03.05.1985
Efri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4742 í B-deild Alþingistíðinda. (3988)

416. mál, þingsköp Alþingis

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Við 1. umr. þessa frv. gerði ég fáeinar athugasemdir við efni þess og er skemmst frá því að segja að hv. þingskapanefndin, sem haft hefur þetta frv. til meðferðar milli 1. og 2. umr. hér í hv. deild, hefur fjallað um þær svo og um athugasemdir annarra hv. þm. og eins og fram kom í máli hv. frsm. n. hefur nefndin komist að samkomulagi í helstu atriðum þótt enn kunni eitthvað að bera á milli sums staðar.

Við lokaafgreiðslu frv. í nefnd varð það að samkomulagi að einstakir nm. áskildu sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. við frv. þótt ekki væri það tekið sérstaklega fram í nál. Því hef ég á þskj. 838 leyft mér að flytja brtt. við 8. gr. frv. þess efnis að tekið verði upp aftur það fyrirkomulag, sem í gildi var fram til ársins 1972, að kjósa til Ed. í upphafi hvers þings. Upphaflega gerði ég till. um að hverjum þingflokki væri heimilað að láta kjósa um fulltrúa sína í Ed. í upphafi hvers þings ef hann óskaði. En við nánari athugun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að heppilegra sé að kosið sé til allrar deildarinnar í einu þar sem menn geta þá í hvert skipti haft yfirsýn yfir samsetningu deildarinnar, ef svo má að orði komast, og geta þá tekið mið af því við kosningu hverju sinni. Jafnframt geta menn þá tekið mið af stöðu ríkisstj. í deildum hverju sinni.

Eins og fram kom í máli hv. frsm. þingskapanefndar og í þingskapanefndinni sjálfri kom fram það sjónarmið að af þessu fyrirkomulagi, þ. e. því fyrirkomulagi að kjósa á hverju ári til Ed., mundi skapast órói í þingstörfum, eins og það var orðað. En ég fæ ekki séð hvernig það getur staðist þar sem hlutfall fulltrúa þingflokkanna breytist vitaskuld ekki. Ef þetta óróasjónarmið ætti við einhver rök að styðjast lægi auðvitað beinast við að kjósa í nefndir einnig fyrir allt kjörtímabilið, forseta, varaforseta og skrifara sömuleiðis. En það er ekki gert og það hafa engar tillögur komið fram um að breyta því fyrirkomulagi.

Svo að ég víki aðeins aftur að stöðu ríkisstj. í deildum sem hv. frsm. gerði hér að sérstöku umræðuefni, þá er það álitamál hvort binda eigi lýðræðisskipan þingsins á þann veg að þar geti ekki orðið breytingar á ef samviska þm. býður þeim svo við að horfa. En það var ekki það atriði sem vakti fyrir mér við flutning þessarar brtt. heldur fyrst og fremst það að rétt eins og að kjósa til nefnd í upphafi hvers þings, þá veitir kosning til Ed. í upphafi hvers þings þingflokkum nauðsynlegan sveigjanleika til að dreifa vinnukrafti sínum — en við hv. þm. erum vitaskuld vinnukraftur og ég trúi því ekki að nokkur hv. þm. hafi gleymt því — eins og þingflokknum þykir best henta hverju sinni. Þar með fæst sveigjanleiki fyrir þingflokkinn til að aðlaga sig þeim breytingum sem kunna að verða á kjörtímabilinu og sem ófyrirsjáanlegar kunna að vera í upphafi þess. Þar má nefna t. d. fráfall kjörins þm. á kjörtímabilinu, breytingar á málefnaáherslum og þar fram eftir götum.

Þessi sveigjanleiki, sem ég er hér að ræða um, er held ég einkum og sér í lagi mikilvægur fyrir litla þingflokka sem hafa fáum þm. á að skipa og eiga því meira undir því komið en stórir þingflokkar að hægt sé að hnika til mönnum þannig að þeir nýtist sem best í þingstarfinu á hverjum tíma. Þetta er meginhugsunin sem liggur að baki þeirrar brtt. sem ég ber hér fram á þskj. 838.

Hvað önnur atriði þessa frv. varðar sem ég gerði athugasemdir við við 1. umr. um málið, þá tel ég að vel hafi verið komið til móts við mismunandi sjónarmið í þingskapanefndinni. Ég tel að tímamörk í umræðum í Sþ. bæði hvað varðar fsp. og þáltill. séu vel við unandi og bendi jafnframt á brtt. sem þingskapalaganefndin flytur á þskj. 822 þar sem rýmkuð eru ákvæði 28. gr. á þann veg að þessi tímamörk gildi ekki um staðfestingu framkvæmdaáætlana, alþjóðasáttmála eða milliríkjasamninga.

Einnig gerði ég við 1. umr. um málið afhugasemd við 34. gr. frv. þar sem svonefnd forföll eru eina ástæðan sem nefnd er fyrir nauðsynlegri fjarveru þm. frá þingi. Um það var gott samkomulag og sameiginlegur skilningur í hv. þingskapalaganefnd að forföll í þessu samhengi gætu náð yfir allar hugsanlegar ástæður sem hamlað geta þm. setu á þinginu og sé þm. eftir sem áður kleift að tilgreina ástæður fjarveru sinnar eins og hann eða hún kýs. Ég er með þessum skýringum og skilningi sátt við óbreytt orðalag 34. gr. og við frv. eins og það liggur nú fyrir með brtt. frá þingskapalaganefnd að undanskilinni 8. gr. vitaskuld sem ég hef hér flutt brtt. um.