03.05.1985
Efri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4761 í B-deild Alþingistíðinda. (4004)

106. mál, tannlækningar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Hæstv. forseti. Heilbr.- og trn. hefur haft þetta mál til meðferðar um nokkuð langan tíma. Nefndin hefur fjallað um frv. á mörgum fundum og fengið til viðræðna Ingimar Sigurðsson deildarlögfræðing, Magnús R. Gíslason yfirtannlækni tannheilsudeildar heilbr.- og trmrn. og Guðjón Magnússon, settan landlækni. Umsagnir bárust frá Tannlæknafélagi Íslands, tannlæknadeild Háskóla Íslands, Félagi aðstoðarfólks tannlækna og Guðjóni Magnússyni, settum landlækni.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með brtt. sem fluttar eru á sérstöku þskj., þ. e. þskj. 786. Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Allir nm. rita undir nál.

Ég tel rétt að fara nokkrum orðum um brtt. n. Við 2. gr. frv. er brtt. 2. mgr. orðist svo:

„Áður en leyfi er veitt skv. þessari grein skal leita umsagnar tannlæknadeildar Háskóla Íslands um hæfni umsækjanda til tannlæknisstarfa. Heimili er ráðh. að synja um leyfi ef umsögn er neikvæð.“

Það er tekin burt tilvísun í 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga og sett í almenna grein sem verði viðbótargrein og ný 4. gr. og taki yfir öll tilvik án tillits til þess hvort um er að ræða próf frá Háskóla Íslands eða frá erlendum skólum eða hvort um er að ræða íslenskan eða erlendan ríkisborgara.

2. brtt. er við 3. gr. Greinin orðist svo:

„Veita má þeim leyfi skv. 1. gr. sem að mati tannlæknadeildar Háskóla Íslands hefur lokið sambærilegu prófi og um getur í 2. gr. Tannlæknadeild getur sett sem skilyrði fyrir meðmælum sínum að umsækjandi sanni deildinni hæfni sína með prófi. Sé um erlendan ríkisborgara að ræða skal hann enn fremur sanna fullnægjandi kunnáttu sína í íslensku máli, mæltu og rituðu. Binda má leyfið við ákveðinn tíma. Leita skal umsagnar Tannlæknafélags Íslands og landlæknis.

Gerist Ísland aðili að milliríkjasamningi um gagnkvæma viðurkenningu á starfsréttindum tannlækna skal farið eftir ákvæðum þessarar greinar eftir því sem við getur átt og samrýmst viðkomandi milliríkjasamningi.“

Hér er ekki um efnisbreytingu að ræða að öðru leyti en því að felld er niður setningin að umsækjandi skuli sanna að 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga eigi ekki við um hagi hans. Þess eru dæmi að erfitt kann að vera fyrir erlendan ríkisborgara að færa sönnur á slíkt. Ný grein, er verði 4. gr., taki almennt á þessu eins og fyrr segir. Að öðru leyti er um orðalagsbreytingar að ræða sem gera þessa grein nokkru skýrari og hnitmiðaðri.

Þá er það 3. brtt.

„Á eftir 3. gr. komi ný grein er verði 4. gr. og orðist svo:

Heimilt er að synja manni um tannlækningaleyfi eigi 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga við um hagi hans.“

4. brtt. er við 5. gr. er verði 6. gr. Greinin orðist svo: „Verksvið tannlækna tekur til forvarna, greiningar og meðferðar á tannskemmdum, tannskekkju og tannvöntunar, til sjúkdóma, slysa og galla er þessu tengjast.“

Hér er í raun og sannleika um það að ræða að skilgreining á verksviði tannlækna er nokkru nákvæmari en fram kemur í frv. Það varð allmikil umræða um einmitt 6. gr. í hv. heilbr.- og trn., ekki síst um að þar stendur „aðlægir vefir“. Menn voru ekki alveg sáttir við þetta orðfæri og það lá ekki fyrir í hugum manna hvar aðlægir vefir munnholds enduðu. Reyndar var minnst á í umræðunum „tyggingarfæri“ sem fleirum en færrum þótti fráleitt.

5. brtt. er við 6. gr., er verði 7. gr., og orðist greinin svo:

„Um lyfjaávísanir tannlækna fer skv. lyfjalögum nr. 108/1984 og reglugerðum settum skv. þeim.“

Hér hafa orðið smávægileg mistök. Á þskj. þar sem brtt. eru tíundaðar er getið um lyfjalög nr. 49 frá 1978. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en þetta verði leiðrétt, því að hér á að sjálfsögðu að geta um þau lög sem eru nýrri af nálinni.

Um 6. gr. urðu allmiklar umræður, ekki síst um það með hvaða hætti læknar ávísuðu lyfjum til sjálfs sín og sjúklinga. Um þetta eru skýr ákvæði og ég held að rétt væri að vitna til 16. gr. lyfjalaga nr. 108 frá 1984. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Lyfjanefnd gerir tillögur að reglugerð um gerð lyfseðla og afgreiðslu lyfja í samráði við landlækni.

Í reglugerð þessari skal m. a. kveða á um eftirfarandi afriði:

1. Hver lyf megi einungis láta út gegn lyfseðli og hve oft gegn sama lyfseðli.

2. Hversu háttað skuli áritun á ílát (afhendingarílát) undir fullgerð lyf.

3. Ávísun lyfja í síma.

