03.05.1985
Efri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4759 í B-deild Alþingistíðinda. (4001)

475. mál, ríkislögmaður

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um ríkislögmann á þskj. 824. Með frv. því til laga sem hér liggur fyrir er lagt til að komið verði á fót sjálfstæðri stofnun embættis ríkislögmanns sem fari með nánar tilgreind verkefni sem talin eru í 2. gr. frv. Það er fyrst og fremst um að ræða málflutning af hálfu ríkisins í einkamálum, uppgjör bótakrafna auk þess sem einstökum ráðherrum er veitt heimild, ef þeir sjálfir kjósa, að óska lögfræðilegrar álitsgerðar ríkislögmanns og aðstoðar við vandasama eða yfirgripsmikla samningsgerð.

Það skal tekið fram að hér er ekki verið að koma á fót stofnun til að axla ný verkefni á vegum ríkisins því að ríkið hefur um alllangt skeið að miklu leyti notað eigin málflutningsmenn, þ. e. ríkisstarfsmenn, við vörn og sókn dómstóla sem ríkið er aðili að. Það hafa einkum verið málflutningsmenn innan fjmrn. sem hafa sinnt þessum verkefnum hingað til. Um það hvernig á þessum málum hefur verið haldið hingað til og hvaða venjur hafi verið að mótast á síðustu árum vísast að öðru leyti til almennra athugasemda við lagafrv. þetta.

Það sem hér er um að ræða er fyrst og fremst breyting í stjórnarfarsréttarlegu tilliti með því að starfsemi, sem verið hefur innan fjmrn., er tekin út úr því og sett undir sjálfstæða stofnun. Umsvif fjmrn. minnka að sjálfsögðu sem því nemur.

Hugmyndin um stofnun embættis ríkislögmanns er í rauninni ekki ný af nálinni og allnokkuð er liðið síðan henni skaut fyrst upp. Á bak við þau sjónarmið er að sjálfsögðu sú staðreynd að ríkislögmaður er í raun starfsmaður hinna ýmsu ráðherra og ríkisstofnana eftir því hvernig aðild ríkisins er ákveðin í hverju einstöku máli af þeim lögmönnum sem kröfurnar gera á hendur ríkinu hverju sinni. Þetta hefur þýtt að ráðh., sem stefnt er til að þola dóm, hefur þurft að eiga vörn málsins undir starfsmönnum í rn. annars ráðh., þ. e. fjmrh. Þetta hefur mönnum lengi verið ljóst að væri alls ekki eðlilegt.

Ef litið er til þess hvaða háttur er á þessu hafður í grannlöndum okkar þá er sú skipun víða fyrir hendi í grundvallaratriðum sem hér er lagt til að verði tekin upp, þ. e. að til staðar eru sjálfstæðar stofnanir, embætti ríkislögmanns, sem annast sókn og vörn einkamála fyrir hönd hinna ýmsu ráðherra eða stofnana ríkisins. Grundvöllurinn er með þessum hætti hinn sami, þ. e. að um sjálfstæða stofnun er að ræða en ekki starfsemi innan einhvers ákveðins ráðuneytis. Nokkur munur er hins vegar á hlutverki ríkislögmanns frá einu landi til annars þar sem þeim er sums staðar ekki aðeins falið málflutningsumboð heldur einnig aðild mála fyrir hönd ríkisins. Út í það verður ekki farið nánar hér en þó má geta þess að hlutverk ríkislögmanns í Noregi, sem hér hefur verið nokkuð litið til, er að sumu leyti enn víðtækara en hér er lagt til að upp verði tekið, enda mótast þessar tillögur að miklu leyti af ólögfestum venjum sem verið hafa að mótast á alllöngum tíma.

Það eru vissulega vandasöm og mikilvæg verkefni sem ríkislögmaður hefur haft með höndum og sem honum er áfram ætlað að hafa með höndum. Í því sambandi er bent á að ríkið er aðili að mörgum hinna stærstu einkamála sem fyrir dómstólana koma. Ég vil þó benda sérstaklega á að ekki er tilætlunin að stofna til neins bákns svo sem hverjum má vera ljóst sem les upphafsákvæði 3. gr. frv. Skv. 2. mgr. 3. gr. er heimilt að fela lögmönnum utan embættisins meðferð einstakra mála ef það þykir heppilegra. Hér er rétt að hafa í huga að ýmsir lögfræðingar, sem eru í ráðuneytum og ríkisstofnunum, eru meiri eða minni sérfræðingar á þeim lögfræðilegu sérsviðum sem þeir starfa á. Það getur því stundum verið besta lausnin að slíkir starfsmenn fylgi sérhæfðum og einhæfum málum eftir þegar þau koma til kasta dómstólanna svo sem dæmi eru til. Frv. gerir ráð fyrir að þeirri leið verði haldið opinni áfram. Sama getur gilt um sjálfstæða starfandi lögmenn. Hins vegar er það svo að fjöldi mála er þannig vaxinn að heildarsýnar er þörf og þá einkum á þann veg að öllum þráðum máls sé safnað saman og það lagt fyrir dómstóla þannig að heildarmyndin sé skýr. Til þess að besta lausnin fáist þarf að samræma og halda utan um þennan málaflokk af manni sem er reyndur málaflutningsmaður og reyndar á þetta einnig við um ráðleggingarstarfið því að það er oft fólgið í því að geta lagt mat á hver muni verða afstaða dómstólanna til máls. Ríkislögmanni er þannig ætlað að halda utan um þennan mikilvæga málaflokk þótt öllum leiðum sé haldið opnum til að aðrir flytji einstök mál ef sérþekking eða annað gerir það heppilegra.

Um efnisatriði frv. vísast að öðru leyti til ítarlegra athugasemda sem því fylgja Það þarf vart frekari skýringar við. En á það skal bent að í athugasemdum með 2. gr. er nákvæmlega útlistað til hvaða aðila innan ríkiskerfis málflutningsumboð ríkislögmanns nær og í hvaða tilvikum þarf sérstakt umboð til málflutnings við aðila innan ríkiskerfisins. Þar er einnig að finna umfjöllun á því hvaða aðilar falla algerlega utan ramma þeirra verkefna sem ríkislögmanni er ætlað að hafa með höndum.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að gera það að till. minni að frv. verði vísað til hv. allshn. og 2. umr. að þessum umr. loknum.