03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4772 í B-deild Alþingistíðinda. (4018)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Aðeins út af spurningu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég er því hlynntur að athugað sé hvort ekki er rétt að staðsetja ríkisstofnanir meira úti á landsbyggðinni en gert hefur verið. Athyglisverð skýrsla kom út um þetta fyrir allmörgum árum. Ég held að menn hafi reynt að framkvæma ýmislegt af því sem þar var lagt til, en það verður að segjast eins og er að þar rakst hvað á annars horn. Ég varð t. d. oft var við það í mínu kjördæmi að þar var því harðlega mótmælt er flytja átti stofnun til Akureyrar. Menn sögðu að það væri mjög erfitt að komast þangað. Mér er kunnugt um að sams konar viðleitni í Noregi rann meira eða minna út í sandinn. Það voru nánast eingöngu menntastofnanir sem tókst að flytja. Ég teldi skynsamlegra að staðsetja Byggðastofnun á Ísafirði eða Akureyri eða Egilsstöðum en þróunarfélagið, en ég treysti mér ekki til að segja meira um það nú. Ég held að það mál þurfi vandlegrar athugunar við.