4. Ávísun ávana- og fíknilyfja.

5. Ávísun lyfja til notkunar í skipum og loftförum.

6. Rétt læknisefnis til að ávísa lyfjum.“

Þessu næst er rétt að líta til 12. gr. í reglugerð um lyfseðla og afgreiðslu lyfja, en þar stendur í a-lið: „Tannlæknum er heimilt að ávísa sjálfum sér til nota við störf sín þessum lyfjum“. Síðan er löng upptalning og eflaust nokkuð nákvæm á þeim lyfjum sem umræddir læknar mega ávísa sjálfum sér.

B-liður: „Tannlæknum er heimilt að ávísa sjúklingum sínum þessum lyfjum“. Þar er sömuleiðis mjög löng og vafalaust ítarleg upptalning.

Ég taldi rétt að vitna til þessa, ekki síst vegna þeirra umr. sem einmitt urðu um þessa grein frv.

Þá er það 6. brtt. Hún er við 7. gr. er verði 8. gr. Greinin orðist svo:

„Tannlæknum er heimilt að hafa aðstoðarfólk. Um sérhæft aðstoðarfólk fer skv. lögum um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir.“

Greinin er stytt og gerð hnitmiðaðri. Það var að dómi nefndarinnar ástæðulaust að kveða nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis þar sem lög um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir frá 1971 kveða sjálf á um framkvæmd hennar.

7. brtt. er við 8. gr. er verði 9. gr. 2. mgr. orðist svo:

„Öðrum en tannlæknum og sérhæfðu aðstoðarfólki undir þeirra stjórn er óheimilt að stunda tannlækningar.“

Nm. þótti 2. mgr. 8. gr. frv. allt of fortakslaus, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Öðrum en tannlæknum og sérhæfðu aðstoðarfólki undir þeirra stjórn er óheimilt að vinna nokkurt það verk sem undir tannlækningar heyrir.“

Ég sagði áðan að nm. hefði þótt þetta of fortakslaust, ekki síst með fræðsluþáttinn í huga, fræðslustarf sem flokkast að sjálfsögðu undir fyrirbyggjandi störf að því er varðar tannlækningar.

8. brtt. er við 12. gr. er verði 13. gr. Í stað „tannlæknaleyfi“ í síðasta málslið greinarinnar komi: tannlækningaleyfi. Þarna er einvörðungu um leiðréttingu á orði að ræða.

9. brtt. Á eftir 12. gr. komi ný grein sem verði 14. gr. og orðist svo:

„Tannlæknar skulu færa sjúkraskrár yfir sjúklinga sem þeir annast. Óheimilt er að ónýta slíkar skrár nema með leyfi heilbrrh. að fengnum tillögum landlæknis.

Þegar tannlæknir lætur af störfum skal sjúkraskrám, sem hann hefur fært, komið í umsjá landlæknis.“

Hér er um nýja grein að ræða eins og ég gat um. Ég tel að hún skýri sig sjálf. Við nm. í heilbr.- og trn. viljum að öll meðferð á sjúkraskrám sé hin vendilegasta, það sé ekki verið að hlaupa með þær á milli húsa. Við viljum að þar til bærir aðilar hafi þar tögl og hagldir.

10. brtt. er við 13. gr. er verði 15. gr. Fyrri mgr. orðist svo:

„Brot gegn ákvæðum laga þessara varða, auk sviptingar tannlækningaleyfis, sbr. 12. og 13. gr., sektum, varðhaldi eða fangelsi.“

Eins og kunnugt er eru upphæðir sekta ekki lengur bundnar ákveðnum fjárhæðum í sérlögum, heldur fer um það skv. ákvæðum almennra hegningarlaga. Því er lagt til að sektarupphæðir verði felldar niður og gerðar leiðréttingar í samræmi við það á greininni.

11. brtt. er við 15. gr., er verði 17. gr., og greinin orðist svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 7/1929, um tannlækningar, með síðari breytingum.“

Um þetta er það eitt að segja að láðst hefur við gerð frv. að hafa inni að lög um tannlækningar frá 1929 falli úr gildi og er það leiðrétt hér með.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki beinlínis ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð. Eins og hv. þm. hafa tekið eftir eru allmargar brtt. við þetta frv. á þskj. 823 frá 8. landsk. þm., hv. þm. Kolbrúnu Jónsdóttur. Þar er um nokkrar efnisbreytingar að ræða. Ég ætla ekki á þessu stigi að ræða þær brtt. Ég get ekki mælt með því að þær verði samþykktar. Að sjálfsögðu er hv. þm. alveg í sjálfsvald sett, eins og stendur í nál., að fylgja þessum brtt. En ég vil geta þess að þessi mál voru jafnframt rædd í heilbr.- og trn. Niðurstaðan varð sú sem brtt. sem n. flytur öll segja til um. Það hefði verið eðlilegra að hv. flm. þessara brtt. væri viðlátinn. (Gripið fram í.) Já, það er vafalaust eðlileg málsmeðferð, eins og hvíslað er hér í kring, að mælt verði fyrir þeim við 3. umr.

Virðulegi forseti. Ég held ég hafi þetta ekki lengra. N. mælir með samþykkt frv. með þeim brtt. sem ég þykist hafa gert grein fyrir.