10.10.1984
Sameinað þing: 1. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Aldursforseti (Stefán Valgeirsson):

Mér hefur borist svohljóðandi bréf:

„Alþingi, 1. sept. 1984.

Þar sem ég hef verið ráðinn bankastjóri Útvegsbanka Íslands leyfi ég mér að óska eftir lausn frá störfum sem 2. þm. Norðurl. e.

Virðingarfyllst.

Lárus Jónsson.“

Skv. þessu bréfi tekur Björn Dagbjartsson sæti á Alþingi sem 5. þm. Norðurl. e. þar sem Halldór Blöndal verður hér eftir 2. þm. Norðurl. e. Björn Dagbjartsson hefur setið áður á Alþingi á þessu kjörtímabili og þarf því ekki að athuga kjörbréf hans. Býð ég hann velkominn til starfa.

Þá hefur borist þetta bréf:

„Reykjavík, 9. okt. 1984. Skv. beiðni Kristínar S. Kvaran, 1. landsk. þm., sem vegna barnsburðar mun ekki geta sinnt þingstörfum á næstunni, leyfi ég mér með skírskotun til 130. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að 1. varamaður landsk. þm. Bandalags jafnaðarmanna, Kristófer Már Kristinsson, kennari í Reykholti, taki sæti á Alþingi í fjarveru hennar.

Guðmundur Einarsson,

formaður þingflokks Bandalags jafnaðarmanna.“

Kristófer Már Kristinsson hefur setið á Alþingi á þessu kjörtímabili. Býð ég hann velkominn til starfa.

Þá hefur borist svohljóðandi bréf:

„Reykjavík, 9. okt. 1984.

Skv. beiðni Garðars Sigurðssonar, 4. þm. Suðurl., sem vegna veikinda mun ekki geta sinnt þingstörfum á næstunni, leyfi ég mér með skírskotun til 130. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að varamaður Alþb. í Suðurlandskjördæmi, Margrét Frímannsdóttir, oddviti, Stokkseyri, taki sæti á Alþingi í forföllum hans.

Ragnar Arnalds,

formaður þingflokks Alþb.“

Margrét Frímannsdóttir hefur einnig tekið sæti á Alþingi á þessu kjörtímabili. Býð ég hana velkomna til starfa.

Þá er eitt bréf hér enn sem er svohljóðandi:

„1. okt. 1984.

Þar sem ég vegna sérstakra anna heima fyrir get ekki sinnt þingstörfum næstu tvær vikur leyfi ég mér með tilvísun til 130. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að varaþm. Alþb. í Vesturlandskjördæmi, Jóhann Ársælsson skipasmiður, Akranesi, taki sæti á Alþingi í fjarveru minni.

Skúli Alexandersson,

4. þm. Vesturl.“

Jóhann Ársælsson hefur ekki áður tekið sæti á Alþingi. Vil ég biðja kjörbréfanefnd að athuga kjörbréf hans. Verður gefið um það bil 5 mínútna hlé á meðan kjörbréfanefnd er að störfum. — [Fundarhlé.]