03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4768 í B-deild Alþingistíðinda. (4015)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég sé mér ekki annað fært er að hlaupa undir bagga með virðulegum forseta sökum þess skorts á ræðumönnum sem við búum hér greinilega við og leggja aðeins orð í belg. Mönnum gefst þá tækifæri til að hugsa sig um á meðan og hugsanlega mætir virðulegur 6. þm. Reykv. hingað meðan ég mæli fáein orð.

Ég hyggst við 2. umr. um frv. til l. um þátttöku ríkisins í hlutafélagi flytja við það brtt. ásamt með fleiri virðulegum þm. og sú brtt. lýtur að því að það verði kveðið á um það í lögum þessum, ef af verður, hvar nefnt hlutafélag ríkisins og annarra aðila skuli eiga sér heimili og varnarþing. Ég geri sem sagt um það till. að það verði á Akureyri, sem er á Norðurlandi, herra forseti, og er stundum nefndur höfuðstaður Norðurlands. Sumir ganga svo langt að kalla Akureyri höfuðstað landsbyggðarinnar, en hvað um það. (SvG: Matthías var að taka undir það.) Við fögnum að sjálfsögðu stuðningi við það sjónarmið, ég og sennilega virðulegur forseti líka og ekki síður þó að hann komi frá Vestfjörðum, að Akureyri sé réttnefndur höfuðstaður landsbyggðarinnar.

Það hefur verið uppi um það ósk af hálfu aðila af landsbyggðinni, frá Akureyri og víðar að, að þessu nýja fyrirtæki, sem stundum var nefnt í umræðunum þróunarfélag að ég hygg, en heitir hér einfaldlega hlutafélag, verði valinn staður utan Reykjavíkursvæðisins til mótvægis við þá miklu þenslu og uppbyggingu sem þar er nú. Sú krafa hefur reyndar lengi verið uppi að reynt verði að stuðla að byggðajafnvægi með því m. a. að dreifa opinberum stofnunum um landið og sá sem hér stendur hefur lagt á það áherslu í sínu máli að þá verði sérstaklega litið til þess þegar hleypt er af stokkunum nýrri starfsemi, stofnuð ný fyrirtæki eða nýjar þjónustustofnanir, þá verði þau tækifæri ekki látin ónotuð í þessu skyni.

Nú vill svo vel til að hér er hæstv. forsrh., sem eðlilegt má telja, við þessa umr. Ég vil því beina spurningum til hans í sambandi við þetta atriði og þá í fyrsta lagi: Er að vænta stuðnings frá hæstv. ríkisstj. við það sjónarmið sem felst í brtt. sem ég hyggst flytja um við þetta frv.? Brtt. hefur reyndar þegar verið dreift á borð þm. Einnig vildi ég spyrja hæstv. forsrh. almennt, þar sem mér skilst að a. m. k. þrjú mismunandi frv. séu hér til umr., hvað líði afstöðu ríkisstj. varðandi það að í tengslum við þessa uppstokkun á Framkvæmdastofnun ríkisins, þeirri starfsemi sem fyrst og fremst hefur verið innan veggja á Rauðarárstíg, og endurskipulagningu verði byggðasjónarmið höfð í huga á þann hátt að tækifærið verði notað til að koma þessari starfsemi út um landið. Er t. d. að vænta þess að Byggðastofnun verði flutt út á landsbyggðina, til Akureyrar, til Egilsstaða, til Ísafjarðar eða á einhverja sambærilega þjónustumiðstöð í öðrum landshlutum fremur en höfð hér í Reykjavík?

Mér skilst einnig að væntanlegt sé af leyndarmálalista hæstv. forsrh. frv. um eignarhaldsfyrirtæki ríkisins, sem fara skuli með eignarhald ríkisins í hlutafélögum, og bætist þá enn ein stofnunin við sem alveg upplagt væri að mínu viti að flytja út fyrir Reykjavíkursvæðið til að draga úr þeirri miklu þenslu og óæskilegu að margra mati sem hér hefur ríkt. M. ö. o., herra forseti, held ég að hér komi upp í hendurnar á virðulegri ríkisstj. af hennar eigin völdum ágætt tækifæri til að sýna í verki hug sinn til þessara sjónarmiða og láta nú verkin tala.

Ég ætla að öðru leyti ekki að segja mjög margt um þessi mál. Það hefur þegar verið talað fyrir sjónarmiðum okkar Alþb.-manna í þeim efnum og við höfum á það bent að hér sé það að ske, svo merkilegt sem það nú er, að ein stofnun, sem hefur heitið Framkvæmdastofnun, sé að klofna í marga parta, ekki kannske alveg óskiljanlegar öreindir eins og einhverjir höfðu nú áhyggjur af að Sjálfstfl. væri að tvístrast í hér á dögunum, en a. m. k. í marga parta. Það kemur einnig fram einhvers staðar í fskj. með þessum frv. að skipta eigi upp húseigninni við Rauðarárstíg milli þessara mismunandi öreinda Framkvæmdastofnunar heitinnar. Ég held að það sé þá upplagt að selja þá húseign eða hlut t. d. hlutafélagsins eða Byggðastofnunar í þeirri húseign og ráðstafa því fjármagni til uppbyggingar á einhverjum öðrum stöðum á landinu. En ég hefði gjarnan viljað, ekki síst vegna þess að ég á ekki sæti í þeirri n. sem tekur þessi frv. til umfjöllunar, heyra viðhorf hæstv. forsrh. hvað þetta sérstaka mál varðar.