03.05.1985
Efri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4756 í B-deild Alþingistíðinda. (3993)

416. mál, þingsköp Alþingis

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það er alrangt hjá seinasta ræðumanni, hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni, að ég hafi engu svarað ábendingum hans hér áðan. Það er líka rangt hjá honum að ég hafi tekið svo til orða að engin samráð hafi verið höfð um þetta mál. Það var ekki það sem ég sagði. Ég sagði að auðvitað hefðu ýmis samráð verið höfð um málið en ekki hefði verið leitað samkomulags um það á ákveðnum tímaskeiðum þess eins og t. d. að á því augnabliki þegar nefndin stóð frammi fyrir því að flytja málið og eftir að hafa hlýtt á athugasemdir þingflokka var ekki leitað samkomulags við þingflokkana um málið í þeim búningi og reyndar heldur ekki nú þegar verið er að afgreiða málið úr nefnd.

Eins er með önnur atriði sem hann sagði að ég hefði ekki svarað hér áðan. Ég ræddi ítarlega um það að vissulega væru tvær umr. um þáltill. en það væri bara svo mikilvægt þegar sérstaklega stæði á að fyrri umr. gæti tekið fullan tíma. Þegar hann ætlar að fara að svara mér varðandi útvarpsumræður og þeirri ábendingu minni að þetta sé alveg hliðstætt við útvarpsumræður segir hann: Ákvæði um útvarpsumræður eru til að takmarka ræðutíma. Þetta er alrangt. Hann veit það vel sjálfur að í 56. gr. þingskapa er sérstaklega tekið fram að eftir að útvarpsumræðum er lokið getur umr. haldið áfram eftir venjulegum reglum. Það er ekkert verið að takmarka umr. með því að ákveða útvarpsumræður, það er bara alrangt.

Hann vildi líka túlka orðalag í 32. gr. þannig að það væri misskilningur að þar væri eitthvert slíkt orðalag sem benti til þess að fleiri en eitt mál væru tekin fyrir á þessum 30 mínútna ræðutíma. En í tillgr. stendur, með leyfi forseta:

„Í upphafi þingfundar skal forseti tilkynna hvaða mál fyrirhugað er að taka til umr. utan dagskrár. Málshefjandi hvers máls má eigi tala lengur en þrjár mínútur.“

Þetta orðalag sýnir svo ljóst sem verða má að verið er að gefa undir fótinn með það að fleiri en eitt mál eru til umr. á þessum 30 mínútum. Ég þykist vita að málsmekkur og tilfinning hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar sé í góðu lagi og hann getur því ekki andmælt því að gert sé ráð fyrir að um fleiri en eitt mál geti verið að ræða.