nokkrum öðrum þáttum í skýrslu hæstv. utanrrh. og langar þá fyrst að víkja að samstarfi Norðurlandanna, en um það hefur verið lögð fram hér sérstök skýrsla sem einnig hefur komið inn í þessar umræður. Hún er nokkuð með hefðbundnum hætti. Þó hafa meiri tíðindi gerst á vettvangi Norðurlandaráðs nú að undanförnu en oft áður þar sem samþykktar hafa verið veigamiklar skipulagsbreytingar á starfsemi Norðurlandaráðs. Vonandi leiða þær til góðs þó svo að við fulltrúar Íslands höfum haft verulegar efasemdir um ágæti þessara tillagna. Ég nefni þar sérstaklega að við höfum dregið í efa ágæti þess að sameina fjárlög Norðurlandaráðs, þ. e. hin almennu fjárlög og menningarfjárlögin, nema því aðeins að tryggt væri að sú staða, sem menningarmálin hafa haft í norrænu samstarfi, yrði áfram a. m. k. óbreytt og ekki lakari. Yfirlýsingar hafa verið gefnar um þetta og ber að vona að við þetta verði staðið.

Annað mál, sem mjög hefur borið á góma á vettvangi norrænnar samvinnu að undanförnu, er sjónvarpssamstarf fyrirhugað, sem búið er að tala um árum saman, þar sem við höfum því miður ekki haft árangur sem erfiði. Það verður að segjast alveg eins og er að þetta starf hefur ekki borið þann ávöxt sem ýmsir höfðu vænst. Nú er staða máls sú að tilraunahnöttur, sem einkum er á vegum Svía, verður sendur á loft m. a. til að endurvarpa sjónvarpsdagskrám. Norðmenn og Finnar eru þarna aðilar að líka en það hefur ekki samist um kostnaðarhlið þess máls. Hins vegar er því ekki að neita að þetta mál snertir okkur kannske ekki mjög mikið vegna þess að sendistyrkur þessa hnattar er með þeim hætti að dagskrár frá honum ná ekki hingað til Íslands heldur verður að nota þar annan fjarskiptahnött til að koma því efni áleiðis til okkar.

Við eigum auðvitað ýmsa aðra möguleika á sjónvarpssamstarfi, m. a. við ýmsar Evrópuþjóðir sem hafa tekið höndum saman um að senda út sameiginlega dagskrá, kallaða Olympus-dagskrá. Þetta eigum við auðvitað að skoða líka, en við eigum samt ekki síður að horfa til Norðurlandanna og leita leiða til að starfa með þeim í þessum efnum þegar samstarfsgrundvöllur er fyrir hendi. Mér hefur hins vegar þótt nokkuð á það skorta að fyrir lægi nokkur skýr og mótuð stefna af hálfu íslenskra stjórnvalda í þessum efnum.

Við höfum tekið þátt í umræðum um þennan Tele-X hnött Svía, en í mínum huga orkar það nokkuð tvímælis svo sem horfir hvert erindi við eigum þar, m. a. með tilliti til þess mikla kostnaðar sem mér sýnist að muni verða því starfi samfara. Við eigum að skoða það mál vel og fordómalaust en ljóst er að einangrun Íslands í þessum efnum er senn úr sögunni. Sjónarmið Svía í sambandi við þennan gervihnött, sem þeir eru að senda á loft, eru fyrst og fremst þau að þeir hafa verið og séu að selja sína tækniþekkingu og veita sínum stórfyrirtækjum samkeppnismöguleika og möguleika til að þróa sína kunnáttu og þekkingu á þessum sviðum. Þeim hlýtur að vera það ljóst nú að hinar Norðurlandaþjóðirnar munu ekki kaupa þessa þjónustu á hærra verði en hún býðst frá öðrum. Mér sýnist að það liggi alveg ljóst fyrir og gerðist raunar á þingi Norðurlandaráðs hér síðast að þessu máli virtist þoka nokkuð áleiðis.

