03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4771 í B-deild Alþingistíðinda. (4017)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Ólafur Þ. Þórðarson:

Ég vil fyrst geta þess að ég flokka það nú undir oflát þegar hv. 3. þm. Reykv. talar svo að ég sé eini skrifarinn í deildinni. Það er á misskilningi byggt og veit ég að skrifari sem situr á hægri hönd er þess mjög meðvitandi að svo er ekki.

En ég ætlaði örlítið að víkja að hugmyndum Tómasar Árnasonar, sem fram komu í þeirri nefnd sem við sátum í á sínum tíma þegar verið var að endurskoða sjóðakerfið, m. a. vegna þess að mér fannst mjög afflutt það sem um var að ræða af hv. þm. 6. þm. Reykv. Till. Tómasar, sem hafði stuðning okkar framsóknarmanna, hefði verið hægt að fá stuðning sjálfstæðismanna sem voru í nefndinni, var á þá leið að stofna einn fjárfestingarbanka sem allir sjóðirnir yrðu settir í. Þetta var tvímælalaust gert með það fyrir augum að minnka báknið. Auðvitað hefði þessi sjóður orðið sterkur. Nýjar atvinnugreinar, hverjar sem þær eru, hafa alltaf verið settar til hliðar hjá hinum almennu sjóðum, hvort sem það eru stofnlánasjóðir landbúnaðarins, sjávarútvegsins eða iðnaðar, — nýjar atvinnugreinar, ný umsvif hafa alltaf meira og minna verið sett til hliðar og átt undir högg að sækja, hvar þau ættu heima. Athugasemdir eins og þær að þær greiddu ekki til sjóðanna og fleira hafa gjarnan verið notaðar. Þess vegna töldum við að það kerfi sem væri stuðlaði ekki að því að ný atvinnustarfsemi ætti auðvelt með að brjóta sér brautir. Ég tel þess vegna að allar hugmyndir um að minnka báknið hljóti að samrýmast þeirri stefnu sem þarna var mörkuð og þeim tillögum sem Tómas lagði fram hvað þetta snertir.

Við heyrum það aftur á móti æ ofan í æ að hér séu of stutt skref stigin og einnig hitt að stöðva beri strauma fjármagns sem ekki taki tillit til arðsemi. Þeir straumar fjármagns sem ekki taka tillit til arðsemi fara fyrst og fremst í gegnum fjárlög til margs konar félagsmála og ég tel eðlilegt að þeir sem svona grimmt boða þessa stefnu geri grein fyrir því með brtt. við fjárlög hvort þeir vilja skera niður heilsugæsluna, menntakerfið eða tryggingakerfið, þannig að skýrt komi fram hvað þeir eru að tala um.

Ég hygg aftur á móti að hv. 6. þm. Reykv. hafi á undanförnum árum ekki gert sér grein fyrir því að með gengisskráningu krónunnar hefur verið fært það mikið fjármagn frá landsbyggðinni að þeir fjármunir sem farið hafa til baka í gegnum Byggðasjóð með lægri vöxtum en verðbólguþróunin var eru skiptimynt miðað við hitt. Ef gengisskráning krónunnar hefði verið rétt þyrfti ekki jafnmikið fjármagn til þess að rétta við hjá ýmsum fyrirtækjum úti á landi í dag.