Hér í skýrslu utanrrh. er kafli um kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndunum. Ég þarf ekki að gerast mjög langorður um það. Hér hafa verið tillögur til umræðu á Alþingi um þetta efni. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að kanna þau mál fordómalaust. Í haust verður haldin ráðstefna norrænna þingmanna um þetta efni. Ég er þeirrar skoðunar að þm. allra flokka eigi að taka þátt í þeirri ráðstefnu. Við eigum að skoða með hverjum hætti eða hvort Ísland getur tengst þessum umræðum. En það er hins vegar bjargföst sannfæring mín að einhliða yfirlýsing Norðurlandanna um kjarnorkuvopnaleysi — þau eru reyndar þegar kjarnorkuvopnalaus — sé gagnslaus, slík yfirlýsing verði að eiga sér stað í víðara samhengi, hún verði að njóta einhvers konar tryggingar af hálfu stórveldanna. Einhliða yfirlýsing í þessu efni er marklaust plagg og einskis virði. En ég ítreka það að við eigum að leita leiða til að finna raunhæfa leið til að ná fram slökun í þessum efnum og tryggja það — það er svolítið erfitt að halda ræðu í þessum ræðustól, virðulegi forseti, þegar sex þm. eru í salnum og þrenn mismunandi samtöl eiga sér stað, en ég hyggst nú samt halda áfram máli mínu.

Ég held að við eigum að kanna þessi mál af fullkomnu hleypidómaleysi. En við eigum að gera okkur grein fyrir því að einhliða yfirlýsing, sem ekki nýtur einhvers konar baktryggingar stórveldanna, er einskis virði. Hún þarf að vera hluti af víðtækara samkomulagi sem næði til stærra landsvæðis, og þá fyrst og fremst Kola-skagans sem okkur stendur hér mest ógn af, mesta víghreiðri veraldarinnar. Allt hlýtur þetta að blandast saman og menn verða að horfa á þetta með raunsæjum huga.

Í skýrslunni er líka vikið að Suður-Afríku og þróun mála þar. Ég vildi aðeins stuttlega minna á það hér að fyrir tveimur til þremur árum fluttum við þm. Alþfl. till. hér á Alþingi oftar en einu sinni, oftar en tvisvar, ef ég man rétt, um að stofna hér á landi landsnefnd til að styðja aðgerðir gegn apartheid-stefnu eða kynþáttaaðskilnaðarstefnu stjórnarinnar í Suður-Afríku. Þessi till. hlaut því miður ekki hljómgrunn á Alþingi þá en ég held að ástæða sé til að flytja hana hér aftur þótt e. t. v. kunni það að verða orðið of seint á þessu þingi til þess að vænta þess að hún nái samþykki. Mín skoðun er sú að stjórnvöld hér — og þá er ég ekki bara að tala um þessa ríkisstj. heldur ýmsar sem á undan henni hafa setið — hafi verið heldur slök í gagnrýni á stjórnvöld Suður-Afríku. Hér hefur ekki verið höfð uppi sama harka eins og hefur verið t. d. af hálfu ríkisstjórna Norðurlandanna og er það miður. Ég held að þarna þurfi að verða breyting á. Við eigum að hafa þarna hreinan skjöld, hreina og skýra afstöðu, vegna þess að það sem hefur verið að gerast í Suður-Afríku að undanförnu er því miður aðeins vottur þess sem þar hlýtur að koma, þess ófremdarástands og þeirra hörmunga sem þar munu skapast þar sem lítill minni hluti kúgar stóran meiri hluta, kveikjuþráðurinn í púðurtunnunni, sem er Suður-Afríka, styttist dag frá degi.

Þá er hér vikið að ýmsum sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna. Ég stikla hér aðeins á fáeinum þáttum, þess er ekki kostur í þessari umræðu að gera annað. Það eru enn ýmsir þm. á mælendaskrá og ég skal reyna að vera ekki mjög langorður. Hér er sérstakur kafli um Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna sem ég vildi gera stuttlega að umtalsefni. Þannig er mál með vexti að fulltrúar menningarmálanefndar Norðurlandaráðs, formaður, varaformaður og ritari, heimsóttu Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir tæpum tveimur vikum í þeim tilgangi að koma á sambandi milli Norðurlandaráðs og þessarar, að ég hygg, elstu sérstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Þessi stofnun hefur verið mikið til umræðu að undanförnu og sætt harðri gagnrýni og vafalaust á margan hátt réttmætri. Nú hefur það gerst innan UNESCO að Bandaríkin hafa hætt þátttöku í þeirri stofnun vegna ágreinings um ýmis mál sem væri kannske áhugavert að ræða hér en ég held að sé ekki ástæða til. Vissulega er margt til í þeirri gagnrýni sem að þessari stofnun hefur verið beint og stjórn hennar kannske ekki síst. Þannig hefur þessi stofnun nú misst fjórðung tekna sinna. Nú er næstum víst að Bretar munu líka hætta þátttöku í UNESCO, þeir hafa sagt að þeir muni hætta um næstu áramót verði ekki vissum skilyrðum fullnægt. Mér sýnist allt benda til þess að Margaret Thatcher forsætisráðherra Breta muni fylgja í fótspor skoðanabróður síns í Hvíta húsinu hvað sem öllu liður og e. t. v. kunna fleiri ríki að fylgja þar á eftir. Þar hafa verið nefnd til sögunnar bæði Singapore og Japan og þá væri þessi stofnun kannske búin að missa 35–40% af tekjum sínum.

Nú er það svo að þeir sem eru orðnir fertugir eins og þessi stofnun eru stundum orðnir svolítið feitir og værukærir og ég held að það gildi um UNESCO. Ég held að stofnunin hefði ekkert slæmt af því að fara í megrunarkúr. Þess vegna má vel vera að sú kreppa, sem UNESCO nú gengur í gegnum eða verður að lifa við, eigi eftir að versna áður en ástandið verður betra. Ég hef hins vegar engar áhyggjur af því að þessi stofnun líði undir lok. Hún á í miklum erfiðleikum núna og hún á eftir að rétta við og ná áttum, ná vopnum sínum.

En sérstök ástæða er til að vekja athygli á því að innan UNESCO og fyrir frumkvæði Norðurlandanna er nú verið að vinna að umbótatillögum aðallega um grisjun starfsskrár. Það er ánægjulegt til þess að vita að Norðurlöndin hafa forustu um þetta verk og að af hálfu Norðurlandanna hefur þar forustu prófessor Andri Ísaksson sem situr fyrir hönd Norðurlandanna í framkvæmdastjórn UNESCO og er einn af varaformönnum framkvæmdastjórnarinnar. Mér er ánægja að skýra frá því að ég varð þess mjög áþreifanlega var í þessari tveggja daga heimsókn til UNESCO hversu mikils álits hann nýtur þar og hversu gott starf hann er þar talinn vinna. Það er ánægjulegt þegar við Íslendingar getum þannig verið fremstir meðal jafningja. Það er líka ástæða til að geta þess að innan Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar situr Íslendingur í 30 manna framkvæmdastjórn af hálfu Norðurlandanna, Almar Grímsson, og vinnur þar mikið og gott starf eftir því sem ég best veit. Mér finnst það einstaklega ánægjulegt að í þessum tveimur stóru sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna skuli Íslendingar, eins og ég sagði áðan, standa . fremstir meðal jafningja og okkur er vissulega heiður af því.

Annar þáttur í skýrslu hæstv. utanrrh., sem er hér í tengslum við Norðurlandasamvinnuna líka, er um samvinnu við Grænlendinga. Þar vildi ég sérstaklega minnast á eitt mál. Nú er starfandi þingmannanefnd Grænlendinga, Færeyinga og Íslendinga sem væntanlega mun hittast í haust. En ég held að það sé einn málaflokkur þar sem við eigum að bjóða Grænlendingum og raunar Færeyingum líka sérstaka samvinnu. Þar á ég við skipti á sjónvarpsefni. Báðar þessar þjóðir eru tiltölulega nýbúnar að koma á legg sínu eigin sjónvarpi. Við höfum þar hins vegar næstum því 20 ára reynslu, 19 ára reynslu á næsta hausti. Ég held að við höfum af ýmsu að miðla í þeim efnum og ég veit að eftir samstarfi hefur verið leitað af þeirra hálfu. Við eigum að hlúa að því og gera það sem í okkar valdi stendur til þess að veita m. a. tækniaðstoð og til þess að greiða fyrir skiptum á dagskrárefni við bæði Færeyinga og Grænlendinga.

Ég tek undir það sem kom fram hér í umr. fyrr í dag — ég held að það hafi verið hjá hv. þm. Haraldi Ólafssyni — um það ófremdarástand sem er á samgöngum milli Íslands og Grænlands. Ég geri mér fyllilega ljóst að það er ekki einfalt mál og ekki auðleyst en ég minnist þess að ég hitti í Danmörku Íslending sem er búsettur í Græniandi og er þar með fjölskyldu sína. Fyrir hann er það hreinlega útilokað að koma í heimsókn til Íslands kostnaðarins vegna. Fargjöldin ein nema hátt í árslaunum. Þetta er mál sem við þurfum að skoða sérstaklega og sjá hvort ekki er hægt að finna einhverjar aðrar lausnir á en þær sem nú er notast við vegna þess að þær eru ekki nothæfar.

Í þessari skýrslu er líka vikið að hvalveiðimálum. Þau komu nokkuð til umræðu hér í Sþ. s. l. þriðjudag og ég skal ekki fjölyrða frekar um það þó að vissulega mætti margt og mikið þar um segja. Ég ítreka bara það sem ég sagði í þeim umræðum að við þurfum að leggja aukna rækt við að kynna okkar málstað í þessum málum vegna þess að við höfum þarna góð og gild rök til þess að halda áfram hvalveiðum undir vísindalegu eftirliti. Við höfum það meðan engar vísindalegar röksemdir eru fyrir hendi um það að þessir hvalastofnar séu í hættu. En enn ítreka ég það að þarna er við mjög einstrengingslegt ofstopafólk að ræða sem berst hart gegn okkur og hefur lítinn skilning á vandamálum þeirra þjóða sem byggja norðurhvel og þeim þætti sem þetta er í okkar lífi, sögu og menningu. Þess vegna þurfum að að verja nokkru fé til að kynna okkar málstað í þessum efnum, eins og þessi samtök gera á öllum ráðstefnum um náttúruvernd og annað, þar sem kostur er. Þar eru fulltrúar þeirra sem kenna sig við frið og hinn græna lit og halda þar sínum málum fram en okkar rök heyrast þar hins vegar ekki. Þetta tel ég afar slæmt og mikinn skaða og að því fé væri vel varið sem varið væri til að kynna okkar málstað á þessum vettvangi.

Herra forseti. Það er vissulega margt hér fleira sem ástæða væri til að gera skil. Ég held að við verðum hvort sem okkur líkar betur eða verr að snúa okkur að því að endurskoða svolítið afstöðu okkar til aðstoðar við þróunarlöndin. Í fyrsta lagi þurfum við að leggja þar meira af mörkum en við höfum gert. Við getum gert það á fjölmörgum sviðum. Við þurfum líka að endurmeta o skoða hvernig þessi hjálp getur best komist til skila. Ég hef vissar efasemdir um hagkvæmni þeirra aðferða sem nú eru notaðar. Ég held að það þurfi að leggja á ráðin að bestu manna yfirsýn um það hvernig okkar takmarkaða fjármagn, sem ævinlega hlýtur að vera svo, getur betur nýst í þessum efnum, það er mjög brýnt.

Við gerum okkur kannske ekki alltaf fyllilega grein fyrir þeim vandamálum sem þessar þjóðir eiga við að stríða. Við horfum kannske einkum á að þær kunni ekki að veiða eða að verka fisk, sem er lítilvægt atriði í þessu máli, en horfum kannske fram hjá því að hundruð þúsunda þurfa kannske að ganga hálfa dagleið til að afla eldiviðar og svo jafnlangt til baka. Við horfum kannske líka fram hjá því að helmingurinn af íbúum jarðarinnar, þ. e. 2000 milljónir einstaklinga, kvenna, barna, manna, hafa ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni, að ekki sé nú talað um aðra almenna hreinlætisaðstöðu. Þetta hefur það í för með sér að a. m. k. 5600 milljónir manna þjást af margs konar sjúkdómum sem eru bein afleiðing af menguðu vatni. Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna hafa metið það svo að ef allir íbúar jarðarinnar ættu aðgang að heilnæmu drykkjarvatni mundi barnadauði þegar í stað minnka um helming.

Það er kominn tími til að við förum ofan í saumana á þeirri opinberu afstöðu sem hér hefur verið til þessara mála með tilliti til þess hvernig við getum best komið að liði í þessum efnum. Mín sannfæring er hiklaust sú að þar komi ýmsar aðrar leiðir til greina en þær sem farnar eru í dag. sömuleiðis, herra forseti, að þrátt fyrir þær skoðanir sem ég hef lýst á varnar- og öryggismálum er það líka mín sannfæring að við eigum að gera það sem unnt er á hverjum þeim vettvangi þar sem þau verk er að vinna til þess að stuðla að afvopnun og draga úr spennu og viðsjám í veröldinni. Það gerum við best með því að vinna að þeim málum með þeim þjóðum sem eru hér í kringum okkur og með því að vera í senn einbeittir og raunsæir. Óraunsætt draumórahjal er verra en ekki í þessum efnum.